föstudagur, 2. ágúst 2013

Steinklumpalegt

Jú ég get staðfest það að Vigdís Hauksdóttir er tifandi fjöltímasprengja sem ómögulegt er að reikna út. Skoðanir sínar setur hún fram af svo mikilli áfergju að mörgum hryllir við, þrátt fyrir að grunnhugsunin geti oft verið skynsamleg er rökstuðningnum fleygt fram af einstakri rörsýni og óþolinmæði fyrir víðara samhengi.

Í þessari frétt um byggingu nýs Landspítala tekst henni algjörlega að teyma þessa umræðu inn á stríðssvæði sem fyrrverandi Víetnam hermenn ættu að þekkja ágætlega, skotgrafir og eldsprengjur.

Í stað þess að útskýra hvers vegna ætti ekki að byggja nýjan Landspítala og fara aðrar leiðir til að gera spítalann hagkvæmari, þá uppnefnir hún þá vinnu og kostnað sem farið hefur í þessa hít - steinsteypuklump. Án nokkurar virðingar við t.d. Jón Kristjánsson fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem fyrst ljáði máls á byggingu þessari, og var svo Alfreð Þorsteinsson ekki langt undan þegar skipaður var fyrsti verkefnisstjóri. Ekki það að ég ætli Vigdísi að bera meiri virðingu fyrir gömlum Framsóknarmönnum heldur en þeim sem á eftir komu.

Ég efast um að nýr Landspítali verði byggður, enda væri það einkennileg ráðstöfun í mínum huga að láta lífeyrissjóði lána ríkinu fyrir eina af dýrari framkvæmdum sögunnar og rukka fyrir það verðtryggða okurleigu. Þurfi ríkið lánsfé er nauðsynlegt að ríkið fái þá lánaða peninga frá Lífeyrissjóðunum á markaðskjörum, en þar sem skuldaskema ríkissjóðs þolir ekki slíka ráðstöfun þá þolir ríkissjóður heldur ekki fifferí sem helst líkist eignarhaldsfélaginu Fasteign - sem margur sveitarstjórnarmaðurinn þekkir afleiðingarnar af. Hærri kostnaður og minna ráðstöfunarfjármagn.

Er ekki örugglega hægt að fara hófsamari leið? Er ekki hægt að gera heilmikið í tækjamálum og húsnæðismálum stofnunarinnar fyrir svona 20 milljarða? Eða kannski bara svona 30 milljarða? Væri ekki hægt að fara fram á tillögur frá stofnuninni um öðruvísi, minni og smálegri framkvæmdir?

Svarið er reyndar alltaf JÁ - það væri alveg hægt.

Í staðinn hefur Vigdís Hauksdóttir valið að fara í heldur "steinklumpalega" umræðu og útkoman verður harðlífis steinklumpur sem ákaflega erfitt getur reynst að sturta niður í alþingishúsinu.

Engin ummæli:

Króna/EURO