fimmtudagur, 29. ágúst 2013

Olía á eld

Þeir sem vilja leggja af innanlandsflug til Reykjavíkur þurfa að koma með lausnir á neyðarsjúkraþjónustu við landsbyggðina. Þær eru eflaust fjölmargar. Til að mynda mætti koma upp alvöru spítala nærri Keflavíkurflugvelli, og nærtækara væri að koma upp tækjakosti, húsaskosti og starfsmönnum sem framkvæmt gætu þjónustuna á Akureyri. Tæknilega er allt mögulegt. Meira að segja gæti landsbyggðin orðið enn öflugri með Akureyri sem getumeiri þjónustukjarna. Þetta myndi meira að segja vera ákveðin lausn á dóminerandi borgríkisstefnu undanfarinna 30-40 ára.


Þeir sem vilja sjá flugvöllinn úr Vatnsmýrinni verða að sjá rök landsbyggðarinnar um neyðarsjúkraþjónustu sem alvöru rök, og tala fyrir lausnum. Það er eina leiðin til að flugvöllurinn fari einhvern tímann úr Vatnsmýrinni. Að benda á vegalengdir í Osló er eins og að kasta olíu á eld, í Noregi eru nefnilega spítalar um allt land sem geta sinnt neyðarþjónustu, göng í hverjum firði og þyrlur í hverjum landshluta. Þar eru stærðir og þjónustustig öðruvísi um allt land.

laugardagur, 24. ágúst 2013

Að þegja eða segja

Ég vil þakka sumarstarfsmanni á leikskóla í Reykjavík fyrir að hafa hugrekki til að greina frá vinnubrögðum og meintu ofbeldi einstakra starfsmanna sem gætu varðað við barnaverndarlög. Þetta hugrekki sumarstarfsmannsins eigum við öll að taka til fyrirmyndar – ekkert okkar á að láta ofbeldi gagnvart börnum líðast, við eigum alltaf að segja frá,  það er ekki okkar að dæma hvað er á gráu svæði heldur yfirvalda.

Sumarstarfsmaðurinn gerði hið eina rétta, alveg óháð framvindu mála sem hefur orðið í kjölfarið. Ég efast þó um að stjórnsýsla borgarinnar hefðu unnið málin með þessum hætti ef um leikskóla í eigu borgarinnar hefði verið að ræða.

Fjölmiðlar gegna líka sínu hlutverki, og verða í umræddu tilviki til þess að stjórnsýslan tekur málið föstum tökum. Tryggt er að börnin njóta vafans, því jú enginn annar á að njóta vafans.

Allt of margir hafa þagað æsku barna í hel undanfarna áratugi. Hjartagóðar manneskjur hafa horft upp á viðurstyggilega hluti og ekki tilkynnt um það, og þannig orðið að þegjandi vitorðsmönnum. Þarna er hægt að nefna Landakot og Breiðuvík sem dæmi.

Breytt: Við hjónin höfum staðið frammi fyrir því að okkur var sagt frá hugsanlegri vanrækslu barns okkar á leikskóla. Þær upplýsingar fengum við eftir á, þegar full seint var í rassinn gripið.

Aukaorð: Ritað kl. 20:30 24.8.2013. Það leiðréttist hér með að það sem stóð neðarlega í þessari færslu um að fjölmiðlar hafi ekki sagt frá sýknudómi var rangt. Fjallað var um það, og vitnað í dómsorð. Inntak mitt sem ég tel þarft - um að ef einhvern grunar að ofbeldi eða vanræksla eigi sér stað þá á hinn sami að láta vita

föstudagur, 23. ágúst 2013

EGS - KEF - OSL

Lítum aðeins á landslagið sem verður til þegar og ef Reykjavöllurflugvöllur verður aflagður. Líklegast er hagkvæmast að byggja ekki annan flugvöll þar sem áhöld eru um gæði flugvallarstæða og landrými ekki nægjanlegt í höfuðborginni. Landakaup, hönnun, framkvæmdir og umferðarframkvæmdir myndu hlaupa á tugum milljarða. Við skulum heldur ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að Reykjavíkurborg gæti þurft að borga tugi milljarða til að bæta ríkinu mannvirkin, skv. skipulagslögum.

