þriðjudagur, 23. júlí 2013

Maður er nefndur

Ég man eftir allskonar pistlahöfundum í útvarpi. Nokkrum góðum. Þeir bestu hafa haft þann stíl að skrifa forskrúfaða, samansaumaða og jafnvel hnittna pistla um málefni líðandi stundar. Illugi Jökulsson og Karl Th. Birgisson voru meðal annarra fínir í þessu á sínum tíma. Þeir gátu verið, og þá sérstaklega Illugi óþolandi af rörsýni, og án allrar víðsýni. Báðir þessir nafngreindu menn aðhylltust kratískan eða vinstri hugsunarhátt, og var það ekkert verra en hvað annað - þeir fengu fólk til að hugsa. Það er aðalatriðið.

Þetta var ákveðið listform. Mesta listin er fólgin í því að gera háðskuna óþolandi.

Þetta hefur Hallgrímur Helgason náð að éta upp, og útfært listformið enn frekar. Þetta getur verið óþolandi, og jafnoft skemmtilegt. Fer eiginlega eftir því í hvað skapi hlustandinn er hverju sinni og hvort hann hefur gert íslenskt flokkakerfi að trúarbrögðum eða ekki. Ég get lofað ykkur því að listafólk af þessu tagi mun halda áfram að koma fram í útvarpi um ókomin ár, sama hvort það er hugsandi til hægri eða vinstri.

Aðalatriðið er að íslenskur rétttrúnaður innan íslenskra stjórnmálaflokka er að drepa okkur. Svo mjög að umburðarlyndið mælist negatíft. Meira að segja án þess að deilumálin mælist á hægri eða vinstri kvarða stjórnmálanna, í allt of mörgum tilfellum.

Við megum ekki láta eins og Hallgrímur Helgason hafi lesið Kóraninn á messutíma, þrátt fyrir að við séum mörg hver ósammála honum. Við verðum að geta lesið milli lína, og ákveðið með sjálfum okkur að fólk er ekki fífl og getur dregið þroskaðar og sjálfstæðar ályktanir af því sem það sér og heyrir í ljósvaka- og prentmiðlum.


mánudagur, 15. júlí 2013

Gamalt lífeyriskerfi er nýtt

Í fréttum hefur komið fram að búið sé að semja um nýtt lífeyrissjóðskerfi, einungis sé formsatriði að klára málið.

Afskakið ef ég var staddur á tunglinu. Nýtt lífeyrissjóðakerfi án þess að það hafi komið fram í nokkurri almennri umræðu? Er það ekki svolítið einkennilegt í rökræðusamfélaginu okkar?

Eða er bara verið að gera breytingu á réttindum opinberra starfsmanna og laga þau að réttindum á frjálsum vinnumarkaði? Hvað á maður að halda?

Ég get ekki séð að neitt NÝTT sé við kerfið, enda engin kerfisbreyting verið kynnt. Hefði ekki verið réttara að í þessum fréttaflutningi hefði komið fram að breytingar verði gerðar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna en lífeyriskerfið sem slíkt sé ÓBREYTT.

Af hverju eru birtar svona fyrirsagnir? (Í nánast öllum miðlum)  Nennti enginn að lesa innihald fréttatilkynningarinnar, og afla upplýsinga um breytingarnar? Eða er bara búið að gera stórvægilegar breytingar á lífeyriskerfinu? Verður þá ekki að útskýra í hverju þær felast?

þriðjudagur, 2. júlí 2013

Valdameiri forseti

Sú staða sem forsetinn hefur tekið sér með því að synja lögum staðfestingar, fyrst fjölmiðlalögunum og síðar Icesave, hefur haft stór áhrif á íslenskt stjórnmálalíf og pólitíska siðvitund almennings. Almenningur veit nú að stuðningur við undirskriftalista getur skipt máli.

Ríkisstjórnarflokkar sem lent hafa í synjun staðfestinga laga hafa lýst vanþóknun á forsetanum, jafnmikla og kæti þeirra hefur verið sem stjórnarandstöðuflokka hinu megin borðsins.

