miðvikudagur, 14. september 2011

Töfralausnir rjúpnastofnsins

Sumir telja rjúpnastofninn við þolmörk. Rjúpu hafi fækkað svo mikið að líta beri til þess að friða stofninn tímabundið. Þetta verður að skoða.

Nær grátlegt er að skotveiðimenningu á Íslandi skuli hátta þannig til að fyrsta rjúpnaveiðidag ársins skuli þúsundir íslenskra karlmanna hlaupa í móa og fjöll til þess eins að skjóta heimskar hænur af 10-30 metra færi. Þetta á víst að vera karlmennskutákn. Á kaffistofum vinnustaða eru svo sagðar veiðisögur, og því fleiri rjúpur sem þeir hafa hengt á útidyrnar heima hjá sér - því meiri karlmenni eru þeir í augum vinnufélaga. Nú skal ég ekki leggja dóm á hversu miklu meiri karlmenni þeir eru fyrir bragðið, heldur viðurkenni ég að þetta er vandamál. Aðallega þá fyrir rjúpnastofninn að sjálfsögðu.

Því miður er ekki um það að tala í þessu tilviki að veiða og sleppa. Fáir hefðu áhuga á rjúpnaveiðum með púðurskotum. Verðum við ekki einhvern veginn í fjáranum að leyfa náttúrunni að njóta vafans?

Nokkrar leiðir væri hægt að fara án þess að friða rjúpuna 100%, hér skal ég nefna nokkrar leiðir.

1. Einungis má veiða á laugardögum.
2. Þeir sem skilað hafa inn tveimur refaskottum eða fleiri á árinu fá leyfi til að skjóta einnig á sunnudögum.
3. Þeir sem verða uppvísir af því að selja rjúpnakjöt eigi yfir höfði sér kr. 350.000 í stjórnvaldssekt.
4. Þeir sem þurfa á aðstoð björgunarsveita að halda missi skotveiðileyfið að eilífu. (þetta gæti dregið verulega úr veiði.)
5. Opna fyrir veiðar á álftum í rannsóknarskyni :) , til að draga úr karlmennskusýniþörf karlmanna og dreifa henni betur yfir árið.
6. Að spila lygilegar veiðisögur milli kl. 10 og 11 alla morgna á Rás2 þannig að skyttur finni ekki eins mikla knýjandi þörf til að segja nýjar veiðisögur.
7. Að banna orðið Rjúpa með lögum og nefna fuglinn íslenska hænu, því það hlýtur að vera minna sport að skjóta hænu en rjúpu.
8. Að dreifa gervirjúpum um dali og fjöll, þannig að skyttur lendi reglulega í því að skjóta "falskar hænur" og fái hugsanlega leið á hænuveiðunum.
9. Að útrýma fálka á Íslandi, því hann étur jú rjúpu í talsverðum mæli.
10. Að selja rjúpnaveiðileyfi á 50.000 kr. stk til að eingöngu hálaunafólk, sem nennir vart að ganga til fjalla, hafi efni á að veiða rjúpu.

....eða var þetta djók?

föstudagur, 2. september 2011

Þórunnarbless

Þórunn dóttir Sveinbjarnar er hætt á þingi skv. þessu.

Kemur þá tvennt myndrænt upp í huga mér:



mánudagur, 29. ágúst 2011

Kínagæinn

Ég fagna því að þessi Kínagæji sé á góðri leið með að tryggja sér Grímsstaði á fjöllum, sé það rétt að hann hyggist byggja þar upp farsæla ferðaþjónustu. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Það er nauðsynlegt að fámennari landshlutar eignist fjárfesta sem tilbúnir eru að festa fé í ört vaxandi geira, og að ferðagjaldeyrir dreifist betur um landið, þ.e. útfyrir "gullna hringinn".

Stjórnvöld hljóta að sjá að Kínagæjinn getur gert meira en fært bóndanum á Grímsstöðum björg í bú. Hann getur lyft grettistaki í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og orðið öðrum fyrirmynd til stórra verka í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega hver vatnsréttindi Grímsstaða á Fjöllum eru, þó er ekki ólíklegt að Kínagæinn kunni jafnvel með þau að fara, og væri hann íbúi á Evrópska Efnahagssvæðinu.

Semsagt áfram Kínagæi, og Ögmundur að sjálfsögðu.

miðvikudagur, 18. maí 2011

Veruleikafirring Fáskrúðsfirðings

Mikið er það ömurleg staðreynd að austfirskar hægrisinnaðar húsmæður, nokkrir hægrisinnaðir bændur úr minni sveit og mjög náinn ættingji hafi látið lífskúnstnerinn og einkaneyslufíkilinn Tryggva Þór Herbertsson plata sig til að kjósa sig á þing.