Þess vegna yrði þjóðhagslega hagkvæmast að nýta Keflavíkurflugvöll til innanlandsflugs. Þar gætu þjóðfélaginu sparast verulegur fjöldi milljarða og t.a.m. væri hægt að leggja niður nokkurn fjölda starfa í kjölfar góðrar hagræðingar.

Erlendir flugfarþegar gætu tekið beint tengiflug út á land, og gæti sala gistirýma á landsbyggðinni stóraukist til erlendra ferðamanna. Íbúar landsbyggðarinnar sem þurfa að ferðast erlendis munu geta sparað sér umtalsverða fjármuni og lestað sig samdægurs á erlendar flugleiðir. Hagræðið er ansi mikið. Fullt fargjald Egilsstaðir-Reykjavík-Egilsstaðir er verðlagt á um 45.000 kr. og því nauðsynlegt að stuðla að samkeppni á þessu sviði af hálfu stjórnvalda.

Til að leysa kröfu landsbyggðarinnar um aðgang að neyðarþjónustu spítalanna þyrfti að koma á fót neyðarþyrluþjónustu þar sem tiltækar þyrlur yrðu að vera til staðar í öllum landshlutum.  Engar þyrlur eru staðsettar á landsbyggðinni og flugtími þeirra frá Reykjavík í neyðartilfellum er óásættanlegur. Úr því yrði betri viðbragðstími, einnig gagnvart íslenskum sjómönnum sem yrkja sjóinn. Sérstök þylulæknadeild þyrfti væntanlega að þjónusta þyrlurnar með sólarhringsvakt í hverjum landshluta. Sjái sérfræðingar í heilbrigðismálum ekki fram á að neyðarþyrluþjónusta yrði nógu skilvirk væri flutningstími sjúklinga á góðan spítala ekki nógu stuttur. Þá værum við í þeirri stöðu að byggja þyrfti nýjan spítala í Reykjanesbæ sem þjónustað gæti Reykjanesið og landsbyggðina. Þetta myndu Suðunesjamenn ekki gráta, og gæti verið nýtt tækifæri í atvinnusköpun á þeirra svæði – væri eins konar brotthvarf frá borgríkisþróun undanfarinna áratuga.
Einnig er fyrirsjáanlegt að ný flugfélög sæu sér hag í að bjóða upp á innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli, enda fyrirkomulag þannig að hægt er að leigja sér þar aðstöðu án nokkurra vandkvæða. Samkeppni gæti komist á í innanlandsflugi, og fargjöld lækkað. Almenningssamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur yrðu skilvirkari í kjölfar fjölgun farþega í kjölfar innanlandsflugs, og þess myndu íbúar Reykjavíkur og Suðurnesja njóta.

Niðurlagning Reykjavíkurflugvallar gæti með þessum formerkjum orðið gríðarlegt tækifæri fyrir landsbyggðina.

Það er mér allavega til efs, að það væri nokkurn tímann réttlætanlegt að byggja nýjan innanlandsflugvöll svo nærri Keflavíkurflugvelli með þessi tækifæri til hliðsjónar.


Ég reyndar vill persónulega hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er vegna þess að ég hef hingað til sótt meira til Reykjavíkur en útlanda, og mér finnst þægilegt að lenda í miðri borg. Fjölskyldu minnar vegna vil ég að neyðarþjónustan sé aðalatriði þegar ákvarðanir eru teknar.

þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Nostradamus segir:

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að ræða um það hvort Ísland hafi verið í aðlögun eða samningum og hvort fara skuli í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram samningum – sem margir munu kalla aðlögun, og upphefjast þá reglulegar hártoganir um það. Þetta verður ein hringavitleysa.

