fimmtudagur, 2. október 2008

...að eiga ekki annan séns

Í gær hitti ég kunningja minn, hann var dapur. Nýbúinn að missa spariféð sitt sem honum hafði verið ráðlagt að fjárfesta í Glitni á seinasta ári. Hann hafði líka hitt mann rúmlega áttræðan sem tapaði nánast öllum sínum sparnaði í sama geimi. "Ég hefði getað grátið þegar ég talaði við manninn, hann á líklega aldrei tækifæri á að eignast peninga aftur, við yngra fólkið höfum þó annan séns." sagði kunningi minn.

Ég var leiður að heyra þetta. Dapur.

Svo kom ég heim til mín og hitti þýskan tengdafaðir minn sem var í einhverjum bavarískum fagnaðarlátum yfir því hvað krónan hafði veikst mikið - hann sýndi mér allar yfirhafnirnar sem hann hafði keypt fyrir skid og ingen ting í Veiðiflugunni á Reyðarfirði. "The prices are so low." sagði maðurinn. Mig langaði að hrækja á hann, enn stillti mig um það - sagði honum að hann hefði átt að bíða til morguns eftir mun meira falli krónunnar sem væri spáð af almenningi í landinu. Náði að svekkja hann smá. Sá eftir því. Ætli hann fari ekki aftur í Veiðifluguna í dag.

Fengum okkur svo kvöldmat. Fór að pæla í því hvort það væri ekki vissara að taka slátur og fara að sauma keppi, kötta mör og hræra í blóði. Svo væri hægt að setja niður kartöflur og gulrætur næsta vor. Hugsaði líka til þess að við eigum hross sem væri hægt að slátra niður í kjallara ef allt fer á versta veg, á líka hakk, steinbít og ýsu í frystinum. Ekki slæmt.

Lagði mig svo á sófann og lét mig dreyma dagdrauma um íslenska landsliðið í handbolta og leiðina að silfrinu. Ekki frá því að ég hafi farið að brosa út í annað. Vaknaði þó upp af dorminu við kerlinguna Agnesi Bragadóttir sem var farin að hrækja munnsöfnuði í sjónvarpinu. Hugsaði með mér að það kæmi ekki á óvart að þeir ættu í vandræðum með kerlu á ritstjórn moggans.

Sannfærðist um að fleiri þurfa að láta opna á sér höfuðið en Ingibjörg Sólrún og láta athuga með dótið.

áfram Ísland

Engin ummæli:

Króna/EURO