þriðjudagur, 19. janúar 2010

Um Eignarhaldsfélagið Fasteign

Læt hér liggja grein er ég ritaði í þann merka miðil Austurgluggann á dögunum:

Ryki kastað í augu fólks á Héraði
Inn um lúguna barst íbúum ellefu sveitarfélaga á dögunum fallega prentaður snepill frá EFF, eða Eignarhaldsfélaginu Fasteign. Ég skal taka það strax fram að ekkert þyngir hjartslátt minn jafn mikið og þegar EFF berst til tals, slíka ímugust hef ég á því félagi.

Bæklingurinn er tilraun til að bæta ímynd félagsins gagnvart íbúum sveitarfélaga sem koma að því. Enda segir í bæklingnum á blaðsíðu 9: “Komið hefur fram gagnrýni á að leigugreiðslur til EFF séu háar. Á sínum tíma var lagt til innan einstakra sveitarfélaga að þau keyptu eignirnar sem þau leigja af EFF og tækju erlend myntkörfulán til umræddra kaupa.”

Í framhaldi af þessum setningum eru “tvær eignaleiðir” bornar saman og EFF segir frá því hvernig leigugreiðslur hafi reynst lægri en afborganir af evrulánum. Kemur á óvart, eða þannig. Rangfærslan í textanum er sú að ekki eru bornar saman tvenns konar eignaleiðir. Verið er að bera saman muninn á því að leigja og kaupa. Jafnvel við afborganir Evrulána verður til eigið fé, sem myndast ALDREI við útgjöld eins og leigugreiðslur. Það sem þarna kemur fram er því LYGI, staðreyndum um eignamyndun er haldið frá íbúum. Staðreyndin er sú að ef sveitarfélag hefur tekið óhagkvæmt og verðtryggt íslenskt lán frá íslenskum banka eða lánasjóði sveitarfélagana, þá getur hið sama sveitarfélag eignast bygginguna að skuldlausu á 25 árum. Að þeim tíma liðnum hefur sveitarfélagið borgað nálægt því sömu upphæð í afborganir af lánum og í leigugreiðslur af byggingunni. Munurinn er sá að ef sveitarfélagið hefur fjármagnað eigin byggingu þá er hún eign eftir 25 ár. Eftir 25 ára leigutíma hefur engin eign myndast, aðeins nauðvalið að leigja áfram á sama verði. Séum við þeirri villutrú haldin að lífið vari aðeins í 25 ár, þá er hægt að staðhæfa þess háttar rugl.

Væntanlegur, ímyndaður hagnaður
Á bls. 3 í bæklingnum koma fram tvær fullyrðingar. Sú fyrri: “Þegar leigugreiðslur hafa við lok leigusamnings greitt upp allan kostnað af viðkomandi fasteignum, verður til hrein eign sveitarfélagana, sem eigenda, innan félagsins.” Sú seinni: “Allur hagnaður rennur til sveitarfélags þíns og annara eigenda.”
Skoðum hvað kemur fram í textanum. Jú aðeins hálfsannleikur. Ekki kemur fram í textanum hverjir “aðrir” eigendur félagsins eru. Það er t.a.m. Íslandsbanki að helmingi sem nú er ekki vitað í eigu hverra er. Rétt er að upplýsa að í eigendahópnum er Háskólinn í Reykjavík, sem talinn er vera í fjárhagskröggum – ekki síst vegna hárra leigugreiðslna. Eitt af ellefu sveitarfélögum sem eru í eigendahópnum er sveitarfélagið Álftanes, sem rambar að sögn fjölmiðla á barmi gjaldþrots og hefur tæmt lausafjárreikninga sína.

Væntanlegur hagnaður fer því til Íslandsbanka að helmingi og skiptist auk þess milli fjölda sveitarfélaga. Vert er að hafa í huga að væntanlegur hagnaður er ekki það sama og hagnaður. Það vitum við núna árið 2009. Það skal jafnframt tekið fram að EFF á og rekur skrifstofuhúsnæði um allt land, ætlað undir bankastarfsemi Íslandsbanka. Hver fær skilið hvernig þessi samkunda varð til? Fyrrum Glitnir, með áhættusækna starfsmenn og hluthafa virðast hafa tælt fulltrúa í hinum ýmsu sveitarfélögum til samstarfs. Ennþá loka kjörnir fulltrúar sveitarfélögum augunum fyrir því að hið opinbera á ekki að vera einokunarviðskiptum við hagnaðardrifin hlutafélög.