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að ræða um hvort Ísland eigi í alvörunni að kasta verðtryggingunni í sjóinn. ASÍ, Samfylkingin og Sighvatur munu öskra að hér muni allt hrynja og munu nota sömu aðferðir og LÍÚ notaði á síðasta kjörtímabili – dómsdagsspár.  Samfylkingin verður á þessum vagni og spurning er á hvaða tímapunkti Sjálfstæðisflokknum þyki hentugt að hoppa á hann. Hvort það verður eftir eins, tveggja eða þriggja ára pólitíska herkví er ekki alveg víst.

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að hrækjast á um að tillögur um skuldaleiðréttingar sem þá verða fram komnar séu mjög heimskulegar og verði á endanum greiddar af ríkissjóði, og nýjir brandarar um kattasmölun í þingflokki sjálfstæðismanna munu líta dagsins ljós. Eftir argaþras mun ekkert af því stóra sem kjósendurnir þráðu verða að raunveruleika.


Og verður Ólafur F. gerður að forsætisráðherra þá? Eða tákngervingur hans? Nostradamus hefur áhyggjur af því að þangað stefni þetta núna. Svo verður almenningur brjálaður, og mun rífast um það hvort það sé lögbrot eða ekki að kasta eggjum í þinghúsið.

mánudagur, 19. ágúst 2013

Góð lending.is

Ég er utan af landi og á þar fjölskyldu og vini. Ég vill að þetta fólk geti átt þess kost að lenda í farþegavél í Reykjavík og sótt þar þjónustu í nágrenninu, þ.á.m. neyðarþjónustu. Þess vegna hef ég skrifað undir undirskriftalista á lending.is

Ég veit að Gísli Marteinn getur þá ekki búið í Vatnsmýrinni og hjólað niður í Ráðhús. Það er talsverð fórn.

Ég veit að miðborgin gæti verið öflugri með íbúabyggð í Vatnsmýrinni, og að landsbyggðin væri öflugri flugvöll í Vatnsmýrinni.

Ég veit að mér kemur ekkert við hvað gert er í Reykjavík enda bý ég ekki í sveitarfélaginu þar sem mestu af opinberu skattfé er ráðstafað ár hvert.

Ég veit að ég hef valið að búa úti á landi og á ekki rétt á því að sækja þjónustu í höfuðborginni nema með meiri og meiri tilkostnaði og fyrirhöfn.

Ég veit að samkvæmt lögfræðilegu áliti þá bæri Reykjavíkurborg að greiða fyrir framkvæmd við nýjan flugvöll skv. bótarétti skipulagslaga – en ég veit ekkert hvað það myndi kosta marga tugi milljarða


.....samt ákvað ég nú að skrifa undir þennan blessaða lista.

miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Tekjuniðurskurður Vigdísar

Vigdís Hauksdóttir er í niðurskurðarhópi útgjalda ríkisins. Útvarpsgjald eru sértekjur. Þess vegna getur hún ekki skorið útgjöld ríkisins niður með því lækka áskriftargjald notenda Ríkisútvarpsins. Þetta er augljóst. Hún væri á skringilegan hátt að skera niður tekjur en ekki útgjöld. Engin úttekt óháðs aðila um vinstri eða hægri slagsíðu fréttastofu RÚV styður heldur málflutning Vigdísar um óhlutdrægni fréttastofunnar. Auk þess eru ummæli hennar eins uppfull af gremju, ódulbúnum hótunum og pólitískum afskiptum og frekast getur orðið. Vigdís hefur á skömmum tíma sýnt fram á að áhyggjur margra Framsóknarmanna af málflutningi hennar hafa verið á rökum reistar.

