miðvikudagur, 6. janúar 2010

Að spjalla sig í stjórnarkreppu

Ekki er ólíklegt annað en að Samfylking sá á ágætri leið með að tala sig út úr ríkisstjórn. Eina stjórnarmynstrið sem gæti fengið vinnufrið næstu árin. Forsætisráðherrann hefur ákveðið gera málið stærra í augum ríkisstjórnarinnar, en ástæða er til. Stjórnarliðar eru á góðri leið að kjafta sig inn í stjórnarkreppu. Umburðarlyndið er í lágmarki.

Sjálf varð vinstri stjórnin því valdandi að forsetinn sá sig knúinn til að senda lögin í þjóðaratkvæði. Ráðherra hefur sagt af sér vegna þessa máls. Þingmenn úr VG hafa haft efasemdir um lagasetninguna. Fyrrverandi formaður Samfylkingar leggst gegn lögunum. Stjórnarandstaðan er öll á móti lögunum, utan Þráinn Bertelsson. Ríkisstjórnin missti stjórn á málinu þegar horfið var frá því að keyra það í gegnum þingið í fyrra sinnið án breytinga. Eða var ríkistjórnin ekki valdameiri en þetta? Ríkisstjórn sem ekki tekur sér vald, lendir í því að einhver annar tekur sér það.

Setningar eins og: "Ríkisstjórnin eða forsetinn." munu leiða til stjórnarkreppu. Verkefni bíða ríkisstjórnarinnar á flestum sviðum. Mál eins og RÉTTLÆTI TIL HANDA ÞEGNUNUM bíða ennþá.
_________________________

Þegar ráðamenn funduðu með lífeyrissjóðum landsins um hvernig þeir gætu komið að uppbyggingu efnahagskerfis Íslendinga, kom niðurstaðan mér á óvart. Lífeyrissjóðir ætla að byggja mannvirki og leigja ríkinu þau. Afar kærkomið, eða þannig.

Ég var svo barnalegur að halda að möguleiki væri að íslensku lífeyrissjóðirnir borguðu Icesave skuldina á einu augabragði. Að greitt væri með erlendum hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum vafningum lífeyrissjóðanna á erlendri grundu. Og að ríkið skildi ábyrgjast skuldabréf og greiða lífeyrissjóðunum tilbaka á nokkrum tugum ára - á mannsæmandi vöxtum. Skuldabréfið gæti þess vegna verið hýst á erlendri grundu, og jafnvel selt öðrum fjármagnseigendum þegar vorar í íslenskum efnahag á ný. Mál af þessari tegund hefði flogið í gegnum þingið - og væri líklegast löngu afgreitt.

En NEI. Það virðist engan veginn hægt að horfa út fyrir þann þrönga ramma sem hengdur hefur verið upp á vegg í stjórnarráðinu.

1 ummæli:

Axel Jón sagði...

Djöfull er ég sammála þér Einsi. Það er ótrúlegt að fylgjast með ríkisstjórn Íslands tala niður þjóð sína.

Króna/EURO