miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Pókerfésin á alþingi

Pókeráhugi alþingismann virðist vera að ná nýjum hæðum þessa dagana. Póker er allt í einu orðið að skemmtilegum leik sem verður að lögleiða og gera hátt undir höfði. Pókerfésunum á alþingi virðist fjölga með hverjum deginum. Nú vill Björn Bjarna samþykkja pókerinn formlega.

Ég veit ekki hverjum er að þakka fyrir þennan ótrúlega áhuga á pókerspilum. Fyrir nokkrum árum byrjaði sjónvarpsstöðin Sýn að sýna pókerleiki. Þar sátu átta manns til að byrja með við hringlaga grænt borð. Flestir drukku fagurgult viskí - en sumir drukku bjór eða kók við borðið. Þessu var svo lýst af tveimur pókerspekingum eins og um leik ársins í fótboltanu væri að ræða. Ég man að sumir vinir mínir fengu skyndilegan áhuga á póker vegna þessa. Einn vinurinn gekk svo langt að kaupa alvöru spilaborð og alvöru spilapeninga. Í eitt skiptið var mér boðið að vera með. Eftir að sjö vinir höfðu setið og svitnað í heilt kvöld, og einn vinurinn hafði hirt 35 þúsund króna pott, þá fóru allir heim. Eftir kvöldið ákvað ég að póker væri skrítið spil - reyndar skildi ég betur hvernig spenna er sótt í póker.

Seinna meir byrjaði SkjárEinn líka að sýna póker, og enn jókst áhugi á póker á Íslandi.

Kannski ætti að taka til sýninga þætti um kappdrykkju á Sýn. Það myndi auka áhuga á kappdrykkju sem síðar myndi leiða til þess að alþingismenn fengju áhuga á kappdrykkju. Það myndi svo leiða til þess að alþingismenn settust niður og samþykktu kappdrykkju formlega.

Ég hef líka komið í spilaklúbb í nokkur skipti árið 1999. Þar var veitt smyglað áfengi og spiluð ólögleg fjárhættuspil, þar sem starfsemin var algjörlega án vitundar skattayfirvalda. Hins vegar var vitað að lögreglan léti staðinn vera meðan starfsemin væri ekki of stór. Það þolir ekki dagsins ljós að segja frá því hverjir komu þar - en mér fannst stemmingin þarna inni ekki ólík þeirri spennu sem myndast í pókerspili.

Engin ummæli:

Króna/EURO