sunnudagur, 28. september 2008

Herðubreið

Í dag barði ég Herðubreið augum. Þó var ekki um að ræða nýjasta issue Karls, heldur fjallið sjálft. Leyfi ég mér að segja að það sé tilkomumeira en samnefnt tímarit. Þetta er eiginlega mitt uppáhalds fjall, það var líka uppáhalds fjall Stefáns Stórvals. Þess vegna fannst mér synd þegar flokksblað var nefnt í höfuð Fjalladrottningarinnar, það hefur þó ekkert dregið úr fegurð fjallsins. Þó finnst mér nafngiftin soldið eins og ef flokksblað Vinstri grænna héti Esja.

Í sömu ferð settist ég niður á klöpp einni og horfði á og hlustaði á minn uppáhalds foss, Dettifoss, berja grjótið í drjúga stund. Dettifoss er nefnilega magnaður að því leyti að það er jafnvel magnaðra að hlusta á hann en horfa á hann. Þarna hitti ég ekki nokkurn Íslending, bara nokkra japani - já og líklega tékkneskt par. Almenningssalernið á staðnum var stíflað, og mannaskítur flæddi um skúrinn. Kingimagnað.

Leiðin að fossinum digra er þó þyrnum stráð. Þvílíkan vegakafla óska ég ekki nokkrum einasta manni að keyra. Hann er ekki einu sinni til þess fallinn að kynna 101 íbúum íslenska sveitavegi. Hræðilegur vegakafli.

Svo bleitti ég í mér í jarðböðunum við Mývatn, sem er kósý eftirmynd af Bláa Lóninu. Fylgdist með japönskum manni um sextugt maka sandi á skallann á sér. Svona eins og hann tryði því að ef hann nuddaði sandi nægjanlega fast í skallann, þá byrji hárið að vaxa á ný. Ég vona að það gangi hjá honum.

Engin ummæli:

Króna/EURO