fimmtudagur, 26. september 2013

Gíslasaga

Það eru sjálfsagt margar hliðar á útgöngu Gísla úr pólitík. Ein er sú að hann hefur orðið undir í baráttunni um völdin í borginni innan D-listans. Hann er fjær því að verða borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins nú, en þegar hann ákvað að fara í sitt fyrsta prófkjör. Hann hefur líka orðið undir í lykilmálum, og það viðurkennir hann fúslega.


Þess vegna á pólitísk framtíð Gísla aðeins einn möguleika og það er að hætta tímabundið. Fara og vera svolítið skemmtilegur í sjónvarpinu í nokkur ár. Koma síðar aftur svolítið hressari og skemmtilegri og endurnýja sig sem valkost – núllstilla sig, CTRL-ALT-DEL.

miðvikudagur, 11. september 2013

Harðari refsingar

Við Íslendingar höfum hin seinni ár komist að því að fyrirtæki í fákeppni koma sér upp samráðsgrundvelli til að hámarka hagnað sinn. Samkeppniseftirlitinu hefur tekist að sanna þessa staðreynd í nokkur skipti og hefur verið sýnt fram á að þetta er íslenskt lögmál.

Meðan afleiðingarnar eru minniháttar munu stjórnendur fyrirtækjanna sækja í áframhaldandi samráð. Fangelsisvist fyrir stjórnendur, hærri sektir og útilokanir eru refsingar sem við verðum að horfa til.


Að vera tekinn af Samkeppnisyfirvöldum má ekki verða eins konar gæðastimpill á stjórnendur. Alþingismenn verða að koma fram með leiðir í formi lagasetninga sem koma í veg fyrir að í viðskiptalífinu þrífist rottur sem hafa neikvæð áhrif fyrir neytendur,verðlag, samkeppnishæfni og þar með hagvöxt í landinu. Landráð af þessu tagi eiga ekki að líðast.



- Sé rétt að skipafélögin Eimskip og Samskip hafi haft ólöglegt samráð skulum við hafa í huga að nær öll innflutt vara kemur til landsins með þessum skipafélögum. Ekki væri óeðlilegt að gera ráð fyrir að um 15% af hilluverði í verslunum sé tilkomið vegna flutningsgjalda að meðaltali. Við getum svo spurt okkur hvaða áhrif þetta verðsamráð hefur haft á vöruverð í landinu, verðtryggð lán, samkeppnishæfni smærri fyrirtækja og svo mætti lengi telja.

fimmtudagur, 29. ágúst 2013

Olía á eld

Þeir sem vilja leggja af innanlandsflug til Reykjavíkur þurfa að koma með lausnir á neyðarsjúkraþjónustu við landsbyggðina. Þær eru eflaust fjölmargar. Til að mynda mætti koma upp alvöru spítala nærri Keflavíkurflugvelli, og nærtækara væri að koma upp tækjakosti, húsaskosti og starfsmönnum sem framkvæmt gætu þjónustuna á Akureyri. Tæknilega er allt mögulegt. Meira að segja gæti landsbyggðin orðið enn öflugri með Akureyri sem getumeiri þjónustukjarna. Þetta myndi meira að segja vera ákveðin lausn á dóminerandi borgríkisstefnu undanfarinna 30-40 ára.


Þeir sem vilja sjá flugvöllinn úr Vatnsmýrinni verða að sjá rök landsbyggðarinnar um neyðarsjúkraþjónustu sem alvöru rök, og tala fyrir lausnum. Það er eina leiðin til að flugvöllurinn fari einhvern tímann úr Vatnsmýrinni. Að benda á vegalengdir í Osló er eins og að kasta olíu á eld, í Noregi eru nefnilega spítalar um allt land sem geta sinnt neyðarþjónustu, göng í hverjum firði og þyrlur í hverjum landshluta. Þar eru stærðir og þjónustustig öðruvísi um allt land.

laugardagur, 24. ágúst 2013

Að þegja eða segja

Ég vil þakka sumarstarfsmanni á leikskóla í Reykjavík fyrir að hafa hugrekki til að greina frá vinnubrögðum og meintu ofbeldi einstakra starfsmanna sem gætu varðað við barnaverndarlög. Þetta hugrekki sumarstarfsmannsins eigum við öll að taka til fyrirmyndar – ekkert okkar á að láta ofbeldi gagnvart börnum líðast, við eigum alltaf að segja frá,  það er ekki okkar að dæma hvað er á gráu svæði heldur yfirvalda.

