laugardagur, 9. febrúar 2008

Innmatsveisla

Ég fór á þorrablót í gærkveldi, trogið var fyrir framan mig og mjög stutt að teygja sig í kræsingar.

Við byrjuðum fljótlega að pikka okkur hákarl úr troginu, þrjú sjentilmenni sem sátum hlið við hlið. Kvenpeningurinn sem sat hinum megin við borðið leit ekki við þessum hákarli.

Einhverra hluta vegna segi ég "Þetta er góður hákarl, hlýtur að vera frá Borgarfirði Eystri. Hann er svo hvítur."

Svo segir hann "Já frábær hákarl"

Svo segir hinn "Einhver besti hákarl sem ég smakkað"

og ég: "Passlega kæstur, fær fimm stjörnur"

og hann: "Borgarfjarðarhákarlinn klikkar aldrei."

Núna er ég heima með magaverk og ógleði - stútfullur af hákarli og hrútspungum. Hvernig í ósköpunum stendur á því að einu sinni á ári telur með úldin hákarl vera herramannsmat? Hvernig stendur á því að maður smjattar á súrum innyflum úr sauðfé einu sinni á ári með bestu list?

Ég held ég fái ekki löngun næstu 11 mánuðina til að éta lambaandlit og súran "innmat" úr allskyns dýrum.

föstudagur, 8. febrúar 2008

Frankenstein er blankur

Í þrjú eða fjögur kjörtímabil hefur Sjálfstæðisflokkur með dyggu liðsinni Krata og Framsóknarmanna náð að framkvæma hugmyndafræði Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í stórum dráttum, með það að markmiði að gera Ísland að ríkasta landi í heimi.


Á þeirri vegferð tókst þeim að skapa skrímsli sem þeir ráða ekki við lengur. Hafa skapað sér eins konar “Frankenstein”. Í “Frankenstein-samtökunum” er fámennur hópur viðskiptamanna sem virðast vera ríkustu menn heims, miðað við höfðatölu. Það gerir Ísland hins vegar ekki að ríkasta landi í heimi.


En í staðinn fyrir að hemja “Frankenstein” og setja honum eðlilegar skorður gagnvart almenningi svo að “Frankenstein” lúti eðlilegum markaðslögmálum þá reyna meðlimir núverandi ríkisstjórnar að gerast meðlimir í “Frankenstein samtökunum”. Tildæmis með því fljúga með þeim til þriðja heimsins og gera ógleymanlega orkusamninga til bjargar öllu mannkyni, viðhalda oxurvaxtastigi á almenning til að tryggja methagnað “Frankenstein” á hverju einasta ári, að viðhalda verðtryggingu til að “Frankenstein” þurfi enga ábyrgð að taka á gjörðum sínum, að halda sjávarauðlindum í eigu “Frankenstein” því hann þarf svo mikinn fisk í soðið og nú vilja þeir að “Frankenstein” eignist heilbrigðisþjónustuna svo að hann geti nú örugglega grætt á einhverju öflugasta velferðarkerfi heimsins. Svo bíða þeir eftir réttu “stemmingunni” til að afhenda “Frankenstein” orkuauðlindir þjóðarinnar.



En þeir virðast bara ekki fatta að þrátt fyrir allt þetta er “Frankenstein” blankur.

___________________________________

Og svo barst þættinum þetta:


Össur og Óli á Abu Dab
Í Eþíópíu án matar
Leitandi að Arabab
Einhvers staðar í Katar
Þeir reyndu að hringja í Mubarab
Þessir góðu kratar

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Hvað er ábyrgð?

Ég velti því fyrir mér hvenær menn segja af sér. Hvenær menn axli ábyrgð á gjörðum sínum og hvernig ábyrgð er öxluð.

Hvað er fólgið í orðinu "ábyrgðarstaða"?

Felst ekki í orðanna hljóðan að menn axli ábyrgð með því að taka ábyrgðarstarf að sér?

Ef það þarf ekki að taka ábyrgð á gjörðum sínum í borgarstjórastólnum, er það þá skoðun sjálfstæðismanna að það sé ekki ábyrgðarstaða?

Ef að sjálfstæðismönnum finnst borgarstjórastóllinn ekki vera ábyrgðarstaða af hverju sækjast þeir þá eftir honum?

