föstudagur, 10. október 2008

Þegar Óli fór á sjóinn

Ég man óborganlega sögu af ónefndum bát á Hornafirði - svona í tilefni af líkingamáli ráðherrana.

Ólafur var ráðinn um borð á lítið fiskiskip sem kokkur. Þegar skipið kom að landi eftir fyrsta túr kallar skipstjórinn á Ólaf, víkur sér að honum, leggur höndina vinalega á öxlina á honum og segir: "Ég held það sé bara best að þú takir pokann þinn Ólafur minn." Ólafur svarar rólegur: "Það er líklega best ég geri það." 
Ólafur tók pokann sinn og hvaddi hress. 20 stundum síðar er Ólafur mættur um borð, hress og farinn að hlakka til. Kemur þá skipstjórinn og segir: "Var ég ekki búinn að biðja þig um að taka pokann þinn." Ólafur bendir á að hann hafi tekið pokann með sér heim. "Ég þvoði meira að segja úr honum. Ég er með allt hreint." Skipstórinn kímdi, og klappaði Ólafi á öxlina, sagði honum að malla eitthvað gott í matinn.
Ólafur var kokkur í heilt sumar. Hann var svo rekinn þegar hann var grunaður um að míga í súpuna. Það sannaðist aldrei á hann. Áhöfnin át óætan mat í heilt sumar.

_______________________________

Annars er ég ekki hissa á að elsku Darling hafi misskilið Árna Matthiessen ef hann hefur talað við breska ráðherrann á svipaðan hátt og íslensku þjóðina:

"Öll él styttir upp um síðir Herra Darling."
"Við erum hérna að reyna að slökkva eldinn Herra Darling."
"Leki er komin að skipinu Herra Darling."
______________________________

Eírkur Bergmann skrifar "Förum í hart". Hann vill fara í hart PR-stríð við Breta. Djöfull væri það fínt fyrir íslenska og ábyrgðarlausa stjórnmálamenn. Fjölmiðlar gætu þá gleymt því sem raunverulega skiptir máli - sem er getuleysi ríkisstjórnar Íslands.

fimmtudagur, 9. október 2008

Líf mitt er á misskilningi byggt

Við lifum í einum stórum misskilningi. Er það kannski misskilningur?

Misskilningur varð þess víst valdandi að bankinn sem ég verslaði við frá því ég var fjögurra ára gamall er ein rjúkandi rúst.

Misskilningur varð þess valdandi að við töldum að Rússar ætluðu að lána okkur skrilljónir. 

Misskilningur Mr. Darling við Dagfinn dýralækni varð til þess að Bretar settu okkur á lista hryðjuverkamanna.

Er ég eitthvað að misskilja?

(Kannski lýsandi dæmi í ljósi stöðunnar)


venlig hilsen.



miðvikudagur, 8. október 2008

Ég vil sjá blóð

Það er ekkert annað hægt en að fíla sig dálítið stjúbbidd. Aldrei áður og aldrei aftur, þannig einhvern veginn er líðanin hjá almúganum. Sauðsvörtum almúganum.

Ég er svona einhvern veginn að bíða eftir að vakna upp, svona eins og þetta hafi verið vondur draumur. Að hér sé ekki allt í hers höndum. En liði mér virkilega betur ef ekkert hefði gerst og Össur Skarphéðinsson væri í Abu Dhabi að stefna að orkuútrás Landsvirkjunar, að Geir H. Haarde sæti inn á kontor í stjórnarráðinu með fæturna uppi á borði, nagandi blýant bíðandi eftir að "rétta stemmingin" myndist til að einkavæða Landsvirkjun, að Ingibjörg Sólrún væri einhvers staðar óuppskorin í Washington að safna atkvæðum??? Kannski liði mér betur, en þó alltaf með það á tilfinningunni að eitthvað væri ekki í lagi.

Sökudólgarnir eru víða, já og þeir verða líklegast leitaðir uppi. Hvenær er akkúrat betri tími en einmitt núna.

- Ég vill sjá blóð í lítratali af öllum blóðflokkum.

- Ég vill sjá Geir H. Haarde með tárin í augunum biðjast afsökunar á að hafa verið sofandi í nokkur ár í stjórnarráðinu.

- Ég vill sjá fullt af bankastjórum rekna - já alla þá sem nú vinna hjá ríkinu. 