- Tryggvi telur sig ekki geta lifað á þingmannlaunum einum saman.

Tryggvi er enn að ljúga. Efri millistétt er ekki þeir sem geta ekki lifað af launum sem eru vel yfir meðallagi.

Amerísk skilgreining á "efri millistétt" hljóðar einhvernveginn svona: Þeir er hafa góða menntun og tekjur sem eru EKKI yfir meðallagi. Margir hverjir ráðgjafar, eða eru virtir að verðleikum sem fræði- eða fagmenn.

Að tilheyra efri millistétt fjallar um virðingarstiga og menntun frekar en laun eða ríkidæmi.

ERGO: Vandamálið hjá þér Tryggvi, er að þú ert ekki nógu skynsamur í eigin fjármálum. Þú lifir eins og kóngur og áttar þig ekki á stöðu þinni í lífinu. Þekkt fyrirbæri sem íslenska orðið "veruleikafyrring" nær að fanga svo auðveldlega og lýsir stöðu þinni ákaflega vel.


laugardagur, 14. maí 2011

Molar um þorska #1

Það besta við kvótakerfið eins og það er rekið í dag er hugmyndin um „fiskveiðiár“. Við skulum ekki breyta hugmyndinni um „fiskveiðiár“. Hagkvæmnin sem felst í því að veiða ákveðið magn af fiski yfir allt árið er mikil.

Muninn á sóknarmarki og aflamarki þekkja of fáir sem ég þekki.
Sóknarmark er þegar ALLIR sem vilja keppast um að veiða fyrirfram ákveðið magn. ALLIR vilja veiða sem mest á sem stystum tíma til að auka sinn hagnað. Þannig er innbyggt í sóknarmark að skip verða fleiri en þörf er á, og aflinn er veiddur á styttri tíma. Niðurstaðan er því of stór fiskifloti með of mikla afkastagetu og því enga hagkvæmni.

Þeir sem vilja kasta ryki í augu fólks, eins og t.a.m. Tryggvi Þór Herbertsson, láta í það skýna, að einungis núverandi kerfi geti boðið upp á „fiskveiðiár“. Það er RANGT.

Hægt er að bjóða veiðileyfi til sölu sem miðast við að ákveðin afli sé veiddur á einu ári.

föstudagur, 13. maí 2011

Klappstýran í Hörpunni

Veskið mitt vældi eins og gömul fiðla í kvöld - vitandi það hvað Harpan kostaði.

Við verðum að þakka Björgólfi Guðmundssyni fyrir Hörpuna. Án hans hefðum við aldrei getað setið fyrir framan sjónvarpið í kvöld og dáðst að Hörpu. Þetta er allt honum að þakka. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að reisa svo frábært hús. Áfram BJÖGGI!!!!

Og jákvæða umfjöllunin alveg áreynslulaus - koma svo Íslendingar - látum bara eins og við höfum viljað þetta hús? Áfram Björgólfur.

___________

Horfði á forsetann - hann var ágætis klappstýra þarna í Hörpunni í kvöld. Soldið táknrænt einhvern veginn að einhvern veginn að forsetinn skuli hafa verið aðalklappari á opnunarhátíð Hörpunnar. Frábært Björgólfur! Klöppum fyrir Björgólfi!

Þannig upplifði ég þetta, auðvitað voru einhverjir iðnaðarmenn þarna sem voru að klappa fyrir flottum flutning Sinfó o.fl.

- EN ég held að forsetinn hafi verið að klappa fyrir Björgólfi.

laugardagur, 7. maí 2011

Það var ekki fyrr en nú undanfarið að ég hef illa fylgst með fréttum og lítið skoðað heimsmálin eða landsmálin. Fór svo að fletta hér á internetinu áðan.

Og sé að Jónas hefur valtað yfir Egil. Leit aðeins á það.

Sá svo að Þráinn hefur hraunað yfir Þorgerði. Las fljótt yfir það.

Og að Páll útvarpsstjóri hefur hrokast út í Eið. Skautaði snöggt yfir það svell.

Komst að því að ég hef lítið lent í "battli" af þessu tagi. Ætli það sé heilbrigt? Eða Óheilbrigt? Er hollt að rífast og skammast með offorsi? Hlýtur að veita einhverja fróun - fyrst svo margir stunda það?

Væri ekki skemmtilegra að þetta fólk myndi yrkja níðvísur hvert um annað og jafnvel rappa þær - svo þetta yrði eilíf skemmtun?

Króna/EURO