Í glansbæklingi EFF er einnig minnst á endurskoðunarfyrirtækið KPMG. Í skýrslu KPMG kemur fram að EFF byggi hagkvæmar byggingar. Í texta er fullyrt: “Framkvæmdir á vegum EFF eru hagkvæmari og er munurinn allt að 30%.” Fullyrðingin ein stendur, hvergi er rökstutt hvernig það má vera? Þetta sama fyrirtæki hefur nú lagt blessunarhönd sína yfir EFF. Er þetta í fyrsta skipti sem KPMG prentar skýrslu sem hentar umbjóðendum sínum? Væri ekki úr vegi að töfrasprotar EFF útskýrðu hvernig þeim tekst að halda byggingarkostnaði 30% lægri heldur en opinbera útboðskerfið? Hvaða töfralyf er eiginlega drukkið í höfuðstöðvum EFF, svo aðrir húsbyggendur í landinu roðna?

Hvað mun Grunnskólinn kosta?
Í appelsínugula glansbæklingnum frá EFF segir: “EFF fjármagnar, byggir og rekur fasteignir.” Athugasemd verð ég að gera við þennan texta. EFF gat ekki fjármagnað byggingu Grunnskólans á Egilsstöðum, og guð má vita hvað annað fyrirtækið hefur ekki getað fjármagnað. Þá reyndist sveitarfélagið Fljótsdalshérað sterkari aðili en EFF og fjármagnaði bygginguna. Hins vegar hélt sveitarfélagið samningum við EFF í gildi með hjálp lögfræðinga sem þurftu að gera sitt allra besta til að halda flóknum gjörningum gangandi.

Ennþá hefur sveitarfélagið ekki kynnt hvað Grunnskólinn á Egilsstöðum kostaði eða hvað sveitarfélagið mun greiða mánaðarlega í leigu að núvirði meðan samningurinn er í gildi, og þá hversu mikið sveitarfélagið hefur greitt samtals í leigugjöld af Grunnskólanum á Egilsstöðum eftir 30 ár, þegar að bókfærð eign í grunnskólanum verður kr. 0,-? Væri ekki rétt að birta þetta herra bæjarstjóri, kæra bæjarstjórn og elsku bæjarráð á Fljótsdalshéraði?

Það sem við vitum ekki
Einnig væri gott ef við íbúar sveitarfélagsins fengjum að vita hvað bókhaldsbrellurnar þýða fyrir rekstur og efnahag sveitarfélagsins? Er það svo að leigukostnaður vegna grunn- og leikskóla á Egilsstöðum gjaldfærist á stofnanirnar? Leiðir þetta til þess að þið reiknið kostnað á hvern nemanda nú hærri en nokkru sinni? Gæti það verið af þeim sökum að ekkert af kostnaði við rekstur bygginganna eignfærist lengur? Er það þessvegna sem þurfti skyndilega að hækka leikskólagjöld í sveitarfélaginu?

Sjálfur lýsi ég þeirri skoðun að sveitarfélagið Fljótsdalshérað ætti að selja eignarhlut sinn í EFF, þegar kaupandi fæst og leysa til sín þær fasteignir EFF sem staðsettar eru í sveitarfélaginu.

Einar Ben Þorsteinsson
áhugamaður um sveitarstjórnarmál á Fljótsdalshéraði.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oops.
Ertu að segja að Ríkur bæjarstjóri og stjórnarmaður í Fastseign hafi ekki hundsvit á peningum eða rekstri?
Þetta eru merkilegar fréttir.
Er ekki annars rífandi gangur í sölu fasteigna á Héraði?

Kv
Bitvargur

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt saman rétt hjá þér og ömurlegt að sjá slóða bæjarstjóra um landið sem langaði til að verða fínir. Borguðu og borga sér hátt kaup en hafa lagt sveitarfélögin í rúst með braski.

Nafnlaus sagði...