- Ég vill sjá dýralækninn í fjármálaráðuneytinu taka til starfa sem héraðsdýralæknir á Langanesi. 

- Ég vill sjá iðnaðarráðherra með naglakul af kulda reyna að veiða sér urriða í soðið í Þingvallavatni. 

- Ég vill sjá dómsmálaráðherra sem óbreyttan lögreglumann í lögreglunni á Suðurnesjum. 

- Ég vill sjá Björgvin G. Sigurðsson gráta í fangi móður sinnar. 

- Ég vill sjá Guðlaug Þór hafa það ævistarf að reyna að bjarga körfuknattleiksdeild Fjölnis frá gjaldþroti. 

- Ég vill sjá Ingibjörgu Sólrúnu auglýsa WC hreinsi í sjónvarpinu út árið 2024. 

- Ég vill sjá Þórunni Sveinbjarnardóttir á lyftara hjá Alcoa Fjarðaáli. 

- Ég myndi þola að sjá Jóhönnu Sigurðardóttir fara á eftirlaun.

- Ég veit að Einar K. Guðfinnsson gæti fengið pláss á kvótalausum bát gerðum útfrá Stöðvarfirði. 

- Jón Ásgeir sæi ég fyrir mér vinna á kassa í Krónunni.

- Þorgerður Katrín gæti fengið starf við Fjármálaráðgjöf heimilana.

- Lárus Welding sæi ég fyrir mér í Dressmann auglýsingum í Noregi.

- ........og svo miklu miklu miklu fleiri......

þriðjudagur, 7. október 2008

laugardagur, 4. október 2008

Þjóðnýting lífeyrissjóða

Það hefur verið kallað eftir því að þegnar landsins, almenningur, snúi bökum saman og að allir leggist á eitt til að þjóðarskútan sökkvi ekki. Þetta hefur komið fram í máli margra stjórnmálamanna. Þessum barátturæðum hef ég tekið fagnandi. Verið tilbúinn til að gera hvað sem er til að taka þátt í að bjarga Íslandi. Því miður bíð ég enn fyrirmæla um hvað ég get gert, ég er tilbúinn að berjast. En hvað get ég gert Geir?

Hannes í Kastljósi
Annars fylgdist ég með merkilegu vikuuppgjöri Kastljóss á föstudagskvöld. Þar var stjórnandi Helgi Seljan og gestir hans voru Gunnar Smári Egilsson og Hannes Gissurarson. Gunnar Smári kom mér ekkert sérstaklega á óvart. En Hannes virtist uppskrúfaður af einhverjum orsökum. Hann ræddi þó ekkert um hvernig Ísland gæti orðið ríkasta land í heimi. Hann minntist heldur ekkert á skattalækkanir. Mér leiddist að sjá hann hreyta skít í stjórnandann, sem honum einhverra hluta vegna gramdist skuggalega. Leit út um tíma sem Hannes væri að viðurkenna þá staðreynd sem virðist hafa komið honum sjálfum einum á óvart, þ.e. að hann vissi ekki alla skapaða hluti. Þetta virðist hafa verið Hannesi ný uppgötvun, en verð að viðurkenna að ég hef séð hann spóka sig um á nýju fötum keisarans í allnokkur misserri. Verð að rifja upp kafla úr grein hans úr Fréttablaðinu í apríl á þessu ári: 

"Þótt nú hafi blásið á móti um skeið, eiga Íslendingar því ekki að fyllast bölmóði. Öll él styttir upp um síðir. Undirstöður atvinnulífsins eru traustar og stöðugleiki í stjórnmálum. Ríkisstjórnin þarf að halda áfram á þeirri braut, sem hefur gefist best síðustu sautján árin, að auka svigrúm einstaklinga, lækka skatta, selja ríkisfyrirtæki og fjölga tækifærum venjulegs fólks til að brjótast úr fátækt til bjargálna. Jafnframt er nauðsynlegt, að Seðlabankinn verði áfram öflugur bakhjarl viðskiptabankanna, sem vaxið hafa hratt hin síðari ár. Við skulum draga rétta lærdóma af þeirri fjármálakreppu, sem herjað hefur í heiminum síðasta misserið. En dýrmætasta eign okkar er vonin, — vonin um betri tíð með blóm í haga."