Þessi staða sem forsetinn hefur tekið sér, elska stjórnmálamenn jafnmikið og þeir hata. Nú vill vinstri vængurinn að forsetinn synji lögum staðfestingar, jafn heitt og sami vængur þráði að hann skrifaði undir lög um Icesave. Það er mjög stutt síðan. Undirskriftalistar og forsetahótun er nýjasta tækifærið sem stjórnarandstöðuflokka til að koma upp alvöru mótþrýstingi við lagasetningu, hvað sem forsetinn gerir í framhaldinu.


Nú eru margir að velta því fyrir sér á hvaða svítu forsetinn er að skrifa rökstuðninginn fyrir ákvörðun sinni. Það staðfestir að forsetinn hvílir sem þokuslæða yfir þinginu, og er ógnvaldur við ríkisstjórnir – þótt ólíklegt sé að hann reiði svipuna til höggs í þetta sinn. Þrátt fyrir að hafa áður sagt að auðlindamál séu vel til þjóðaratkvæðagreiðslu fallin, mun hann útskýra í afar löngu máli, baðaður í flassljósi myndavélanna, að þarna sé ferðinni tæknilega flókið skattamál sem almenningur megi ekki blanda sér í.

Taktu lán og kauptu kvóta

Taktu þér lán og kauptu þér skip og kvóta. Borgaðu af láninu, borgaðu vextina og reyndu að láta viðskiptin ganga. Bættu við kvótagjaldi og það verður erfiðara.

Kvótagjaldið, er ekki stórt vandamál, skipið er það ekki heldur, mest þurfti að greiða fyrir kvótann.


Þess vegna verður aldrei sanngjarnri skattheimtu náð á útgerðarmenn og konur nema með því að vinda ofan af kvótakerfinu og breyta því hægt og örugglega í kvótaleigukerfi ríkisins. Aldrei fyrr en þá getur markaðurinn greitt hárrétt verð fyrir náttúruauðlindina á hverjum tíma. Aldrei fyrr en þá getur markaðurinn sjálfur greitt nákvæmlega rétt afgjald fyrir auðlindina. Aldrei fyrr en þá verður hægt að segja að sönn frjálshyggja sé að verki í sjávarútvegnum, þar sem lögmálið um framboð og eftirspurn ræður ferðinni.

þriðjudagur, 25. júní 2013

Svarthol efnahagslífsins

Í dag hjálpaði ég góðum vini mínum að flytja síðustu og þyngstu hlutina út úr íbúðarhúsi sem nú er í eigu lífeyrissjóðs. Það var ekki góð tilfinning. Bújörðin fór á uppboð eftir að lögmaður hafði reynt að fá niðurfellingar til að hægt væri að standa í skilum. Þar sem um bújörð er að ræða áttu engar "frábærar" leiðir við fjölskylduna sem nú svæfi úti, nema fyrir velviljaða ættingja þeirra.

Þetta vinafólk er ég að hugsa um áður en ég reyni að sofna. Þetta fólk gerði sitt besta, og varð svo óheppið að fjármálakerfið hrundi yfir það. Enginn ráð eða leiðir voru mögulegar. Allar þeirra afborganir og ímyndaðar eignir voru teknar af þeim og sendar í svarthol íslensks efnahagslífs.

Eignirnar sem sogast hafa inn í svartholið, munu þeim aldrei verða bættar úr þessu.

Hefur Guð sagt bless við Ísland? Misskildi hann Geir?

mánudagur, 24. júní 2013

Smáhjálp v/Örnefnanefndar

Nú langar mig að spyrja ykkur ráða. Er búinn að rita eftirfarandi bréf. Bið ykkur að lesa það yfir og benda mér á ef ég er að gleyma mikilvægum rökum, eða ef önnur sjónarhorn gætu hjálpað. Finnst eins og ef ég sendi gott bréf til Örnefnanefndar, þá gæti nefndin miskunnað sig yfir mig. Stefni á að setja á þetta frímerki í vikunni.