Sæll Einar
Ég er íbúi í Reykjanesbæ og hef kynnt mér Fasteign þó nokkuð enda nýlegur í bænum og áhugamaður um þetta málefni enda tengt menntun og starfi að vissu leiti. Ég verð að vera ósammála þér í fjölmörgum þáttum og ímynda mér helst að þú sért á móti prinsippinu á bakvið hugmyndafræðina og sjáir þar af leiðandi illa skóginn fyrir trjánum.
Fyrsti puntkurinn sem þú nefnir um samanburð á tveimur eingaleiðum er byggður á ákveðnum misskilningi. Þar sem aðilar Fasteignar eru líka leigutakar snýst þetta að miklu leiti um að verið er að leigja af sjálfum sér. Leigan er uppí kostnað við lántöku Fasteignar og vegna þess fyrirkomulags er alltaf leitað leiða til þess að leiguverð sé eins hagkvæmt og kostur er. sbr. 28% lækkun á leigugjöldum vegna lágra vaxtagjalda fasteignar.
Ástæða þess að raunhæft er að bera saman einstakar lántökur sveitarfélaga til framkvæmda og "leiguleiðina" er að það er byggt inní samkomulag um Fasteign að gjöld fylgi kostnaði sem munu þvi lækka eftir því sem líður á og verða mjög lág að leigutíma liðnum. Að þessum 25 árum liðnum hefur notandi húsnæðisins sveitarfélag þar sem skóli er staðsettur etc. möguleika á að kaupa fasteign sem hefur veirð haldið óaðfinnanlega við í 25 ár, enda innbyggt í samninginn á hrakvirði. Það þýðir að mjög lítill kostnaður aukalega myndi koma til við að eignast húsnæðið að leigutíma liðnum. Að sama skapi er innbyggt í allar greiðslur á samningstímanum krafa um að húsnæði sé haldið mjög vel við sem er ekki alltaf raunin með húsnæði í eigu sveitarfélaga.
Þú talar svo um að álftanes og HR rambi á barmi gjaldþrots vegna hárra leigugreiðslna en lítur algjörlega framhjá þeirri staðreynd að staðan væri mun verri ef þessir aðilar hefðu tekið lán, ,mjög líklega 100% í evrum til að fjármagna þessar byggingar, ergo er munurinn á stöðunni ekki mjög mikill og líklega betri í fasteign.
Að lokum er talað um að byggingakostnaður Fasteignar sé lægri, þar má nefna nokkur atriði sem má nota til að hrekja þinn málatilbúnað. Í fyrsta lagi er stærðarhagkvæmni og samlegðaráhrif af því að byggja marga eins skóla af sama fyriræki víðsvegar um land. Að auki má benda á að í krafti stærðarinnar má ná betri samningum við aðila sem vinna þurfa verkin enda fasteign mjög stór viðskiptavinur á landsvísu meðan fjarðarbyggð er lítil. Gerður er endanlegur kostnaðarsamningur sem hefur í öllum verkum eftir því sem ég fæ best séð staðið eins og stafur á bók.
Í þessu samhengi má benda á annars vegar Stapahöllina, eða hvað hún heitir í RNB og hins vegar tónlistarskólann/tónlistarhús á Akureyri. Á öðrum staðnum stenst fjárhagsáætlun algjörlega og á hinum er búið að keyra að ég held 1,5 milljarð fram úr áætlun. Annað verkefnið er unnið af Fasteign en hitt af bænum. Ég læt þér eftir að skjóta á hvort er hvað.
Það má gagnrýna Fasteign fyrir eitt og annað en helsta vandamálð er almenn framkvæmdargleði sem var í gangi á síðustu árum. Hún var til hvort sem Fasteign var hluti að hverju máli fyrir sig eða ekki. Fasteign er ekki vandamálið heldur sýnist mér það hafa verið ákveðið happaskref.
Ég afsaka þessa langloku en ég gleymdi mér aðeins í gleðiumræðunni um þetta ágæta Fasteignafélag.
kv. úr RNB, algjörlega ótengdur aðili öllum þeim sem tengjast fasteign einhverju bæjarfélagi eða Glitni.

Snæbjörn Bj. Birnir sagði...

Svolítið einkennilegt að menn, sem eru svona hrifnir af kerfinu, þurfi að vera nafnlausir....!??

Einar sagði...

Sæll og blessaður bitvargur. Er ekkert að segja um ríkan bæjarstjóra ellegar stjórnarmann í Fasteign. Er að ræða um í hvað peningar skattborgara fara í. Hef ekkert heyrt um fasteignasölu á austurlandi síðan í september á síðasta ári.

Ágætis athugasemd hjá nafnlausum, nema að eftir standa veigamiklar staðreyndir óhaggaðar. Og rétt er það að í prinsippinu er ég á móti "hugmyndafræðinni" bakvið EFF.

