Svo var komið árið 2007 að Kaupfélag Héraðsbúa rak kjörbúðir á fjörðum og stórmarkað á Egilsstöðum kenndan við Samkaup. Austfirskir bændur voru heppnir ef þeir gátu selt kartöflur í þeirri verslun. Upp undir hálfur milljarður fannst í Landsbankanum skyndilega þetta ár. Hann var fenginn að láni og nýttur til kaupa á verktakafyrirtækinu Malarvinnslunni, góðkunnu fjölskyldufyrirtæki í þorpinu sem hafði verið drifið áfram af eljusemi þáverandi eigenda - sem þó sáu fyrir að fjárfestingar félagsins voru vægast sagt glannalegar nú þegar framkvæmdum við álver og Kárahnjúka var að ljúka. Þetta sá stjórn Kaupfélagsins ekki fyrir, þrátt fyrir að húsmæður á Egilsstöðum hristu höfuðið frá fyrstu mínútu. Malarvinnslan varð svo gjaldþrota á haustmánuðum 2008. Í kjölfarið varð Kaupfélagið gjaldþrota í febrúar 2009. Í sjónvarpsviðtali af því tilefni sagði Björn Ármann Ólafsson, stjórnarformaður, í stórum dráttum að þarna væri ráðgjöfum félagsins um að kenna - þeir hefðu reiknað út að allt yrði í himnalagi. Önnur skoðun stjórnarinnar hefur ekki enn verið reifuð opinberlega.
Þrátt fyrir að Kaupfélag Héraðsbúa hafi orðið gjaldþrota. Þá var það víst fyrir "miskunn" Landsbankans að leið nauðasamninga var farin. Í dag eru um 20% af kröfum greiddar eftir að allar eignir hafa verið seldar úr félaginu. Eftir því sem ég best fæ skilið er Kaupfélag Héraðsbúa því skuldlaust í dag, og eignalaust. Það er sárgrátlegt að KHB varð 100 ára á seinasta ári - þvílíkt ár í sögu félagsins. Eftir að stjórnarmenn félagsins síðasta áratuginn höfðu smátt og smátt keyrt það í þrot - heyrist lítið frá eigendum félagsins, þ.e. bændum á Héraði. Hvað ætla þeir að gera? Ætla þeir að stofna nýtt samvinnufélag? Gefast upp gagnvart samvinnuhugsjóninni? Eða kjósa sér nýja stjórn Kaupfélags Héraðsbúa, þróttmeiri bænda sem hafa þá hugsjón að stunda atvinnugreinina búskap á Fljótsdalshéraði á næstu áratugum. Og "by the way", KHB er 101 árs í ár, það er gott ár til góðra verka.