mánudagur, 27. apríl 2009

Valdamesta ríkisstjórn Íslandssögunnar

Hvað sem öðru líður um úrslit kosninga er eitt atriði nokkuð ljóst í mínum huga.

Sú ríkisstjórn sem mynduð verður á næstu dögum verður líklegast valdamesta ríkisstjórn allra tíma í Íslandssögunni.

Ríkisvaldið mun fara með mörg af mikilvægustu og stærstu fyrirtækjum landsins, og mun jafnframt ráða því bæði beint og óbeint hvaða fyrirtæki verpa tekin yfir, hvaða fyrirtæki eru látin rúlla, hvaða fyrirtæki eru seld áfram með afsláttum, til hverra og svo framvegis. Það verður jafnframt á valdi ríkisstjórnarinnar hvaða vinnureglum verði beitt í þessum málum, hverjir fylgja eftir vinnureglunum og hversu mikil pólitísk slagsíða mun verða við ákvörðunartökur.

Ríkisstjórnin mun jafnframt taka stærstu ákvarðanir sem teknar hafa verið um niðurskurð til velferðarmála, og ræður því í aðalatriðum hversu Ísland verður mikið velferðarþjóðfélag að nokkrum misserum eða árum liðnum. Í sömu andrá verður að nefna stórar ákvarðanir í skattamálum sem verður að taka á næstu vikum.

Ríkisstjórnin þarf ennfremur að taka ákvarðanir um umsókn eða ekki umsókn í Evrópusambandið. Þar er enn önnur stór ákvörðun sem þarf að taka sem varðar sögu þjóðarinnar til lengri tíma.

Ríkisstjórnin sem nú verður mynduð hefur óskorað umboð kjósenda til að gjörbylta umgjörð um úthlutun aflaheimilda til framtíðar. Þannig vilja kjósendur að ríkisstjórnin geri grundvallarbreytingar á einni af þremur mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin mun þurfa að endurmóta frá grunni umgjörð og regluverk fjármálastarfsemi í landinu. Þar má nefna bankastarfsemi, eftirlitsaðila, neytendavernd og afnám eða ekki afnám verðtryggingarinnar.

Að síðustu verð ég að nefna að ríkisstjórnin hefur víðtækt umboð til aðgerða til hjálpar heimilunum í landinu. Þingmeirihluti vinstri-manna gefur til kynna að kjósendur vilji róttækar aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur því víðtækt vald, með fullu samþykki þjóðarinnar til stærri og mikilvægari aðgerða en nokkru sinni fyrr.

Að þessu sögðu er augljóst að næsta ríkisstjórn sækir sér eitthvert víðtækasta umboð til breytinga, ákvarðana og verknaða sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefur haft undir höndum áður. Því er mikilvægt að við upphaf vegferðarinnar verði skrifaður skýr, afdráttarlaus og heiðarlegur stjórnarsáttmáli. Þar sem við fáum að vita nokkuð nákvæmlega, hvort, hvenær og hvers vegna verður ráðist í breytingar sem varða hag okkar allra.

Engin ummæli:

Króna/EURO