mánudagur, 19. desember 2011

Dýr slys, ódýrar lausnir

Það er talsvert rætt um Norðfjarðargöng þessa dagana á Austurlandi. Ástæðan er líklega sú að gleymst hefur að framkvæma þau og íbúarnir sem vonuðu – vona enn. Samgönguráðherra segir reyndar að ódýrara sé að moka fjallvegi heldur en gera göng, geri ráð fyrir að það sé algilt og eigi við um allt land.

Dýrar lausnir er oft á tíðum erfitt að fá framkvæmdar. Þrátt fyrir að hægt sé að sýna fram á þjóðarhagkvæmni til lengri tíma.

Austurlandið er afskekkt að mörgu leyti. Þar eru líka starfsmenn Vegagerðarinnar ansi einangraðir í hugsun. Salt er ekki notað nema á allra hættulegustu stöðum og afar lítið er um hálkuvarnir. Í lélegu skyggni gæti verið hægt að bjarga fleiri mannslífum með góðum hálkuvörnum og styttra millibili milli vegstikna, og fleiri vegriðum. Styttra millibil vegstikna fjölgar t.a.m. endurskinum og minnkar líkur á útafkeyrslum og umferð á röngum vegarhelmingu í lélegu skyggni. Það virðist þó einungis vera hægt að framkvæma slíka hluti annars staðar en á Austfjörðum.

Ég þekki það að sækja vinnu um Fagradal til Reyðarfjarðar. Ég hef upplifað það nokkrum sinnum undanfarin ár að keyra fram á alvarleg slys og jafnvel banaslys. Fólk á öllum aldri hefur týnt lífi í umferðinni á fjallvegum Austurlands, erfiðast er að sjá eftir ungu fólki sem sækir atvinnu og menntun milli þéttbýla á svæðinu.
Alvarlegt slys getur verið afar óhagkvæmt borgurum landsins, örorkubætur og heilbrigðiskostnaður getur reynst gífurlegur í áratugi eftir alvarleg slys. Því hlýtur það að vera sérstakt áhyggjuefni að Vegagerðin á Austurlandi sé svo einangruð frá raunveruleikanum að ekki sé hægt að framkvæma ódýrar slysavarnir á hættulegum leiðum um fjallvegina.

Ferskt er mínum huga er slys s.l. fimmtudag rétt við álverið í Reyðarfirði. Þá leið hafði ég keyrt á miðvikudagskvöld, á um 50-60 kílómetra hraða, á leið okkar hjóna til Eskifjarðar á Frostrósatónleika. Á 4-5 kílómetra kafla var þvottabretti úr rásuðum klakabunka á veginum og aðstæður vægast erfiðar fyrir fólksbíla á mjóum dekkjum. Keyrðum við m.a. fram á Toyota Yaris sem hafði snúist og kastast út af veginum, þar varð ekki slys. Ég hafði þá á orði að mjög dæmigert væri að ekkert væri að gert fyrr en alvarlegt slys hefði orðið. Daginn eftir varð ungur maður fyrir því á sama kafla að bíllinn hans rann til yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir bíl úr gagnstæðri átt. Tveir dveljast á Fjórðungssjúkrahúsinu eftir slysið og einn var sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Þetta var atvik sem hægt var að koma í veg fyrir með ódýrri aðgerð á sviði hálkuvarna.

Þrátt fyrir að erfitt sé að fá veggöng á Austurland, þá hlýtur að vera hægt að framkvæma ÓDÝRAR úrbætur í slysavörnum á fjallvegum Austurlands. Það er hægt að sjá fyrir mörg slys og koma í veg fyrir þau.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð sem þú segir. Óskiljanlegt er að ekki skuli neitt gert í hálkuvörnum nema á hættulegustu stöðunum, og varla það.
Og það verður hreinlega að finna einhverja leið til að auðvelda mönnum að aka Fagradalinn í kófi. T.d. með þéttari stikum.

Siggi Bró sagði...

Þarna hittiru naglann á höfuðið! Svosem ekkert í fyrsta skiptið.
Sigurður Sindri

Nafnlaus sagði...

hvað meinið þið????


það er ekkert skemmtilegra en að leika leikinn "gettu hvar vegurinn er" á leið sinni um Fagradalinn!

Ef þeir myndu þétta stikur þar, þá væri leikurinn ekki samur...

Heywood Jablome

Eiður Ragnarsson sagði...

Stikur á Fagradal eru reyndar þéttari en annarsstaðar, mig minnir að það séu 40 metrar á milli þeirra í stað 50 svo má velta því fyrir hvort að það sé nóg.
Hálkuvörnum er verulega ábótavant og er það miður því að það er eins og þú bendir á ódýr slysavörn.

KvER

Króna/EURO