miðvikudagur, 29. apríl 2009

Kaupin á eyrinni

Í smærri auglýsingunum í Fréttablaðinu auglýsir maður að nafni Sverrir að fyrirtæki hans hafi áhuga á að kaupa Evrur. Símanúmer mannsins fylgdi með.

Forvitni mín og annarra sem nálægt mér sátu við lestur Fréttablaðsins, rak mig til að taka upp símann og afla upplýsinga. Sverrir kveðst vilja kaupa Evrur, séu þær lagðar inn á þýskan bankareikning. Í dag gat hann boðið kr. 185 fyrir Evruna, sem er talsvert yfir skráðu gengi, eða u.þ.b. 9%. Hann kvaðst myndu leggja fjármunina inn á íslenskan bankareikning í íslenskum krónum.

Augljóslega gæti maðurinn verið í viðskiptum fyrir þriðja aðila sem á krónur á Íslandi og vill eignast Evrur í Evrópu í staðinn. Gæti verið um þýska banka að ræða? Eða stóra erlenda aðila sem komast ekki úr landi með peninga nema með þessum hætti? Varla er peningaþvottur auglýstur svo augljóslega á síðum Fréttablaðsins?

Hversu löglegt eða ólöglegt væri að taka þátt í slíkum viðskiptum?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eiturlyf fást nú ekki fyrir krónur lengur.

Héðinn Björnsson sagði...

Þetta getur gefið allt að 2 ára fangelsi samkvæmt gjaldeyrishaftalögunum. Með ólíkindum hvað fólk er vitlaust að auglýsa þetta í Fréttablaðinu og spurning hvort ritstjóri Fréttablaðsins sé ekki sekur líka?

Króna/EURO