mánudagur, 7. apríl 2008

Helgarsportið: Smalahundakeppni

Það er ýmislegt sem maður er tilbúinn til að eyða misdýrmætum tíma sínum í. Meðan tími sumra er svo dýrmætur að hann er reiknaður í flugstundum, þá er minn tími ekki alveg jafn dýrmætur.

Ég get tildæmis bent á að á laugardaginn fundum við í fjölskyldunni ekkert dýrmætara við tíma okkar að gera en að keyra í Fljótsdal og horfa á smalahundakeppni. Aldrei áður hafði mig grunað að tími minn leyfði að ég sæti í bíl og horfði á hunda smala rollum eftir köllum eigenda sinna. Þetta gerðist samt sem áður á laugardaginn.

Ég horfði ásamt fjölskyldu minni á hvernig smalahundar smöluðu rollum inn í gegnum misstór hlið. Þetta var greinilega mikið nákvæmnisverk. Svo stóðu mannsmalarnir með eitthvað prik og kölluðu skipanir hundsins. Stundum komu rollurnar til smalans og hann barði prikinu í jörðina. Ég veit ekki til hvers, en líklega var þetta þeirra leið til að segja eitthvað við rollurnar. En allavega eltu rollurnar mannsmalana inn í rétt, eftir að þeir höfðu barið prikinu ítrekað í jörðina.

Svo skildist mér að dómarar sætu inn í einhverjum jeppa og reiknuðu út hversu vítt hundarnir smöluðu og hversu breitt þeir fóru fyrir. Svo tóku þeir tíma og ákváðu hver væri frábærasti smalahundurinn.

Ég kolféll ekki fyrir þessu sporti.

Við keyrðum heim á leið eftir að hafa fylgst með þessu athöfnum í meira en 20 mínútur. Þá hafði kona mín reiknað út að tíma okkar væri betur varið annars staðar.

Engin ummæli:

Króna/EURO