fimmtudagur, 24. september 2009

Berjalaust í Hádegismóum

Ég hef í nokkra daga velt því fyrir mér hvort ég hafi yfir höfuð einhverja skoðun á því hvort Davíð sé rétti ritstjóri Morgunblaðsins. Hef hugsað málið útfrá nokkrum sjónarhólum, og í raun komist að því mér finnst ráðningin skemmtilegt krydd í tilveruna.

Morgunblaðið er í raun ekki opinber stofnun, heldur eitt sterkasta vörumerki þjóðarinnar í eigu Árvakurs. Gallinn við fyrirtækið er að það hefur vaxið sjálfu sér til höfuðs í krafti offjárfestinga og metnaðarfulls mannahalds. Fyrirtækið gekk til að mynda ekki í gegnum þann hreinsunareld hagræðingar og uppstokkunar sem nauðsynleg var með nýjum eigendum eftir hrun. Að nýta ekki tækifærið á þeim tímapunkti til hagræðingar er hægt að segja hafi verið með afbrigðum slæm rekstrarmistök hjá útgefanda blaðsins. Ljóst var á þeim tímapunkti að skera þyrfti niður kostnað svo um munaði, það var einungis gert í smáum skömmtum. Mun færri seldar auglýsingar og fækkun áskrifenda í kjölfar efnahagserfiðleika áttu að klingja bjöllum hjá nýjum eigendum - strax áður en þeir ráðgerðu að kaupa fjölmiðilinn. Því má segja að óumflýjanlegum niðurskurði á "skrímslinu" hafi verið frestað. Tilfinningar eru skilst mér afar óæskileg breyta við rekstrarlegar uppstokkanir. Tánni verður að fórna fyrir búkinn. Því er ver og miður.

Nú þekki ég ekki persónulega hvernig pólitík, mannleg gildi, persónuleg geta, ritsnilli, viðvera, launastrúktor og fleira spiluðu inn í uppsagnir dagsins. Hitt vitum við þó öll; uppsagnir hljóta að hafa verið óumfýjanlegar í berjalausum Hádegismóum. Því miður get ég ekki greint á milli sannleikskorna og gremju hjá formanni blaðamannafélagsins sem svo sviplega var sagt upp í dag. Mér kemur þó vart í hug að svipuð viðbrögð hefði hún haft í frammi við sambærilegt atvik hjá öðrum fjölmiðli, t.a.m. Fréttablaðinu - eða bara hjá Kompási.

Trúverðugleiki Morgunblaðsins frá deginum í dag er eitt af því sem samkeppnisaðilinn vill tala niður. Trúverðugleiki er eitthvað sem þú ávinnur þér, með vönduðum, öguðum og réttum fréttaflutningi. Tíminn einn getur leitt í ljós hver trúverðugleiki Morgunblaðsins verður að nokkrum mánuðum liðnum. Fréttastofa Stöðvar 2 í eigu Jóns Ásgeirs, Fréttablaðið í eigu Jóns Ásgeirs, Vísir.is í eigu Jóns Ásgeirs og DV í eigu pilsfaldsins - hversu trúverðugt er það? Þessir fjölmiðlar eru frjálsir, og þangað eru ráðnir já-bræður eigendanna að sjálfsögðu. Hví skildum við ekki gefa Morgunblaðinu tækifæri til að vera frjálst um sinn? Og sjáum hvert viðskiptaleg ákvörðun fyrrverandi forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar og samverkamanns Jóns Ásgeirs leiðir fjölmiðilinn.

Það er rétt að pólitísk tengsl Morgunblaðsins við harðann kjarna í Sjálfstæðiflokknum eru augljós. Þau hafa ekki verið jafn augljós í svosum eins og eitt ár - eða síðan Styrmir Gunnarsson var innmúraður ritstjóri um áraraðir. Nú hefur múrarameistarinn sjálfur einfaldlega tekið við stólnum. Sé í raun engan mun á því skoðanalega hvort Styrmir eða Davíð ritstýri blaðinu. Kjallaragreinar og leiðarar verða að vísu skemmtilegri. Hitt veit ég þó að stór hluti lesenda mun áfram lesa fólk í fréttum, íþróttir og fleira skemmtilegt efni sem birst hefur í mogganum til þessa. Veit líka að Evrópusambandssinnum fjölgaði ekki meðan Morgunblaðið hafði ritstjóra sem vildi stefna þangað rétt eins og ég. Áskrifendur hafa jú frelsi til að segja upp blaðinu, og væri þá um að ræða afleiðingar viðskiptalegrar ákvörðunar stjórnar Árvakurs.

Áhyggjuefni er að sjálfsögðu að blaðamenn búa við afar slakt atvinnuöryggi. Ég votta þeim sem misstu störf sín samúð mína. Ég veit af eigin reynslu hversu sárt er að horfa á eftir starfi sem unnið er fórnfýsi. Formaður blaðamannafélagsins og stjórn þess hefur ærin verkefni að vinnu næstu misseri. Helsta verkefnið að sjálfsögðu að bæta kjör blaðamanna upp til hópa. Ísland er eitt af fáum lýðræðisríkjum þar sem blaðamenn ná vart launakjörum millistéttarinnar. Í ljósi reynslu síðustu ára verður blaðamannafélagið að einbeita sér markvisst að því að auka réttindi stéttarinnar við uppsögn. Lengja verður uppsagnarfrest í ljósi reynslunnar, en þó ekki gagnkvæmt. Það má ekki vera ódýrt að segja upp blaðamanni á oft annarlegum forsendum. Að auki þyrfti blaðamannafélagið að taka þátt í upplýstara þjóðfélagi og upplýsa opinberlega á heimasíðu sinni um flokkstengsl, kunningjahóp, fjölskyldutengsl, bakgrunn og hlutabréfaeign félagsmanna. Ljóst er að blaðamannastéttin er rúin trausti, og það nánast á öllum fjölmiðlum. Formaður blaðamannafélagsins á EKKI að hafa skoðun á því hver er ritstjóri prentmiðla.

Að þessu sögðu er ég í heildina ánægður með það að Davíð Oddsson skuli vera orðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Sérstaklega held ég að skemmtanagildið verði á háu stigi þegar kastað verður steinum úr glerhúsum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins á víxl næstu mánuðina. Merkilegast við þessa stöðu er að tveir stærstu prentmiðlar landsins sem báðir ramba á barmi gjaldþrots, munu heyja baráttu á næstu mánuðum upp á líf og dauða, viðskiptalega - og alveg pottþétt persónulega. Þegar annar hvor eða báðir þessir prentmiðlar deyja drottni sínum, mun öngvum koma það neitt sérstaklega á óvart.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður núna

Nafnlaus sagði...

Prentmiðlar eru fortíð. Amen.

Nafnlaus sagði...

Mjög fínn póstur hjá þér. Hárfín greining á ástandinu - algerlega sammála.

Króna/EURO