mánudagur, 9. febrúar 2009

Flösuvandamál Flokksins

Eftir 18 ára "farsæla" valdatíð með milli 30-40% fylgi að jafnaði hefur Flokknum tekist að raða réttum mönnum á rétta staði, á flestum stöðum. Auðvitað hriktir í þegar Flokkurinn uppgötvar að hann hefur misst völdin. Auðvitað finna Flokksmenn til með Flokksmönnum sínum sem verða "fyrir" því að vera færðir til í starfi eða settir út á guð og gaddinn.

Að mörgu leyti hljóta margskonar tilfærslur í mannahaldi að vera skiljanlegar. Ekki vill ríkisstjórnin hafa Flokksmenn sendandi SMS dægrin löng um viðkvæm mál, beint til fjölmiðla eða Flokksmanna í þinginu. Pólítískar Flokksráðningar í æðstu stöður í ráðuneytum hljóta að vera eitt af því fyrsta sem ráðherrar skoða. Nýskipaður ráðherra, sem hefur það efst á stefnuskránni að auka traust, hlýtur að horfa til þess hvort hann/hún treystir þeim starfsmönnum sem þeim er ætlað að vinna í hvað mestri nálægð og trúnaði við.

Að skipta út pólitískt ráðnu Flokksfólki er ekki valdníðsla eða einelti, heldur ófrávíkjanleg skynsemi.

Valdhrokann tekur nokkur ár að hrista af öxlum Flokksins. Þetta er eins og að vera með erfiða flösu, þegar hrist er af öxlum þá er jafnmikil flasa á öxlunum andartaki síðar. Þeir sem hafa átt við flösuvandamál að stríða vita að það getur reynst langvinnt. Að skipta um sjampó er ágætis byrjun, svo getur verið fínt að fara í sturtu, fá ráð frá sérfræðingi, fara í flösumeðferð eða hvað svo sem kann að laga þetta hvimleiða vandamál. Vandamál sem stundum getur varað í fjögur til átta ár.

Engin ummæli:

Króna/EURO