föstudagur, 29. febrúar 2008

Tjaldvagnaparadísin Vestfirðir

Ég er einn þeirra sem er þeirrar skoðunar að Vestfirðingar ráði því sjálfir hvort sett verði upp olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að í hverjum landshluta eigi íbúar sjálfsagðan rétt til uppbyggingu iðnaðar og samgangna óháð því hvað mér eða öðrum finnst.

Eins og staðan er nú þá eiga Vestfirðingar öngva reykspúandi verskmiðju eða mengandi iðnað. Telji þeir það vera heilladrjúgt fyrir sitt atvinnusvæði að byggja þar upp koltvísýringslosandi verksmiðju þá ber ég virðingu fyrir þeirri skoðun. Í það minnsta yrði slík lausn ekki skammtímalausn, og myndi í versta falli auka atvinnu á Vestfjörðum og ásamt því að auka útflutningstekjur þjóðarinnar varanlega.

Ég veit að úr fjarlægð er ákaflega rómantískt að eiga í pokahorninu stóriðjulausa Vestfirði.

Ég veit að úr fjarlægð er virkilega rómantískt að eiga þess kost að leggja Range Rover með hjólhýsi í aftanídragi í einhverjum eyðifirði.

Ég veit að úr fjarlægð er ákaflega rómantískt að vita af gömlum sjómönnum draga fram líftóruna með því að kæsa skötu og þurrka harðfisk.

Ég veit að úr fjarlægð er ákaflega þægilegt að reyna að hafa vit fyrir öðru fólki.

Í mínum huga eiga Vestfirðir fyrir sér meiri framtíð en að vera tjaldvagnaparadís - þess vegna mun ég bera virðingu fyrir ákvörðunum þeirra sem þar búa og þurfa að draga björg í bú.

Verða stöðumælar í 102?

Það er vefmyndavél á eyjunni.is. Hún tekur myndir af vegfarendum og búðagluggum þarna í Bankastræti, eða neðst á Laugaveginum. Ég sat allt í einu og glápti á þessa myndrænu framsetningu áðan. Það var talsvert af fólki hlaupandi, gangandi eða trítlandi upp og niður götuna. Sumir hlupu jafnvel yfir hana.

Ég hugsaði með mér: "Vá - það er svo mikið mannlíf í Reykjavík."

- horfði svo á stöðumælavörð labba sér upp brekkuna og sekta eins og svona þrjá bíla og ég hugsaði með mér: "Vá - langt síðan ég hef fengið svona."

og hugsaði aðeins meir: "Ætli verði svona flottir stöðumælar í 102 Reykjavík?"

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Tækifæri

Fréttin um að Hreiðar Már Sigurðsson í Kaupthingi skyldi láta það vera sitt fyrsta verk að leggja niður verðtrygginguna væri hann Seðlabankastjóri finnst mér vera aðalfréttin.

Ótrúlegt að enginn úr verkalýðshreyfingunni, af alþingi eða úr félagsmálaráðuneytinu skuli fylgja þessum orðum eftir og nýta tækifærið.

Verðtryggingin er böl þjóðfélagsins í dag. Mér finnst að Bjarni Ben og Illugi hefðu átt að hlusta betur á Hreiðar áður en þeir birtu grein sína í mogganum.

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Pókerfésin á alþingi

Pókeráhugi alþingismann virðist vera að ná nýjum hæðum þessa dagana. Póker er allt í einu orðið að skemmtilegum leik sem verður að lögleiða og gera hátt undir höfði. Pókerfésunum á alþingi virðist fjölga með hverjum deginum. Nú vill Björn Bjarna samþykkja pókerinn formlega.

Ég veit ekki hverjum er að þakka fyrir þennan ótrúlega áhuga á pókerspilum. Fyrir nokkrum árum byrjaði sjónvarpsstöðin Sýn að sýna pókerleiki. Þar sátu átta manns til að byrja með við hringlaga grænt borð. Flestir drukku fagurgult viskí - en sumir drukku bjór eða kók við borðið. Þessu var svo lýst af tveimur pókerspekingum eins og um leik ársins í fótboltanu væri að ræða. Ég man að sumir vinir mínir fengu skyndilegan áhuga á póker vegna þessa. Einn vinurinn gekk svo langt að kaupa alvöru spilaborð og alvöru spilapeninga. Í eitt skiptið var mér boðið að vera með. Eftir að sjö vinir höfðu setið og svitnað í heilt kvöld, og einn vinurinn hafði hirt 35 þúsund króna pott, þá fóru allir heim. Eftir kvöldið ákvað ég að póker væri skrítið spil - reyndar skildi ég betur hvernig spenna er sótt í póker.

Seinna meir byrjaði SkjárEinn líka að sýna póker, og enn jókst áhugi á póker á Íslandi.

Kannski ætti að taka til sýninga þætti um kappdrykkju á Sýn. Það myndi auka áhuga á kappdrykkju sem síðar myndi leiða til þess að alþingismenn fengju áhuga á kappdrykkju. Það myndi svo leiða til þess að alþingismenn settust niður og samþykktu kappdrykkju formlega.

Ég hef líka komið í spilaklúbb í nokkur skipti árið 1999. Þar var veitt smyglað áfengi og spiluð ólögleg fjárhættuspil, þar sem starfsemin var algjörlega án vitundar skattayfirvalda. Hins vegar var vitað að lögreglan léti staðinn vera meðan starfsemin væri ekki of stór. Það þolir ekki dagsins ljós að segja frá því hverjir komu þar - en mér fannst stemmingin þarna inni ekki ólík þeirri spennu sem myndast í pókerspili.

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Skottulækningar

Það eru í besta falli skottulækningar sem þingmennirnir Bjarni og Illugi leggja til í sérstakri opnugrein í mogganum í dag.

Þeir vilja hjálpa þessum svokölluðu bönkum að halda áfram að bjóða upp á verstu kjör sem neytendum bjóðast í allri Evrópu. Hvers lags rugl er þetta eiginlega?

Ég held að það þurfi ekki að hjálpa íslenskum bönkum neitt sérstaklega. Ég held frekar að það ætti að hjálpa erlendum bönkum að fóta sig á íslenskum markaði.

Bankarnir voru einkavæddir í nafni frjálsa markaðarins. Leyfum bara frjálsa markaðnum að skera úr um tilvist þeirra.

Þingmennirnir ættu að beita sér fyrir afnámi verðtryggingarinnar og inngöngu í Evrópubandalagið - því aðeins það gagnast almenningi í landinu......eða voru þeir ekki að vinna fyrir almenning...?

mánudagur, 25. febrúar 2008

Rétti maðurinn

Mér líst vel á nýja þjálfarann hjá íslenska handboltaliðinu. Guðmundur Þ. Guðmundsson er akkúrat einn af þeim mönnum sem áttu skilið að taka við liðinu. Ég vona bara að hann fái vinnufrið þótt honum gangi ef til vill illa í byrjun. Framundan eru gríðarlega erfiðir leikir gegn Svíum og Pólverjum sem fyrirfram er ekki nema litlar líkur á við sigrum - þótt það væri undir stjórn Alfreðs.

Aðalatriðið er að undir stjórn Guðmundar getum við verið viss um fagleg vinnubrögð og ágætis árangur.

Áfram Ísland!

Þjálfari 5

Ég er soldið spenntur að vita hver verður næsti landsliðsþjálfari í handknattleik - það á víst að tilkynna um þetta á eftir.

Var að spá hvort hann verði kynntur sem fimmti besti kosturinn í stöðuna, svona af því fjórir hafa sagt Nei.

Króna/EURO