Ég er úti á landi og hef þannig sjónarhorn. Ég bý í sveit og
hef svoleiðis sjónarhorn. Auðvitað er það mitt val.
Með ljósleiðaragarm meðfram þjóðveginum virðist ekki vera
hægt að bjóða okkur sveitafólkinu upp á nettengingu sem stenst tímans tönn.
Meira að segja veit ég dæmi um jarðir þar sem aðalæð netsamskipta Íslands við
útlönd liggur í gegnum, en ekki er einu sinni hægt að bjóða upp á þolanlega
nettingu á þeim bæjum. Í mínu tilfelli liggur t.a.m. ljósleiðari í landareign minni
og sér hann íbúum í öðrum hrepp m.a. fyrir myndarlegri nettengingu auk þess sem
hann er samskiptaæð fyrir Fljótsdalsstöð. Þessu má líkja við að stórfljót renni
í gegnum landið mitt, en ég megi ekki drekka úr því.
Sjálfur hef ég tengingu frá fyrirtækinu sem kallað er Emax,
og býður upp á minnsta mögulega hraða. Samkvæmt fjarskiptalögum á að vera háhraðatenging
við internetið á mínu svæði. Það er bara ekki þannig. Stjórnvöld skildu eftir
gat í lögunum sem leyfir fjarskiptafyrirtækjum að túlka út frá eigin geðþótta
hvað er háhraðatenging og hvað ekki.
Sjónvarpsstöðvar sem
láta dreifa efni sínu á Íslandi eru farnar að treysta á ADSL og
ljósleiðarakerfið til að dreifa efni sínu. Aðeins litlu úrvali af því sem
stendur til boða í þéttbýlinu er hægt að ná með loftnetsmóttakara, staðan er
skömminni skárri þar sem örbylgjusendingar nást – en þó vart bjóðanlegar.
Myndbandaleigum fer fækkandi og er kvikmyndum nú dreift í
gegnum „pay per view“ kerfi í ADSL sjónvarpinu. Þar er hægt að leigja sér „spólu“
og hafa það huggulegt. Fyrir ekki svo mörgum misserum síðan gat sveitarómaginn
leigt sér bíómyndir eins og annað fólk. Nú er sú fróun að leggjast af.
Einnig fer fram dreifing á ýmsu efni í gegnum netið, þ.á.m.
bíómynda og tónlistar. Dagskrá sjónvarpsstöðva er hægt að skoða aftur í tímann
og margskonar þjónusta á internetinu kallar á hraðvirkar tengingar. Sjálfur
hefði ég tildæmis kosið að fylgjast með Meistaradeildinni í hestaíþróttum í „live-stream“
á netinu, það er ekki möguleiki í mínu tilfelli.
3G tengingar svokallaðar hafa reynst sumum bændum vel, þar
sem skilyrði eru góð. Svo er ekki í mínu tilfelli og fjölda annarra. En á ég að
fara fram á betra 3G, þegar verið er að setja upp 4G á fjölmennari svæðum?
Internettengingar í gegnum gervihnött veit ég að eru
tæknilega framkvæmanlegar og er boðið upp á þær víða í Evrópu. Engin slík lausn
er í boði á Íslandi og hvergi hægt að sjá að sá kostur hafi verið kannaður.
Þrátt fyrir að það kunni að vera þjóðhagslega hagkvæmt og arðbær rekstur.
Brotthvarf ríkisins af fjarskiptamarkaði kemur í veg fyrir
að fyrirtækin sem þurfa að skila hluthöfum hæsta mögulega arði horfi á annað en
arðbærustu þéttbýlisstaði við útvíkkun á þjónustu.
Auk þessa alls hljóta það að vera sjálfsögð mannréttindi að
fólki standi til boða svo almenn og útbreidd þjónusta sem hraðtenging við
internetið er. Hvers vegna í ósköpunum var sett upp dreifikerfi rafmagns og
síma í sveitum landsins á sínum tíma? Jú – vegna þess að það er sjálfsögð
þjónusta sem notendur voru tilbúnir að greiða fyrir.
Það hefur komið bersýnilega í ljós að dreifikerfi Símans
átti aldrei að selja. En útgangspunkturinn hlýtur að vera sá að stjórnvöld
þurfa að hreyfa bæði legg og lið til að við sem fáum bara örfáa „dropa“ af
internetinu fáum væna bunu úr krananum. Það væri sanngjarnt, réttlátt og
fallegt.
3 ummæli:
Símafyrirtækin munu standa gegn því að fá sjónvarp og net í gegnum gerfihnött hér á landi. Þó er það trúlega hagkvæmara og gæti boðið okkur upp á raunverulegt HD sjónvarp.
Þar fyrir utan ef það væri gert þá mætti gleyma öllum þessum endurvarpsstöðvun sem nú eru í notkun fyrir sjónvarp (útvarp). Það yrði aldei aftur bilun á Gagnheiði :)
Heyr heyr.. Það er svo hárrét að dreifikerfið átti aldrei að selja, það átti hinsvegar að selja að því aðgang öllum sem það vildu og nota tekjurnar til að byggja það upp enn frekar og reka það...
Skrifa ummæli