Fróun netsmellana

Sumir íslenskir fjölmiðlar eru lélegir. Eldri sjómaður og ferskeytluhöfundur er nú orðin farsi í umfjöllun sem enginn veit hvað á að snúast um, annað en að kalla fram hörð viðbrögð ákveðins hóps. Maður sem aldrei hefur verið málsmetandi í íslenskri umræðu er skyndilega miðpunktur umræðu um menningu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Einnig er dregið fram fólk til að tjá sig um kjafthátt á ýmsa bóga sem er komin út fyrir öll norm í samfélaginu. Íslensk netmiðlun má ekki stjórnast af litlum prakkarastrákum á snúningsstólum sem hafa fróun af því að fá sem flesta smelli fyrir eins litla fyrirhöfn og hægt er.

föstudagur, 2. ágúst 2013

Ljóslaus sveit

Ég er úti á landi og hef þannig sjónarhorn. Ég bý í sveit og hef svoleiðis sjónarhorn. Auðvitað er það mitt val.

Með ljósleiðaragarm meðfram þjóðveginum virðist ekki vera hægt að bjóða okkur sveitafólkinu upp á nettengingu sem stenst tímans tönn. Meira að segja veit ég dæmi um jarðir þar sem aðalæð netsamskipta Íslands við útlönd liggur í gegnum, en ekki er einu sinni hægt að bjóða upp á þolanlega nettingu á þeim bæjum. Í mínu tilfelli liggur t.a.m. ljósleiðari í landareign minni og sér hann íbúum í öðrum hrepp m.a. fyrir myndarlegri nettengingu auk þess sem hann er samskiptaæð fyrir Fljótsdalsstöð. Þessu má líkja við að stórfljót renni í gegnum landið mitt, en ég megi ekki drekka úr því.

Sjálfur hef ég tengingu frá fyrirtækinu sem kallað er Emax, og býður upp á minnsta mögulega hraða. Samkvæmt fjarskiptalögum á að vera háhraðatenging við internetið á mínu svæði. Það er bara ekki þannig. Stjórnvöld skildu eftir gat í lögunum sem leyfir fjarskiptafyrirtækjum að túlka út frá eigin geðþótta hvað er háhraðatenging og hvað ekki.

Sjónvarpsstöðvar  sem láta dreifa efni sínu á Íslandi eru farnar að treysta á ADSL og ljósleiðarakerfið til að dreifa efni sínu. Aðeins litlu úrvali af því sem stendur til boða í þéttbýlinu er hægt að ná með loftnetsmóttakara, staðan er skömminni skárri þar sem örbylgjusendingar nást – en þó vart bjóðanlegar.
Myndbandaleigum fer fækkandi og er kvikmyndum nú dreift í gegnum „pay per view“ kerfi í ADSL sjónvarpinu. Þar er hægt að leigja sér „spólu“ og hafa það huggulegt. Fyrir ekki svo mörgum misserum síðan gat sveitarómaginn leigt sér bíómyndir eins og annað fólk. Nú er sú fróun að leggjast af.

Einnig fer fram dreifing á ýmsu efni í gegnum netið, þ.á.m. bíómynda og tónlistar. Dagskrá sjónvarpsstöðva er hægt að skoða aftur í tímann og margskonar þjónusta á internetinu kallar á hraðvirkar tengingar. Sjálfur hefði ég tildæmis kosið að fylgjast með Meistaradeildinni í hestaíþróttum í „live-stream“ á netinu, það er ekki möguleiki í mínu tilfelli.

3G tengingar svokallaðar hafa reynst sumum bændum vel, þar sem skilyrði eru góð. Svo er ekki í mínu tilfelli og fjölda annarra. En á ég að fara fram á betra 3G, þegar verið er að setja upp 4G á fjölmennari svæðum?
Internettengingar í gegnum gervihnött veit ég að eru tæknilega framkvæmanlegar og er boðið upp á þær víða í Evrópu. Engin slík lausn er í boði á Íslandi og hvergi hægt að sjá að sá kostur hafi verið kannaður. Þrátt fyrir að það kunni að vera þjóðhagslega hagkvæmt og arðbær rekstur.