Nafnlaus sagði...

Hvernig er þetta hrakvirði fundið út sem nafnlaus nefnir, Og hvað getur það orðið mikið miðað við matsverð hverrar eignar?

Nafnlaus sagði...

Innilega sammála, þetta furðufyrirbæri Fasteign mun þess utan hafa tilkynnt að þeir gætu ekki leyst til sín byggingu barnaskólans á Egilsstöðum. Svo að nú er skólinn aftur kominn, ef hann hefur þá eitthvað farið, til bæjarins. Það er þagað þunnu hljóði yfir þessu í glans bæklingi íhaldsins á Héraði (gefinn út af bænum) sem var með "Ávarp forseta bæjarstjórnar á forsíðu og ávarp bæjarstjóra á baksíðu(að vísu sama ávarpið og kom í Ausurglugganum) Sá bæklingur var ekki þess virði að bera saman tölurúm rekstur bæjarins, þær bara stemmdu ekki.Ekki er svo sem verið að hafa hátt um að ráðuneytið mun vera með Fljótsdalshérað í gjörgæslu. Ég bara spyr: Hvrs eigum við að gjalda? kbeðja jj jj

Nafnlaus sagði...

Það er greinilegt að sá sem skrifaði um það að fjárhagsáætlun Fasteignar vegna Hljómahallarinnar sé að standast á sama tíma og þeir á Akureyri eru að fara 1,5 milljarð fram úr, hefur ekki nægar upplýsingar um málið. Fyrst er að nefna að Akureyrarbyggingin hefur stækkað um helming og því fylgir auðvitað viðbótarkostnaður. Hljómahöllin átti að kosta ca 1,5 milljarð en mun kosta vel á 3ja milljarð þrátt fyrir að verið sé að skera verulega útan af henni ýmsis atriði og draga þannig úr kostnaði.

Nafnlaus sagði...

Nafni minn nafnlaus - þess má geta að ég er bara nafnlaus vegna þess að ég hef engan account til þess að nafnið mitt sjáist.

Varðandi kostnað við hljómahöllina þá eru þínar tölur enn vitlausari en mínar enda úr lausu lofti gripnar. Hið rétt í þessu er að kostnaður við Hljómarhöllina hefur hækkað um það sem nemur byggingavísitölu, sem er eðlilegt þegar um þennan tíma er að ræða að kostnaður sé tengdur við það enda allt á Íslandi tengt við vísitölu. Ergo kostnaður hefur hækkað um 500m í 2 milljarða. Þess má geta að þessar 500m eru akkúrat það sem vantar til að hægt væri að klára bygginguna.
Hvað akureyri varðar er aftur það aftur á móti þannig að búið er að blása bygginguna út í ýmis konar óþarfa og þar með gríðarlega aukningu á kostnaði sem skýrist af því og svo almennum framúrakstri og léttri óráðsíu. Það er svo allt falið á bakvið grátkór um að bærinn þurfi nýjan tónlistarskóla sem hefur þó varla þurft að kosta á fjórða milljarð.
Enn og aftur ég tengist ekkert fasteign eða neinu sveitarfélagi sem er tengt þessu. Þetta er bara sick áhugamál, enda hef ég lengi verið hrifinn af því fyrirkomulagi að "einkavæða" svona byggingar eftir að Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði fóru í þetta og Hvalfjarðargöngin etc.

kv. GLL

Friðrik Sig. sagði...

Hér á Húsavík sitjum við uppi með leikskóla í eigu EFF þar sem mánaðarleigan var upphaflega 1.700.000 en mun vera komin í 3.200.000 eða svo á mánuði vel að merkja! Held að betur hefði verið heima setið og lagt fyrir í eins og 2-3 ár og þá hefði verið hægt að greiða 1 stk leikskóla út í hönd!
Ég sammála þér og er á móti hugmyndafræði EFF og vona að hún nái ekki að festa rætur í mínu samfélagi. Ég hef þá skoðun að banna eigi erlendar lántökur aðila sem hafa tekjur í íslenskum krónum.

Nafnlaus sagði...

Geta menn ekki skrifað undir nafni ef þeir hafa ekki "account"???

Finn afskaplega ólykt af öllu sem ég hef orðið var við í kringum EFF.
Þar sofa sennilega saman hið ástsæla par Græðgi og Pólítík!

Kær kveðja Austur.

Haukur Friðriksson

Króna/EURO