mánudagur, 31. mars 2008

Jarðgangna draumar

Ég er með jarðgöng á heilanum. Mér hefur verið bent á það hvernig eitt einfalt og stórtækt jarðgangnaverkefni getur haft mikilsverðari áhrif á byggðaþróun á Austurlandi en nokkurt álver. Markmiðið er sjálfbært samfélag.

Hinn danski Axel Beck fyrrverandi framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands og núverandi atvinnuráðgjafi í Danmörku sagði frá því á afmæli Þróunarfélagsins á föstudaginn að hefði hann verið spurður hvort ætti frekar að ráðast í. Álver eða jarðgöng - þá hefði hann hiklaust sagt jarðgöng. Því samgöngur eru jú viðurkennd forsenda og undirstaða samfélaga.

Hið svokallaða Samganga verkefni er stórhuga samfélagsverkefni hugsjónamanna sem ætlað er að tengja byggðir á Mið-Austurlandi saman. Fjarlægðir styttast um tugi kílómetra, Fjórðungssjúkrahúsið verður í alfaraleið, flutningskostnaður minnkar, slysum fækkar, viðhald vega minnkar og almenn þjóðhagsleg hagkvæmni næst fram. - Það er alvöru draumur.

Sveitarfélög Austanlands hafa svo tækifæri til að fjármagna verkefnið á eigin vegum og selja eins og ein jarðgöng til Vegagerðarinnar á sex ára fresti.

...og til að fyrirbyggja misskilning þá tengist þetta hvorki Vaðlaheiðargöngum, né Sundabraut - heldur er tillaga heimamanna um umbætur til að gera búsetu og atvinnu á miðausturlandi hagkvæmari og öruggari.

föstudagur, 28. mars 2008

Svipuhöggin hætt að bíta?

Í þessum orðum skrifuðum er krónan að nálgast ný lágmörk.

Á þá að hækka stýrivexti um 2% á morgun?

Held reyndar að það sé að koma í ljós að stýrivaxtahækkun Seðlabankans eftir páska hafði engin áhrif - enda er ósköp lítill munur á svipuhöggi nr. 131 og nr. 132. Svipuhögg ættu líklega að hætta að meiða eftir ákveðinn fjölda, er þetta ekki bara svipað með vaxtastefnu Seðlabankans?

fimmtudagur, 27. mars 2008

Áburðinn á túnin fyrst

Ég drekk einn líter af mjólk á dag, og svo borga ég mjólk oní fleiri á mínu heimili.

Þess vegna hlýt ég að velta því fyrir mér hvenær mjólk hækkar í verði og hvers vegna. Sjá frétt

Sérstök verðlagsnefnd búvara segir til um verðið sem framleiðendur fá fyrir mjólkina sína. Hversu gamaldags er þetta? Þegar að verið er að einkavæða í heilbrigðisþjónustu - þá er ennþá til verðlagsnefnd búvara. Það finnst mér fyndið.

Ástæður hækkuninnar eru sagðar vegna hækkunar á kjarnfóðri, áburði og fleiri rekstrarþátta.

Ég get keypt þetta allt saman, nema með áburðinn - hann er nú ekki ennþá kominn á túnin og þaðan af síður heyið sem af honum sprettur í hlöðuna. Væri ekki nær að koma áburðinum á túnin áður en hann veldur hækkunum?

Hví geta mjólkurstöðvarnar ekki keypt mjólk af bændum á því verði sem gengur í það og það skiptið? Hvað er verið að gera með einhverja nefnd? Er þetta ekki haftastefna?

þriðjudagur, 18. mars 2008

Allir sofandi þegar skipið sekkur

Nú er semsagt að koma í ljós hversu viðbjóðsleg kjör almenningur í landinu býr við. Það er einmitt hann sem borgar fyrir lélegustu efnahagsstjórn sem þekkist. Fjórða hver króna sem við áttum fyrir nokkrum vikum er nú einskis virði.

Hvernig getur Sjálfstæðisflokkur með alla sína Gettu Betur- og Morfístitti innanborðs lokað augunum og neitað að horfast í augu við raunveruleikann?

Hvernig getur Samfylking með allar sínar rauðsokkur, neytendaráðherra, andstæðinga verðtryggingar og Evrópusinna falið sig í Mexíkó, Abu Dabi og dönskum ritstjórnarskrifstofum þegar efnahagslífið er að hrynja?

Hví í andskotanum stendur ríkisstjórnin í því að kjafta upp lánstraust bankanna þegar allt er að fara til fjandans?

....og svo er ekki einu sinni til plan um hvað eigi að gera í stöðunni. Stjórnmálamenn í landinu vilja líklegast sofa niður í lúkar þegar skipið sekkur - Því Bláa höndin mun ekki hrista þá á fætur.

föstudagur, 14. mars 2008

Einstaklingur greiðir fyrir vinnuslys kennara

Þessa frétt staldraði ég við - og hún olli mér hugarangri.

