föstudagur, 29. febrúar 2008

Tjaldvagnaparadísin Vestfirðir

Ég er einn þeirra sem er þeirrar skoðunar að Vestfirðingar ráði því sjálfir hvort sett verði upp olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að í hverjum landshluta eigi íbúar sjálfsagðan rétt til uppbyggingu iðnaðar og samgangna óháð því hvað mér eða öðrum finnst.

Eins og staðan er nú þá eiga Vestfirðingar öngva reykspúandi verskmiðju eða mengandi iðnað. Telji þeir það vera heilladrjúgt fyrir sitt atvinnusvæði að byggja þar upp koltvísýringslosandi verksmiðju þá ber ég virðingu fyrir þeirri skoðun. Í það minnsta yrði slík lausn ekki skammtímalausn, og myndi í versta falli auka atvinnu á Vestfjörðum og ásamt því að auka útflutningstekjur þjóðarinnar varanlega.

Ég veit að úr fjarlægð er ákaflega rómantískt að eiga í pokahorninu stóriðjulausa Vestfirði.

Ég veit að úr fjarlægð er virkilega rómantískt að eiga þess kost að leggja Range Rover með hjólhýsi í aftanídragi í einhverjum eyðifirði.

Ég veit að úr fjarlægð er ákaflega rómantískt að vita af gömlum sjómönnum draga fram líftóruna með því að kæsa skötu og þurrka harðfisk.

Ég veit að úr fjarlægð er ákaflega þægilegt að reyna að hafa vit fyrir öðru fólki.

Í mínum huga eiga Vestfirðir fyrir sér meiri framtíð en að vera tjaldvagnaparadís - þess vegna mun ég bera virðingu fyrir ákvörðunum þeirra sem þar búa og þurfa að draga björg í bú.

Engin ummæli:

Króna/EURO