fimmtudagur, 13. mars 2008

Krullaða gyltan

Fyrst ég hef hafist handa við að rita minningar um Ólaf Ragnar Grímsson frá því ég var unglingur eða táningur. Þá verð ég að segja frá minningum mínum úr hinu forna Austurlandskjördæmi, þegar að Davíð hafði unnið formannssigur í Sjálfstæðisflokkunum og leiddi í fyrsta skipti flokkinn í gegnum kosningabaráttu.

Í forgrunni kosningabaráttunnar tók Davíð upp á að kalla Ólaf Ragnar ónefninu "Skattmann". Ekki löngur síðar uppnefndi Ólafur hann "Súper-Skattmann", og vísaði í álögur borgarinnar á skattborgara.

Skopmyndateiknari hins sáluga vikublaðs AUSTRA tók málið upp á sína arma. Ef ég man rétt þá teiknaði hann mynd af Davíð með svínsnef. Ég og liðfélagar mínir í handboltaliði Hattar rákum augun í skopteikninguna á Egilsstaðaflugvelli þegar við sátum og biðum eftir næsta okurflugi frá þáverandi Flugleiðum. Við flissuðum mikið af myndinni. Einhver sagði: "Þetta er eins og krulluð gylta!" og enn var hlegið.

Brá þá svo við að flugvél Flugleiða lenti á Egilsstaðaflugvelli. Nokkrir farþegar voru um borð. Einn þeirra var Davíð Oddsson sem tekið hafði flugið í atkvæðaleit. Við flissuðum mikið þegar hann steig inn í flugstöðina og varð honum litið til okkar, virtist hann ekki alveg öruggur um hvert væri hláturefnið.

Það varð svo að mínu hlutverki að verða sendiboði hópsins. Í hönd mína var settur AUSTRI og ég gekk í hægðum mínum í átt að þáverandi formanni Sjálfstæðiflokksins, ekki var laust við að ég yrði örlítið stressaður. Ég lét mig samt hafa það og pikkaði lauslega í öxlina á honum. Þegar hann leit við sagði ég: "Fyrirgefðu, ég ætla að gefa þér þetta blað - það er mynd af þér hérna sjáðu."

Formaðurinn tók við blaðinu leit á teikninguna og sagði þurrlega. "Þakka þér fyrir." Veltist þá yngsta handboltalið Hattar um af hlátri - og ég skynjaði að best væri fyrir mig að víkja brott frá þessum virðulega manni.

Engin ummæli:

Króna/EURO