Brotthvarf ríkisins af fjarskiptamarkaði kemur í veg fyrir að fyrirtækin sem þurfa að skila hluthöfum hæsta mögulega arði horfi á annað en arðbærustu þéttbýlisstaði við útvíkkun á þjónustu.
Auk þessa alls hljóta það að vera sjálfsögð mannréttindi að fólki standi til boða svo almenn og útbreidd þjónusta sem hraðtenging við internetið er. Hvers vegna í ósköpunum var sett upp dreifikerfi rafmagns og síma í sveitum landsins á sínum tíma? Jú – vegna þess að það er sjálfsögð þjónusta sem notendur voru tilbúnir að greiða fyrir.


Það hefur komið bersýnilega í ljós að dreifikerfi Símans átti aldrei að selja. En útgangspunkturinn hlýtur að vera sá að stjórnvöld þurfa að hreyfa bæði legg og lið til að við sem fáum bara örfáa „dropa“ af internetinu fáum væna bunu úr krananum. Það væri sanngjarnt, réttlátt og fallegt.

Steinklumpalegt

Jú ég get staðfest það að Vigdís Hauksdóttir er tifandi fjöltímasprengja sem ómögulegt er að reikna út. Skoðanir sínar setur hún fram af svo mikilli áfergju að mörgum hryllir við, þrátt fyrir að grunnhugsunin geti oft verið skynsamleg er rökstuðningnum fleygt fram af einstakri rörsýni og óþolinmæði fyrir víðara samhengi.

Í þessari frétt um byggingu nýs Landspítala tekst henni algjörlega að teyma þessa umræðu inn á stríðssvæði sem fyrrverandi Víetnam hermenn ættu að þekkja ágætlega, skotgrafir og eldsprengjur.

Í stað þess að útskýra hvers vegna ætti ekki að byggja nýjan Landspítala og fara aðrar leiðir til að gera spítalann hagkvæmari, þá uppnefnir hún þá vinnu og kostnað sem farið hefur í þessa hít - steinsteypuklump. Án nokkurar virðingar við t.d. Jón Kristjánsson fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem fyrst ljáði máls á byggingu þessari, og var svo Alfreð Þorsteinsson ekki langt undan þegar skipaður var fyrsti verkefnisstjóri. Ekki það að ég ætli Vigdísi að bera meiri virðingu fyrir gömlum Framsóknarmönnum heldur en þeim sem á eftir komu.

Ég efast um að nýr Landspítali verði byggður, enda væri það einkennileg ráðstöfun í mínum huga að láta lífeyrissjóði lána ríkinu fyrir eina af dýrari framkvæmdum sögunnar og rukka fyrir það verðtryggða okurleigu. Þurfi ríkið lánsfé er nauðsynlegt að ríkið fái þá lánaða peninga frá Lífeyrissjóðunum á markaðskjörum, en þar sem skuldaskema ríkissjóðs þolir ekki slíka ráðstöfun þá þolir ríkissjóður heldur ekki fifferí sem helst líkist eignarhaldsfélaginu Fasteign - sem margur sveitarstjórnarmaðurinn þekkir afleiðingarnar af. Hærri kostnaður og minna ráðstöfunarfjármagn.

Er ekki örugglega hægt að fara hófsamari leið? Er ekki hægt að gera heilmikið í tækjamálum og húsnæðismálum stofnunarinnar fyrir svona 20 milljarða? Eða kannski bara svona 30 milljarða? Væri ekki hægt að fara fram á tillögur frá stofnuninni um öðruvísi, minni og smálegri framkvæmdir?

Svarið er reyndar alltaf JÁ - það væri alveg hægt.

Í staðinn hefur Vigdís Hauksdóttir valið að fara í heldur "steinklumpalega" umræðu og útkoman verður harðlífis steinklumpur sem ákaflega erfitt getur reynst að sturta niður í alþingishúsinu.

Króna/EURO