mánudagur, 26. maí 2008

Valtýr á grænni treyju

Mikið afskaplega er hressandi að heyra Valtýr Björn Valtýsson tala um íþróttir í Ríkissjónvarpinu. Ráðning Valtýs Björns er vísast til sú snjallasta á íþróttadeildinni frá því Bjarni Felixson var ráðinn á sínum tíma.

Þeir eru nokkrir íþróttafréttamennirnir sem hafa reynt fyrir sér á RÚV í gegnum tíðina - sumir af þeim afar slakir.

__________________________________

laugardagur, 24. maí 2008

Kaupstaðarferð bónda í Skriðdal

"Hver er þessi John Fogerty?" missti ég út úr mér á dögunum.

Bóndi í Skriðdal hafði tilkynnt mér að hann hyggðist rífa sig upp úr sauðburði, frá kasóléttri eiginkonu sinni og frá þjálfun hrossa fyrir kynbótasýningar til þess eins að fara á tónleika með John Fogerty. "Veistu yfirleitt hver þessi John Fogerty er?" spurði ég.

Bóndinn varð frekar svekktur yfir þekkingarleysi mínu á þessum John Fogerty. Bóndinn er núna kominn heim - einstaklega montinn yfir því að hafa hitt fallega og fræga fólkið í Reykjavík. Hann hafði spjallað við DR. Gunna þegar hann fékk sér að reykja fyrir utan á tónleikunum hjá John Fogerty. Bóndinn var enn montnari yfir því að DR. Gunni trúði því ekki að hann væri bóndi.

"Maður þarf nú ekkert að vera kiðfættur með krippu til að vera bóndi." segist bóndinn hafa sagt við DR. Gunna. "Við vorum aðalmennirnir þarna á stéttinni fyrir utan, ég og sko DR. Gunni." bætti bóndinn við.

föstudagur, 23. maí 2008

Leikskólabörnin fá að hitta þotuliðið

Í ljósi þessarar fréttar er mjög feginn að sonur minn er vistaður á leikskólanum Tjarnarlandi en ekki á Tjarnarborg.

Held honum þætti ekkert sérlega gaman í ráðherrabústaðnum - myndi sjálfsagt verða starsýnt út um gluggann.

miðvikudagur, 14. maí 2008

Doktor Snillingur

DR. Gunni! Þú ert snillingur, til hamingju með verðlaunin.

Það mun seint renna mér úr minni að verðvöktun þín varð til þess að lækka verð á tertusneið á kaffihúsi á Egilsstöðum - það segir meira en mörg orð!

Hefði viljað sjá á þig hengdan riddarakross í framhaldinu.

föstudagur, 9. maí 2008

Innlegg dagsins

Stödd var hjá mér kona fyrr í dag. Hún kvaðst hafa séð viðtalið við Ólaf borgarstjóra í Kastljósinu í gærkveldi. Hún kom svo með innlegg í umræðuna:

"Þetta lítur allt saman út fyrir að greyjið maðurinn þurfi að kaupa sér vini."

sagði konan - og ég kímdi.

Hún var ekki að tala um þetta í gríni, heldur að velta þessu fyrir sér í einlægni.

Kommúnísk heimsvaldastefna?

Já! Landsvirkjun power fjármagnað með 8 milljörðum af fé okkar skattborgarana sem eigum Landsvirkjun.

Já! Landsvirkjun power að fara að meika það í Tyrklandi.

Já! Starfsmenn Landsvirkjunar í sandkassaleik með peninga ríkisins.

Já! Er þetta kommúnísk heimsvaldastefna?

Já! Af hverju eru íslenskir skattborgarar að fjárfesta í Tyrkneskum orkuframkvæmdum?

Já! Af hverju er Landsvirkjun yfirleitt að fjárfesta utan Íslands? Hver er tilgangurinn?

Já! Og sjálfstæðisflokkurinn vill einkarekið heilbrigðiskerfi.

Já! Flott STEMMING!!!

Já og koma svo Geir H. Haarde !!!

miðvikudagur, 7. maí 2008

"Silfurskór" Egils

Rak augun í Séð heyrt nr. 11 árið 2008 þegar ég sat á tannlæknastofunni og beið eftir að sonur minn kæmi út með himinháann reikning í höndunum.

Þar vakti sérstakan áhuga minn grein um lífskúnsterinn Egill Helgason, sem oft er kenndur við Silfur Egils. Veifaði hann þar til ljósmyndunar skó sem hann taldi vera fágæta. Skóna sagði hann heita Outback og vera Ástralska. Hann segir frá því í Séð og Heyrt hversu mikið hann þarf að hafa fyrir því að útvega sér slíka skó í erlendri sérverslun.

Vildi bara benda Agli á að skórnir sem heita Redback, og þá er hægt að fá í næstum öllum hestavöruverslunum á Íslandi. Það er hægt að velja um hvort þeir eru með stáltá eða ekki, og hvort þeir eru með fínu eða grófu mynstri.

Þannig að í guðanna bænum Egill, ekki eyða peningum í flugfar til Evrópu til að kaupa þér bóhemíska skó - sem hægt er að fá víðast hvar á Íslandi. Á reyndar svona skó - og mæli með þeim líka.

föstudagur, 2. maí 2008

Að sleikja skó kvalara síns

Rakst á litla frétt í einhverju blaði í dag eða gær, sem fjallaði um að Hekla hefur lækkað verð á innfluttum bílum. Lækkunin er semsagt allt að 17% og er mishá eftir bíltegundum. Mesta lækkunin var á lúxusvörunni Audi.

Fyrsta spurningin sem vaknar er sú hvers vegna fyritæki getur lækkað verða á vöru þegar gengi krónunnar er búið að falla um tugi prósenta á stuttum tíma. Er þetta merki um að það er búið að vera óvenju há álagning á vöru fyrirtækisins í talsverðan tíma? Svo há að þótt virði krónunnar falli þá sé samt svigrúm til lækkunar?

Ef ég hlypi til og keypti mér bíl - Væri ég þá að sleikja skó kvalara míns?

Ég veit það ekki, en pæli í því.....

Króna/EURO