þriðjudagur, 30. september 2008

Þriðjudags-thriller

Kæra dagbók
Ég velti því fyrir mér hvort betra sé að horfa eignir sínar brenna ótryggðar á einni nóttu heldur en í hægum bruna í boði íslensks efnahagslífs. Þá gæti maður jafnvel staðið úti í rigningunni og horft á rústirnar í sínum eigin nærfötum.

mánudagur, 29. september 2008

Hvað væri spennandi...

Mest spennandi sem getur gerst á morgun.

1. Lárus Welding lætur lita hárið á sér svart, og allir fatta að hann er bara þrítugur.
2. Lárus Welding lætur lita hárið á sér svart, og allir fatta að hann er bara þrítugur.
3. Lárus Welding lætur lita hárið á sér svart, og allir fatta að hann er bara þrítugur.

...nema Geir.

Að vera bankasnillingur

Mótmæli því að forstjóri ríkisbankans sé maður sem metur stöðu svona - eða lýgur vísvitandi upp í opið geðið á okkur. Ríkið vill varla hafa svoleiðis menn í vinnu? Hvað fær hann í starfslokasamning?

sunnudagur, 28. september 2008

Herðubreið

Í dag barði ég Herðubreið augum. Þó var ekki um að ræða nýjasta issue Karls, heldur fjallið sjálft. Leyfi ég mér að segja að það sé tilkomumeira en samnefnt tímarit. Þetta er eiginlega mitt uppáhalds fjall, það var líka uppáhalds fjall Stefáns Stórvals. Þess vegna fannst mér synd þegar flokksblað var nefnt í höfuð Fjalladrottningarinnar, það hefur þó ekkert dregið úr fegurð fjallsins. Þó finnst mér nafngiftin soldið eins og ef flokksblað Vinstri grænna héti Esja.

Í sömu ferð settist ég niður á klöpp einni og horfði á og hlustaði á minn uppáhalds foss, Dettifoss, berja grjótið í drjúga stund. Dettifoss er nefnilega magnaður að því leyti að það er jafnvel magnaðra að hlusta á hann en horfa á hann. Þarna hitti ég ekki nokkurn Íslending, bara nokkra japani - já og líklega tékkneskt par. Almenningssalernið á staðnum var stíflað, og mannaskítur flæddi um skúrinn. Kingimagnað.

Leiðin að fossinum digra er þó þyrnum stráð. Þvílíkan vegakafla óska ég ekki nokkrum einasta manni að keyra. Hann er ekki einu sinni til þess fallinn að kynna 101 íbúum íslenska sveitavegi. Hræðilegur vegakafli.

Svo bleitti ég í mér í jarðböðunum við Mývatn, sem er kósý eftirmynd af Bláa Lóninu. Fylgdist með japönskum manni um sextugt maka sandi á skallann á sér. Svona eins og hann tryði því að ef hann nuddaði sandi nægjanlega fast í skallann, þá byrji hárið að vaxa á ný. Ég vona að það gangi hjá honum.

miðvikudagur, 24. september 2008

Að gefa það sem maður á ekki

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar hefur sannað að hann virðist vera algjörlega blindur á samfélagsleg málefni. Hann sér ástæðu til að benda sérstaklega á þetta í grein sinni í mogganum.


"Sóknarfæri gætu til að mynda verið í því að selja einkaaðilum Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir í eigu hins opinbera. "

Þvílíkt sóknarfæri!!! Eru menn yfirleitt ekki með öllum mjalla. Þá er ég farinn að skilja stefnu Samfylkingar rétt... Hún vill þjóðnýta auðlindirnar, hirða vatnsréttindi af landeigendum og selja virkjanir einkaaðilum....!!!! Ég leyfi mér að segja HRÆSNARAR....og rökfræðilega stenst þetta ekki skoðun.

Og Helgi segir: "Líkanið að þessu er að finna í því samkomulagi sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking náðu í orkumálum sl. vetur,"

Jáhá....nýbúnir að ræna bændur í Fljótsdal og Jökuldal vatnsréttindum - voru einn mánuð að framleiða fyrir skaðabótum til bænda - og vilja gefa einkaaðilum arðránið. Þetta er siðblinda af versta tagi. Það er eins og nýlendustjórn Breta sér hér við stjórnvölinn.

þriðjudagur, 23. september 2008

Mikilvægur viðmælandi

Austfirðingar kætast þessa dagana yfir því að Adolf Guðmundsson á Seyðisfirði hyggist bjóða sig fram sem formaður LÍÚ. Það þykir einsýnt að hann verði formaður.

Helsti kætingurinn er sagður vera á fréttastofu svæðisútvarpsins á Austurlandi sem tekur öllum mikilvægum viðmælendum fagnandi. Þeir eru jú ekki margir staðsettir á Austurlandi sem komast í aðalfréttatíma sjónvarps - kann nú að verða breyting á. Sýnilegum verkefnum fréttastofunnar eystra mun því væntanlega fara fjölgandi.

By the way - þá eru það væntanlega engin stórtíðindi að væntanlegur formaður vill ekki ganga í Evrópubandalagið miðað við núverandi forsendur.

Króna/EURO