laugardagur, 4. október 2008

Þjóðnýting lífeyrissjóða

Það hefur verið kallað eftir því að þegnar landsins, almenningur, snúi bökum saman og að allir leggist á eitt til að þjóðarskútan sökkvi ekki. Þetta hefur komið fram í máli margra stjórnmálamanna. Þessum barátturæðum hef ég tekið fagnandi. Verið tilbúinn til að gera hvað sem er til að taka þátt í að bjarga Íslandi. Því miður bíð ég enn fyrirmæla um hvað ég get gert, ég er tilbúinn að berjast. En hvað get ég gert Geir?

Hannes í Kastljósi
Annars fylgdist ég með merkilegu vikuuppgjöri Kastljóss á föstudagskvöld. Þar var stjórnandi Helgi Seljan og gestir hans voru Gunnar Smári Egilsson og Hannes Gissurarson. Gunnar Smári kom mér ekkert sérstaklega á óvart. En Hannes virtist uppskrúfaður af einhverjum orsökum. Hann ræddi þó ekkert um hvernig Ísland gæti orðið ríkasta land í heimi. Hann minntist heldur ekkert á skattalækkanir. Mér leiddist að sjá hann hreyta skít í stjórnandann, sem honum einhverra hluta vegna gramdist skuggalega. Leit út um tíma sem Hannes væri að viðurkenna þá staðreynd sem virðist hafa komið honum sjálfum einum á óvart, þ.e. að hann vissi ekki alla skapaða hluti. Þetta virðist hafa verið Hannesi ný uppgötvun, en verð að viðurkenna að ég hef séð hann spóka sig um á nýju fötum keisarans í allnokkur misserri. Verð að rifja upp kafla úr grein hans úr Fréttablaðinu í apríl á þessu ári: 

"Þótt nú hafi blásið á móti um skeið, eiga Íslendingar því ekki að fyllast bölmóði. Öll él styttir upp um síðir. Undirstöður atvinnulífsins eru traustar og stöðugleiki í stjórnmálum. Ríkisstjórnin þarf að halda áfram á þeirri braut, sem hefur gefist best síðustu sautján árin, að auka svigrúm einstaklinga, lækka skatta, selja ríkisfyrirtæki og fjölga tækifærum venjulegs fólks til að brjótast úr fátækt til bjargálna. Jafnframt er nauðsynlegt, að Seðlabankinn verði áfram öflugur bakhjarl viðskiptabankanna, sem vaxið hafa hratt hin síðari ár. Við skulum draga rétta lærdóma af þeirri fjármálakreppu, sem herjað hefur í heiminum síðasta misserið. En dýrmætasta eign okkar er vonin, — vonin um betri tíð með blóm í haga."

Þjóðnýting Lífeyrissjóða
Jámm. Það virðist hafa verið tekið mark á orðum Hannesar í apríl, því ekkert var gert og niðurstöðuna þekkjum við öll. Vonin um betri tíð og blóm í haga stendur ein eftir. Nú liggur fyrir að nýta á lífeyrissjóðina til að bjarga þjóðarbúskapnum. Það heitir þjóðnýting á íslensku. Erlend eign þeirra verður flutt til Íslands til bjargar Seðlabanka Íslands og annarri fjármálastarfsemi. Við launþegar hljótum að treysta á að forysta okkar hafi samningsstöðu við þessar aðstæður. Við launþegar hljótum að fara fram á nokkur atriði til að vega upp á móti kaupmáttarrýrnun og til framfara:

1. Skattalækkanir.
2. Flatar launahækkanir.
3. Upptaka Evru. (EB)
4. Vísitölubinding launa næstu tvö ár.
5. Að Íbúðalánasjóður láni án verðtryggingar frá þeim degi er Evran er tekin upp.

Því miður tel ég að verkalýðsforystan sé í eðli sínu steinrunnin. Vonandi nær hún að semja um eitt þessara augljósu samningsmarkmiða.

Annars er augljóst að peningar lífeyrissjóðanna verða fluttir heim. Þeir stoppa þar stutt við, skipta um hendur, og fara beint erlendis á nýjan leik til að greiða upp erlendar skuldir. Getur verið að þá verði krónan jafn veik og hún er í dag eftir stutta uppsveiflu?

Verður þjóðnýting lífeyrissjóða tilkynnt af Mr. Herbertsson á Reuters eða Bloomberg? Mánudagur til þjóðnýtingar?

Engin ummæli:

Króna/EURO