11 ára nemandi lendir í því óviljaverki að valda kennara sínum varanlegu líkamstjóni. Að mínu mati klárt vinnuslys sem atvinnurekandinn hefði átt að sjá sóma sinn í að bæta án málaferla. Móðir barnsins þarf að greiða kennaranum 9 milljónir króna í bætur og 1 milljón í málskostnað. Eiga einstaklingar nú að standa undir kostnaði af vinnuslysum?

Á vinnustað þar sem unnið er með börn og unglinga getur ýmislegt komið upp á. Þarna er um augljóst slys að ræða.

fimmtudagur, 13. mars 2008

Krullaða gyltan

Fyrst ég hef hafist handa við að rita minningar um Ólaf Ragnar Grímsson frá því ég var unglingur eða táningur. Þá verð ég að segja frá minningum mínum úr hinu forna Austurlandskjördæmi, þegar að Davíð hafði unnið formannssigur í Sjálfstæðisflokkunum og leiddi í fyrsta skipti flokkinn í gegnum kosningabaráttu.

Í forgrunni kosningabaráttunnar tók Davíð upp á að kalla Ólaf Ragnar ónefninu "Skattmann". Ekki löngur síðar uppnefndi Ólafur hann "Súper-Skattmann", og vísaði í álögur borgarinnar á skattborgara.

Skopmyndateiknari hins sáluga vikublaðs AUSTRA tók málið upp á sína arma. Ef ég man rétt þá teiknaði hann mynd af Davíð með svínsnef. Ég og liðfélagar mínir í handboltaliði Hattar rákum augun í skopteikninguna á Egilsstaðaflugvelli þegar við sátum og biðum eftir næsta okurflugi frá þáverandi Flugleiðum. Við flissuðum mikið af myndinni. Einhver sagði: "Þetta er eins og krulluð gylta!" og enn var hlegið.

Brá þá svo við að flugvél Flugleiða lenti á Egilsstaðaflugvelli. Nokkrir farþegar voru um borð. Einn þeirra var Davíð Oddsson sem tekið hafði flugið í atkvæðaleit. Við flissuðum mikið þegar hann steig inn í flugstöðina og varð honum litið til okkar, virtist hann ekki alveg öruggur um hvert væri hláturefnið.

Það varð svo að mínu hlutverki að verða sendiboði hópsins. Í hönd mína var settur AUSTRI og ég gekk í hægðum mínum í átt að þáverandi formanni Sjálfstæðiflokksins, ekki var laust við að ég yrði örlítið stressaður. Ég lét mig samt hafa það og pikkaði lauslega í öxlina á honum. Þegar hann leit við sagði ég: "Fyrirgefðu, ég ætla að gefa þér þetta blað - það er mynd af þér hérna sjáðu."

Formaðurinn tók við blaðinu leit á teikninguna og sagði þurrlega. "Þakka þér fyrir." Veltist þá yngsta handboltalið Hattar um af hlátri - og ég skynjaði að best væri fyrir mig að víkja brott frá þessum virðulega manni.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Að hrista soðinn sviðakjamma

Það eru nánast æskuminningar þegar ég tók í hendina á Ólafi Ragnari Grímssyni þegar hann var fyrst í framboði til embættis forseta Íslands. Ég man að nánast afi minn var kosningasmali fyrir hann. Kosningaskrifstofa Ólafs á Egilsstöðum var í Framsóknarkjallaranum þar í bæ. Ég man alltaf fyrir hversu miklum vonbrigðum ég varð þegar ég fékk að hrista lúkuna á honum eftir að hafa staðið í röð til þess arna. Hann rétti fram höndina og ég tók um hönd hans. Eftir að hafa ímyndað mér hraustlegt handaband, innblásið af föðurlandsást, þá varð ég fyrir ótrúlega sárum vonbrigðum. Lúka hans var hálflokuð þar sem hann hélt þumalfingri fast að lófanum. Þannig varnaði hann því að ég gæti fyllt lófa hans með lófa mínum, þannig gátum við ekki orðið að einu í stundarkorn. Því fannst mér eins og ég stæði og hristi soðinn sviðakjamma, í þessar tvær sekúndur áður en hann dró til sín lúkuna á nýjan leik - og leit á þann næsta í röðinni. Með þessari aðferð tókst honum að afgreiða ótrúlegan fjölda handabanda á ótrúlega skömmum tíma.

Ég bíð eftir að Össur lýsi handabandi sínu við Bush í smátriðum - því varla hefur það verið síðra. Svo verður forvitnilegt hvort og hvenær hann fær að snerta karlmannlegan Austurrískan líkama ríkisstjóra Kaliforníu. Mér skilst að þar sé Össur með allt í gangi - en það er víst leyndó hversu margar billjónir af íslenskum aur eigi að fara þangað til fjárfestingar í nýjasta áhugamáli Össurs, sem virðist vera að taka yfir heilaga trú hans á íslenska urriðann.

Króna/EURO