Sumarstarfsmaðurinn gerði hið eina rétta, alveg óháð framvindu mála sem hefur orðið í kjölfarið. Ég efast þó um að stjórnsýsla borgarinnar hefðu unnið málin með þessum hætti ef um leikskóla í eigu borgarinnar hefði verið að ræða.

Fjölmiðlar gegna líka sínu hlutverki, og verða í umræddu tilviki til þess að stjórnsýslan tekur málið föstum tökum. Tryggt er að börnin njóta vafans, því jú enginn annar á að njóta vafans.

Allt of margir hafa þagað æsku barna í hel undanfarna áratugi. Hjartagóðar manneskjur hafa horft upp á viðurstyggilega hluti og ekki tilkynnt um það, og þannig orðið að þegjandi vitorðsmönnum. Þarna er hægt að nefna Landakot og Breiðuvík sem dæmi.

Breytt: Við hjónin höfum staðið frammi fyrir því að okkur var sagt frá hugsanlegri vanrækslu barns okkar á leikskóla. Þær upplýsingar fengum við eftir á, þegar full seint var í rassinn gripið.

Aukaorð: Ritað kl. 20:30 24.8.2013. Það leiðréttist hér með að það sem stóð neðarlega í þessari færslu um að fjölmiðlar hafi ekki sagt frá sýknudómi var rangt. Fjallað var um það, og vitnað í dómsorð. Inntak mitt sem ég tel þarft - um að ef einhvern grunar að ofbeldi eða vanræksla eigi sér stað þá á hinn sami að láta vita

föstudagur, 23. ágúst 2013

EGS - KEF - OSL

Lítum aðeins á landslagið sem verður til þegar og ef Reykjavöllurflugvöllur verður aflagður. Líklegast er hagkvæmast að byggja ekki annan flugvöll þar sem áhöld eru um gæði flugvallarstæða og landrými ekki nægjanlegt í höfuðborginni. Landakaup, hönnun, framkvæmdir og umferðarframkvæmdir myndu hlaupa á tugum milljarða. Við skulum heldur ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að Reykjavíkurborg gæti þurft að borga tugi milljarða til að bæta ríkinu mannvirkin, skv. skipulagslögum.

Þess vegna yrði þjóðhagslega hagkvæmast að nýta Keflavíkurflugvöll til innanlandsflugs. Þar gætu þjóðfélaginu sparast verulegur fjöldi milljarða og t.a.m. væri hægt að leggja niður nokkurn fjölda starfa í kjölfar góðrar hagræðingar.

Erlendir flugfarþegar gætu tekið beint tengiflug út á land, og gæti sala gistirýma á landsbyggðinni stóraukist til erlendra ferðamanna. Íbúar landsbyggðarinnar sem þurfa að ferðast erlendis munu geta sparað sér umtalsverða fjármuni og lestað sig samdægurs á erlendar flugleiðir. Hagræðið er ansi mikið. Fullt fargjald Egilsstaðir-Reykjavík-Egilsstaðir er verðlagt á um 45.000 kr. og því nauðsynlegt að stuðla að samkeppni á þessu sviði af hálfu stjórnvalda.

Til að leysa kröfu landsbyggðarinnar um aðgang að neyðarþjónustu spítalanna þyrfti að koma á fót neyðarþyrluþjónustu þar sem tiltækar þyrlur yrðu að vera til staðar í öllum landshlutum.  Engar þyrlur eru staðsettar á landsbyggðinni og flugtími þeirra frá Reykjavík í neyðartilfellum er óásættanlegur. Úr því yrði betri viðbragðstími, einnig gagnvart íslenskum sjómönnum sem yrkja sjóinn. Sérstök þylulæknadeild þyrfti væntanlega að þjónusta þyrlurnar með sólarhringsvakt í hverjum landshluta. Sjái sérfræðingar í heilbrigðismálum ekki fram á að neyðarþyrluþjónusta yrði nógu skilvirk væri flutningstími sjúklinga á góðan spítala ekki nógu stuttur. Þá værum við í þeirri stöðu að byggja þyrfti nýjan spítala í Reykjanesbæ sem þjónustað gæti Reykjanesið og landsbyggðina. Þetta myndu Suðunesjamenn ekki gráta, og gæti verið nýtt tækifæri í atvinnusköpun á þeirra svæði – væri eins konar brotthvarf frá borgríkisþróun undanfarinna áratuga.
Einnig er fyrirsjáanlegt að ný flugfélög sæu sér hag í að bjóða upp á innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli, enda fyrirkomulag þannig að hægt er að leigja sér þar aðstöðu án nokkurra vandkvæða. Samkeppni gæti komist á í innanlandsflugi, og fargjöld lækkað. Almenningssamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur yrðu skilvirkari í kjölfar fjölgun farþega í kjölfar innanlandsflugs, og þess myndu íbúar Reykjavíkur og Suðurnesja njóta.

