laugardagur, 23. janúar 2010

Víst er skítafýla af eignasölunni

Margt er ritað um mistök fréttastofu Rúv með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar. Þar er fréttastofan vildi gera fasteignaviðskipti bankanna véfengjanleg, með tengingu við framafólk. Tengingin misheppnaðist, en upphaflegi tilgangur fréttaflutningsins stendur óhaggaður.

Söluferli bankanna á ýmsum eignum er ógagnsæ, og til þess fallinn valda vangaveltum um spillingu.

Punktur 1: Fasteign fer í almennt söluferli. Hún er sett í sölu hjá fasteignasala. Hvaða gegnsæja ferli ákvarðar um hvaða fasteignasali fær hana til sölu?

Punktur 2: Hvað er það sem tryggir að fasteignasalinn auglýsi eignina í dagblöðum eða netinu? Hverjir eru það sem frétta að eignin er á söluskrá?

Punktur 3: Hvað er það sem tryggir að vinur bankamanns fréttir ekki fyrir tilviljun að ákveðin eign sé komin á söluskrá hjá ákveðinni fasteignasölu?

Punktur 4: Hvenær er það sem bankinn tekur ákvörðun um að besta verði sé náð? Er það þegar Jón býður 69 milljónir, eða þegar séra Jón býður 69,2 milljónir korteri seinna?

Punktur 5: Hvenær er það sem fasteignasalinn ráðleggur bankanum að selja undir markaðsvirði? Er það þegar Jón hefur boðið 69 milljónir, eða þegar séra Jón hefur boðið 69,2 milljónir?

Opið söluferli er þegar eign er AUGLÝST til sölu, þá er tekið á móti TILBOÐUM í lokuðu umslagi, og þau OPNUÐ á sama tíma í sama rými að VIÐSTÖDDUM þeim er þessa óska. Er það kannski OF opið? Væri það of vel til þess fallið að auka trú almennings á bankastarfsemi og fasteignasala?

Alveg með sama hætti mætti fjalla um lausafjáreignir og hlutafélög á vegum bankanna.

Umræðan um lokað ferli eignasölu bankanna verður að halda áfram - því sem næst öruggt er að þar sem spillingu verður við komið, þar notfæra Íslendingar sér tækifærið.

13 ummæli:

Stefán Pálsson sagði...

Humm... í gagnrýni á þessa frétt Sigrúnar hefur komið fram að a.m.k. tvær þessara þriggja eigna VORU auglýstar á netinu (eignirnar sem Skúli Helgason og bróðir Björns Vals keyptu). Veit ekki hvernig þessu var háttað með hús Sigríðar Önnu.

Þetta var því opið söluferli smkv. þinni skilgreiningu.

Nafnlaus sagði...

Alveg rétt hjá Stefáni Pálssyni.
Héðan í frá er því firra að bjóða hærra en 70% af fasteignamati í íbúðir hér á landi og 30% í atvinnuhúsnæði. Markaðurinn og bankastofnanir hafa talað.

Þetta er góð þróun.


Björn I

Nafnlaus sagði...

ég hef nokkrum sinnum keypt íbúð í opnu söluferli. Síðast 2002. Aldrei var þó um að ræða að maður skilaði tilboði í lokuðu umslagi.
Var það svindl?

Einar Karl Friðriksson sagði...

"Opið söluferli er þegar eign er AUGLÝST til sölu, þá er tekið á móti TILBOÐUM í lokuðu umslagi, og þau OPNUÐ á sama tíma í sama rými að VIÐSTÖDDUM þeim er þessa óska. Er það kannski OF opið?"

Það er ekki "of opið" en líkast til alltof tímafrekt og óskilvirkt. Bankarnir eru með heila hrúgu af eignum og það myndi lítið seljast ef ætti að setja þær allar í tímasett hátíðleg útboð, eins og þú leggur til. Auk þess hætta á að þá fyrst væri verið að búa til aðstæður þar sem lítill hópur manna, sem gæti fylgst vel með öllum slíkum útboðstilkynningum og brugðist hratt við, væri að kaupa upp slíkar eignir á en lægra verði, en í hefðbundinni, almennri opinni sölu.
En ég er sammála þér að auðvitað eru þetta varasamar aðstæður þar sem klíkuskapur getur tekið völd og mikilvægt að verklag banka sé skýrt og gagnsætt.

Nafnlaus sagði...