Áður hefur Örnefnanefnd hafnað ábúendum um nafnið Stormur á lögbýli okkar sem nú er nefnt Hvammur 2 skv. einhliða þinglýsingu nefndarinnar.  Aðalröksemdarfærslur nefndarinnar voru þær að Stormur væri veðurfyrirbrigði sem ekki væri stöðugt á jörð okkar.
Samkvæmt skilningi okkar ábúenda eru fjölmörg bæjarnöfn á Íslandi sem innihalda orð sem eru lýsandi fyrir veður. Nærtækasta fordæmi sem hægt er að nefna er jörðin Vindbelgur í Mývatnssveit, teljum við að þar geti tæpast verið „vindbelgur“ allt árið um kring, og samræmist þannig ströngum skilyrðum örnefnanefndar. Svo er hægt að nefna að vart er ávallt heiðskýrt í Sólheimum í Grímsnesi, og svo kunn Lagarfljótið vera ansi lygnt við Straum í Hróarstungi – en „straumur“ er einmitt bæjarnafn af sama toga úr íslensku máli og „stormur“, þ.e. ósamsett nafnorð.
Sjálfsagt má týna til mun fleiri dæmi um nafngiftir af sama meiði, en látum við það ógert nú, enda af of mörgu að taka.
Um legu jarðar okkar má nefna að jörðin er opin fyrir vindum af Stóra-Sandfelli í Skriðdal sem og af Hallormsstaðahálsi. Kunnugir í sveitinni hafa viljað meina að stöðugur vindstrengur sé m.a. á jörð okkar á ákveðnum árstíðum. Einnig er jörðin opin fyrir norðan- og norðaustanátt á vetrum.  Þannig viljum við meina að nafngiftin Stormur geti einmitt verið réttnefni, því oft er stormur á svæðinu og getur eflaust talist með meiri vindsvæðum landsins.
Einnig má benda á að höfnun á slíkri nafngift skerðir viðskiptafrelsi okkar á þann hátt að við getum ekki markaðssett hrossarækt okkar frá Stormi eins og við hefðum helst viljað frá upphafi búskapar. Þar sem bændasamtökin heimila ekki að hross séu kennd við annað en nafn lögbýli ræktanda.
Þar eð okkur virðist nafngiftin „Stormur“ ekki vera sem skrattinn úr sauðalæknum biðjum við Örnefnanefnd um að staðfesta beiðni okkar um nafnabreytingu á Hvammi 2 í Storm.

sunnudagur, 23. júní 2013

Sátt um veiðiskatta

Nánast án fyrirvara er hægt að segja að engin sátt ríkir um veiðigjöld. Mörgum þykir sjálfsagt mál að útgerðarmenn greiði afnotagjald af auðlindinni.

Þar sem Íslendingar búa við miklar sveiflur á gengi krónunnar, vaxtastigi og afurðaverði á fiskmörkuðum þá hljóta veiðigjöld að þurfa að vera sveigjanleg upphæð. Það hljóta flestir að vera sammála um.

Aðrar atvinnugreinar búa við fastar stærðir. Þess vegna ætti auðlindageirinn að búa við slíkt hið sama.
Lang farsælast væri að setja ákveðin veiðiskatt í prósentum á veiddan afla. Veiðiskattsprósentuna vita þá allir fyrirfram til lengri tíma. Allar hugmyndir um að reikna út fast gjald á veitt tonn, eða að byggja á bókhaldstölum útgerða standast aldrei til lengri tíma í íslensku efnahagsumhverfi. Jafnvel væri hægt að byggja á sitthvorri hlutfallstölunni eftir tegundum. Við þekkjum líka að bókhaldstölur er hægt að sveigja til eftir hentisemi hverju sinni.

Ákvörðun um stærð veiðiskatta ætti að auki að heyra beint undir fjármálaráðuneytið, sem á að sjálfsögðu að ákvarða um alla skatta, en ekki undanskilja ákvarðanir um einstakar atvinnugreinar til annarra ráðuneyta.

Almenn sátt hlýtur að ríkja í samfélaginu um að náttúruauðlindir ber að skattleggja með einum eða öðrum hætti. Því hljóta stjórnarflokkarnir að vilja auka samstöðu um „veiðigjöld“, og tryggja að samstaðan nái út fyrir kjörtímabilið.

Króna/EURO