Flokkur sem velur mann í borgarstjórastólinn sem GÆTI verið andlega vanheill, og svo mann sem GERÐI stór mistök - getur ekki talið þann stól vera ábyrgðarstöðu.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

TikkTakk

Látum Jóhönnu Sigurðardóttir eiga orðið í nokkrum ræðum sínum:

Blóðmjólkun. feb-2007
Hækkun barnabóta. jan-2007
Vextir og verðtrygging. jan-2007
Skerðing lífeyrisgreiðslna nóv-2006
Húsaleigubætur okt-2006
Viðskiptabankarnir okt-2006
Olíugjald jún-2006
Vaxtabætur jún-2006

.....og svo mætti lengi telja!

Hennar tími er kominn!

Hot Fuzz

Góður félagi benti mér að berja myndina Hot Fuzz augum á dögunum. Það var svona í miðju "gáfumannatali" sem hann ráðlagði mér að þar gæti reynst eitthvað athyglisvert.

Myndin fjallar um óvenju atorkusaman lögregluþjón í London sem sendur er til smábæjar á Englandi. Smábærinn hafði verið kjörin "Smábær ársins" nokkuð oft. Því skaut frekar skökku við þegar lögreglumaðurinn fór að hafa áhuga á óþægilegum málum. Smábærinn var jú besti smábærinn, og enginn ástæða til að hreyfa við því. Eða hvað?

Það kom þessum félaga mínum ekkert á óvart að ég hafði tengt ágætlega við þessa bíómynd og gat heimfært söguþráðinn að nokkru leyti yfir á það "smábæjasamfélag" sem ég lifi í. Eini munurinn er að hér eru "smábæir ársins" fleiri heldur en í Hot Fuzz.

Ég get ráðlagt íbúum smábæja að horfa á myndina með opnum huga.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Drottningarviðtalið

Ég hafði ágætis skemmtan af því að horfa á Silfur Egils í endursýnt í gærkvöldi. Þar fékk heiðurssess Björn Bjarnason sem fékk drottningarviðtal að hætti Davíðs Oddssonar.

Sérstaklega fannst mér gaman að því hvað Birni Bjarnasyni virðist vera í nöp við Egil Helgason. Það virtist jafnvel sem hann teldi að Agli væri sérstakur heiður af því að fá hann sem viðmælanda. Þótt ég líti á að það þannig að hann hafi FENGIÐ að koma í þáttinn. Hann notaði hvert tækifæri til að skamma hann og "álitsgjafana". Villtist hann þónokkuð oft af vegi í tilsvörum sýnum þegar hann vék að því að skamma Egil, m.a. fyrir skoðanir sínar í Evópumálum.

Viðhorf hans vegna ráðningar héraðsdómara á Norðausturlandi var þó jafn dapurlegt og margra annarra flokksmanna hans. Þ.e. VIÐ RÁÐUM - ekki messa við okkur, guttarnir ykkar. Svo klappaði hann guttanum á kollinn og lét að því liggja að ef guttinn hagaði sér skynsamlega þá kæmi hann ef til vill einhvern tímann aftur sem gestur í Silfri Egils. Svona haga bara Drottningar sér.

laugardagur, 2. febrúar 2008

Trúðurinn í Abu Dhabi og Katar

Já iðnaðarráðherra vor ritar okkur annað slagið bréfkorn frá Kadar og Indlandi eða öðrum ríkjum heimsins. Hann virðist hægt og sígandi að verða meiri áhugamaður um atvinnusköpun og viðskipti við þriðja heiminn heldur en um urriðann í þingvallavatni. Það hljóta að teljast tíðindi.

Já, hann er hreykinn af því að hafa valið "minnst" spillta ríki Arabíu til samstarfs. Hann telur það vera minnst spillta ríkið vegna þess að einhver maður sem hann hafði ekki hitt áður sagði honum það á flugvelli. Á bloggi hans er reyndar hægt að lesa um hversu mikið honum finnst til koma að gista á hóteli með Elton John og lífvörðum hans - og er jafnvel stoltur af því að hafa fundið af honum lyktina. Svo segir hann frá því að hann var í sömu lyftu og Boris Becker. Glæsilegur árangur hjá Össuri! Ætli hann sé búinn að ná þangað sem hann ætlaði?

Já, hvernig í andskotanum gagnast það mér sem þjóðfélagsþegn að iðnaðarráðherra skuli vera þvælast með íslenskum fjárfestum í Kadar og Abu Dhabi?

Ég velti því fyrir mér hvers vegna Össur sé í vinnu hjá Landsvirkjun, OR og Geysi Green í Kadar. Það er í raun verið rugla reitum. Verða stjórnmálamenn ekki að fara að átta sig á því að þeir starfa fyrir fólkið í landinu og eiga að skapa sem flestum vegferð - í EIGIN landi.

- Smelltu hér til að sjá hann spjalla í Abu Dhabi

Króna/EURO