fimmtudagur, 3. apríl 2008

Zeit zum aufgehen

Einhver leiðinlegasta vekjaraklukka í Evrópu er staðsett í svefnherberginu mínu. Betri helmingurinn telur hana vera nauðsynlega. Þegar að fótaferðartími kemur þá gellur í vekjaraklukkunni hvöss kvenrödd sem segir á þýsku: "Zeit zum aufgehen." Sé ekki tekið mark á kvenröddinni heyrist enn hærra með skerandi röddu: "Zeit zum aufgehen!!!" og því lengur sem beðið er með að þagga niður í kerlingu, þá heyrist röddin hærra og hærra - þangað til aðgerða er þörf. Skerandi rödd þýskrar gribbu kemur okkur því á fætur daglega - og oft hefur mig langað í aðra vekjaraklukku en þessa.

Mér sýndist Ingibjörg Sólrún vera jafnpirruð á spurningum um ferðir sínar í einkaþotu á kostnað skattaborgara á blaðamannafundi í gær og ég get verið á vekjaraklukkunni.

Alveg ótrúlega léleg taktísk ákvörðun var tekin með því að fljúga með einkaþotu á einhvern fund á kostnað almennings. Á sama tíma og almenningur og fjölmiðlar öskra á ríkisstjórnina: "Zeit zum aufgehen!!!", þá fljúga ráðherrar á einkaþotum.

Mótsagnakennt.

Þess vegna er ekki hægt að álykta annað en að ríkisstjórnin sé algjörlega sofandi og óafvitandi um þá undiröldu sem orðin er til meðal almennings í landinu. Almenningur er jú uggandi um sín kjör. Burtséð frá því hvað kostar að leigja einkaþotu, og hvað það sparar mikla dagpeninga og tvöfalda Jack Daniels að leigja eina slíka - þá er flug með einkaþotu táknræn svívirðing við almúgann í landinu.

.....góðar stundir.

Engin ummæli:

Króna/EURO