Þjóðnýting Lífeyrissjóða
Jámm. Það virðist hafa verið tekið mark á orðum Hannesar í apríl, því ekkert var gert og niðurstöðuna þekkjum við öll. Vonin um betri tíð og blóm í haga stendur ein eftir. Nú liggur fyrir að nýta á lífeyrissjóðina til að bjarga þjóðarbúskapnum. Það heitir þjóðnýting á íslensku. Erlend eign þeirra verður flutt til Íslands til bjargar Seðlabanka Íslands og annarri fjármálastarfsemi. Við launþegar hljótum að treysta á að forysta okkar hafi samningsstöðu við þessar aðstæður. Við launþegar hljótum að fara fram á nokkur atriði til að vega upp á móti kaupmáttarrýrnun og til framfara:

1. Skattalækkanir.
2. Flatar launahækkanir.
3. Upptaka Evru. (EB)
4. Vísitölubinding launa næstu tvö ár.
5. Að Íbúðalánasjóður láni án verðtryggingar frá þeim degi er Evran er tekin upp.

Því miður tel ég að verkalýðsforystan sé í eðli sínu steinrunnin. Vonandi nær hún að semja um eitt þessara augljósu samningsmarkmiða.

Annars er augljóst að peningar lífeyrissjóðanna verða fluttir heim. Þeir stoppa þar stutt við, skipta um hendur, og fara beint erlendis á nýjan leik til að greiða upp erlendar skuldir. Getur verið að þá verði krónan jafn veik og hún er í dag eftir stutta uppsveiflu?

Verður þjóðnýting lífeyrissjóða tilkynnt af Mr. Herbertsson á Reuters eða Bloomberg? Mánudagur til þjóðnýtingar?

fimmtudagur, 2. október 2008

Hálfkæringur

Komið hefur í ljós að hugmyndir um þjóðstjórn voru lagðar fram í HÁLFKÆRINGI

...að eiga ekki annan séns

Í gær hitti ég kunningja minn, hann var dapur. Nýbúinn að missa spariféð sitt sem honum hafði verið ráðlagt að fjárfesta í Glitni á seinasta ári. Hann hafði líka hitt mann rúmlega áttræðan sem tapaði nánast öllum sínum sparnaði í sama geimi. "Ég hefði getað grátið þegar ég talaði við manninn, hann á líklega aldrei tækifæri á að eignast peninga aftur, við yngra fólkið höfum þó annan séns." sagði kunningi minn.

Ég var leiður að heyra þetta. Dapur.

Svo kom ég heim til mín og hitti þýskan tengdafaðir minn sem var í einhverjum bavarískum fagnaðarlátum yfir því hvað krónan hafði veikst mikið - hann sýndi mér allar yfirhafnirnar sem hann hafði keypt fyrir skid og ingen ting í Veiðiflugunni á Reyðarfirði. "The prices are so low." sagði maðurinn. Mig langaði að hrækja á hann, enn stillti mig um það - sagði honum að hann hefði átt að bíða til morguns eftir mun meira falli krónunnar sem væri spáð af almenningi í landinu. Náði að svekkja hann smá. Sá eftir því. Ætli hann fari ekki aftur í Veiðifluguna í dag.

Fengum okkur svo kvöldmat. Fór að pæla í því hvort það væri ekki vissara að taka slátur og fara að sauma keppi, kötta mör og hræra í blóði. Svo væri hægt að setja niður kartöflur og gulrætur næsta vor. Hugsaði líka til þess að við eigum hross sem væri hægt að slátra niður í kjallara ef allt fer á versta veg, á líka hakk, steinbít og ýsu í frystinum. Ekki slæmt.

Lagði mig svo á sófann og lét mig dreyma dagdrauma um íslenska landsliðið í handbolta og leiðina að silfrinu. Ekki frá því að ég hafi farið að brosa út í annað. Vaknaði þó upp af dorminu við kerlinguna Agnesi Bragadóttir sem var farin að hrækja munnsöfnuði í sjónvarpinu. Hugsaði með mér að það kæmi ekki á óvart að þeir ættu í vandræðum með kerlu á ritstjórn moggans.

Sannfærðist um að fleiri þurfa að láta opna á sér höfuðið en Ingibjörg Sólrún og láta athuga með dótið.

áfram Ísland

Króna/EURO