þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Nostradamus segir:

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að ræða um það hvort Ísland hafi verið í aðlögun eða samningum og hvort fara skuli í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram samningum – sem margir munu kalla aðlögun, og upphefjast þá reglulegar hártoganir um það. Þetta verður ein hringavitleysa.

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að ræða um hvort Ísland eigi í alvörunni að kasta verðtryggingunni í sjóinn. ASÍ, Samfylkingin og Sighvatur munu öskra að hér muni allt hrynja og munu nota sömu aðferðir og LÍÚ notaði á síðasta kjörtímabili – dómsdagsspár.  Samfylkingin verður á þessum vagni og spurning er á hvaða tímapunkti Sjálfstæðisflokknum þyki hentugt að hoppa á hann. Hvort það verður eftir eins, tveggja eða þriggja ára pólitíska herkví er ekki alveg víst.

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að hrækjast á um að tillögur um skuldaleiðréttingar sem þá verða fram komnar séu mjög heimskulegar og verði á endanum greiddar af ríkissjóði, og nýjir brandarar um kattasmölun í þingflokki sjálfstæðismanna munu líta dagsins ljós. Eftir argaþras mun ekkert af því stóra sem kjósendurnir þráðu verða að raunveruleika.


Og verður Ólafur F. gerður að forsætisráðherra þá? Eða tákngervingur hans? Nostradamus hefur áhyggjur af því að þangað stefni þetta núna. Svo verður almenningur brjálaður, og mun rífast um það hvort það sé lögbrot eða ekki að kasta eggjum í þinghúsið.

Engin ummæli:

Króna/EURO