Niðurlagning Reykjavíkurflugvallar gæti með þessum formerkjum orðið gríðarlegt tækifæri fyrir landsbyggðina.

Það er mér allavega til efs, að það væri nokkurn tímann réttlætanlegt að byggja nýjan innanlandsflugvöll svo nærri Keflavíkurflugvelli með þessi tækifæri til hliðsjónar.


Ég reyndar vill persónulega hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er vegna þess að ég hef hingað til sótt meira til Reykjavíkur en útlanda, og mér finnst þægilegt að lenda í miðri borg. Fjölskyldu minnar vegna vil ég að neyðarþjónustan sé aðalatriði þegar ákvarðanir eru teknar.

þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Nostradamus segir:

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að ræða um það hvort Ísland hafi verið í aðlögun eða samningum og hvort fara skuli í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram samningum – sem margir munu kalla aðlögun, og upphefjast þá reglulegar hártoganir um það. Þetta verður ein hringavitleysa.

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að ræða um hvort Ísland eigi í alvörunni að kasta verðtryggingunni í sjóinn. ASÍ, Samfylkingin og Sighvatur munu öskra að hér muni allt hrynja og munu nota sömu aðferðir og LÍÚ notaði á síðasta kjörtímabili – dómsdagsspár.  Samfylkingin verður á þessum vagni og spurning er á hvaða tímapunkti Sjálfstæðisflokknum þyki hentugt að hoppa á hann. Hvort það verður eftir eins, tveggja eða þriggja ára pólitíska herkví er ekki alveg víst.

Nú stefnir í að heill vetur, eða fleiri, fari í það að hrækjast á um að tillögur um skuldaleiðréttingar sem þá verða fram komnar séu mjög heimskulegar og verði á endanum greiddar af ríkissjóði, og nýjir brandarar um kattasmölun í þingflokki sjálfstæðismanna munu líta dagsins ljós. Eftir argaþras mun ekkert af því stóra sem kjósendurnir þráðu verða að raunveruleika.


Og verður Ólafur F. gerður að forsætisráðherra þá? Eða tákngervingur hans? Nostradamus hefur áhyggjur af því að þangað stefni þetta núna. Svo verður almenningur brjálaður, og mun rífast um það hvort það sé lögbrot eða ekki að kasta eggjum í þinghúsið.

mánudagur, 19. ágúst 2013

Góð lending.is

Ég er utan af landi og á þar fjölskyldu og vini. Ég vill að þetta fólk geti átt þess kost að lenda í farþegavél í Reykjavík og sótt þar þjónustu í nágrenninu, þ.á.m. neyðarþjónustu. Þess vegna hef ég skrifað undir undirskriftalista á lending.is

Ég veit að Gísli Marteinn getur þá ekki búið í Vatnsmýrinni og hjólað niður í Ráðhús. Það er talsverð fórn.

Ég veit að miðborgin gæti verið öflugri með íbúabyggð í Vatnsmýrinni, og að landsbyggðin væri öflugri flugvöll í Vatnsmýrinni.

Ég veit að mér kemur ekkert við hvað gert er í Reykjavík enda bý ég ekki í sveitarfélaginu þar sem mestu af opinberu skattfé er ráðstafað ár hvert.

Ég veit að ég hef valið að búa úti á landi og á ekki rétt á því að sækja þjónustu í höfuðborginni nema með meiri og meiri tilkostnaði og fyrirhöfn.

Ég veit að samkvæmt lögfræðilegu áliti þá bæri Reykjavíkurborg að greiða fyrir framkvæmd við nýjan flugvöll skv. bótarétti skipulagslaga – en ég veit ekkert hvað það myndi kosta marga tugi milljarða


.....samt ákvað ég nú að skrifa undir þennan blessaða lista.

Króna/EURO