föstudagur, 18. apríl 2008

Bjarga sér frá falli á ársþingi HSÍ?

Afturelding er að falla í 1. deild í handknattleik, þeim langar ekki að falla. Þá grípa þeir til þess ráðs að leggja fyrir Handknattsleiksþing og leita stuðnings við tillögu sinni um að fjölga liðum úr átta í tólf í úrvalsdeild.

Þannig vilja þeir alveg eins og Haukar lögðu til á síðasta ári þegar allt útlit var fyrir að þeir féllu í 1. deild, leggja niður grundvöll neðri deildar í handknattleik. Allt vegna þess að þeir eru ekki með nægjanlega gott lið til að spila á meðal þeirra bestu.

Reyndar var það þannig að áður en núverandi fyrirkomulag var tekið upp, þá hafði Afturelding farið afar illa út úr því deildarfyrirkomulagi sem uppi var. Handknattleiknum í Mosfellsbæ hafði hnignað og var ekki á uppleið.

Þegar spilað er í deildum, þá er það árviss atburður að lið falla. Lið falla vegna þess að þau er ekki nógu góð, en ekki vegna fyrirkomulagsins. Núverandi fyrirkomulag tryggir að handknattleikur sé spilaður í fleiri liðum en áður, og neðri deildin ætti að vera handknattleiknum til framfara á lengri tíma. Það er óþolandi að fall-lið í íslenskum handbolta grípi í sífellu til þess ráðs að reyna að halda sér í úrvalsdeild á ársþingi HSÍ - en ekki á keppnisvellinum sem ætti að best vera til þess falinn.

Úrslitakeppni eða ekki úrslitakeppni, tengist ekki deildafyrirkomulagi með nokkrum hætti.

Hins vegar er umhugsunarefni hversu getulaus forystan er í að koma handknattleiknum á framfæri í fjölmiðlum. Forystan dregur að sér bestu styrktaraðila til landsliðsins og beinir öllum sínum kröftum og fjármunum til þess. Á meðan fá lið í efstu deild ekki nægjanlega feita styrktaraðila á þeim forsendum að stórfyrirtæki styrki þegar handknattleikinn myndarlega í gegnum landsliðið.

Á sama tíma og allir vita að Ronaldo er markahæstur í enska boltanum - hver veit hver er markahæstur í íslenska handboltanum? Hver er með flestar stoðsendingar í handboltanum? Hver er grófastur? Þetta veit enginn af því að HSÍ hefur mistekist að koma þannig skikki á mótahald á sínum vegum að sómi geti verið af. Hjá nágrönnum sínum í KKÍ og KSÍ gæti HSÍ dregið mikilvægan lærdóm af því hvernig standa á að mótahaldi í íþróttagreinum. Þessi mál eru ekki flókin en þvælast því miður fyrir handknattleikshreyfingunni sem virðist vera með getulaus á flestum sviðum skipulags og nútíma aðferða.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mæl þú manna heilastur.

Nafnlaus sagði...

Í öllu vælinu um N1 deildina núna, eru menn að gleyma að í hverri viku undanfarið hafa farið fram leikir í 1.deild í bullandi stemmingu og vel setnum íþróttahúsum.

Rökin að það sé svo skelfilegt að spila 4 sinnum við sama lið á sömu leiktíð eru í besta falli hlæileg á sama tíma og þeir leggja til úrslitakeppni þar sem möguleikinn er á 5 viðureignum við sama lið á rúmri viku.

Þá má benda á að Skotarnir hafa látið sig hafa þetta í efstu deildinni í fótbolta lengi

Króna/EURO