það er ekkert nýtt að íbúðir seljist langt undir fasteignamati, á ísafirði hafa fasteignir selst í fleiri, fleiri ár langt undir fasteignamati. Ástandið á hofuðborgarsvæðinu er nú bara svoleiðis að það dettur engum í hug að bjóða hærra en sem nemur 70% af fasteignamati. Fasteignamatið er nefnilega kolvitlaust þarna suður frá.
Söluferli á húsum í eigu bankans er nákvæmlega það sama og verið hefur undanfarin ár.
Gott mál að láta bankana vita af því að fylgst er með þeim.

Rögnvaldur

Unknown sagði...

Kannski rétt að benda síðueiganda á að a.m.k. eignin sem Skúli keypti var auglýst í fasteignablaði Moggans. Og hann greiddi um 3 milljónir yfir uppsett verð þar sem að fleiri tilboð voru í eignina. Sbr. þennan bút út tilkynningu frá Skúla:
"En aftur að staðreyndum málsins. Síðsumars gerðum við tilboð í fasteign á Gnitanesi sem auglýst var í fasteignaauglýsingum Morgunblaðsins. Margir skoðuðu eignina og fleiri tilboð bárust og þurftum við á endanum að borga 3 milljónir króna yfir ásettu verði. Þess ber að geta að eignin var í því ástandi að gera þurfti á henni verulegar endurbætur, því hún var ótrúlega illa farin að innan miðað við ytra útlit"

Nafnlaus sagði...

Þetta beinir líka athyglinni að öðru atriði, en það er fölsun á fasteignamati til að halda uppi gjaldstofni fyrir sveitarfélögin. Nær væri og réttara að hafa fasteignamatið rétt og álagningarprósentuna hærri og meiri sveigjanleika fyrir sveitarfélögin. Kunningi minn sagði mér frá fasteignamatshækkun í þorpi sem heitir Hólmavík í fyrra, ansi rösklegri. Þar hefur ekki selst eign í frjálsri sölu í manna minnum. Sú hækkun var eingöngu til að laga tekjuhlið sveitarfélagsins.

Nafnlaus sagði...

Vá... þú veist greinilega ekkert hvað þú ert að tala um og hefur örugglega aldrei farið í gegnum eðlilegt söluferli.

Þú segir:
"Opið söluferli er þegar eign er AUGLÝST til sölu, þá er tekið á móti TILBOÐUM í lokuðu umslagi, og þau OPNUÐ á sama tíma í sama rými að VIÐSTÖDDUM þeim er þessa óska. Er það kannski OF opið?"

Er ekki allt í lagi með þig?

Það eru hundruðir eigna sem eru að koma inn á markaðinn aftur, markað sem er hruninn, og fáir eiga peninga til að kaupa.

Opið söluferli er að eignir bankanna eru settar á sölu á fasteignasölu og auglýstar þar til sölu (ekki seldar áður) og síðan sér markaðurinn og kaupgeta Íslendinga í dag um restina.

Húsnæðisverð á Íslandi er að fara aftur niður í það sem það var við einkavæðingu bankanna, allavega á stórhöfuðborgarsvæðinu.

Stærstu eignirnar hafa þegar lækkað um 35-50% eftir eignabóluna.

Það getur ENGINN haldið markaðnum uppi lengur og menn verða sætta sig við að hafa keypt á vitlausu verði áður í gervigóðæri.

Afleiðingarnar af Davíðshruninu eru rétt að byrja koma fram.

Kaupgeta fólks hefur dregist saman vegna stöðu krónunnar, laun fara lækkandi og atvinnuleysi eykst enda engar framkvæmdir í gangi.

Allt eru þetta þættir sem þrýsta fasteingaverði niður á "eðlilegt" plan þegar of allt of mikið hefur verið byggt, bólan sprungin og laun duga ekki fyrir útgjöldum.

Það er vissulega full ástæða til þess að gæta vel að sölu á þessum eignum bankanna, mjög vel, en fólk verður bara átta sig á því að það er algjörlega ný staða á markaðnum eftir hrun.

Sigurður

Nafnlaus sagði...

Þetta er ótrúlega vitlaus grein!

Nokkrar ástæður fyrir því að hrun verður á fasteignamarkaðnum:

1.
Það eru hundruðir fjölbýlishúsa, rað-parhúsa og einbýlishús sem standa auð á stórhöfuðborgarsvæðinu, óseldar eignir, einnig á Suðurlandi. Sumt er tilbúið annað er hálfklárð.

2.
17000 manns ganga nú um atvinnulausir og þeim fjölgar um 40 á dag!

3.
Íbúðaverð á stórhöfuðborgarsvæðum hefur hækkað um meira en 100% á 10 árum.

4.
Innfluttar vörur hækka um tugi prósenta vegna lágs gengis krónunnar

5.
Enginn getur tekið lán vegna þess hversu óhagkvæmt það er. Engin viðskipti hafa verið í gangi

6.
Laun og kaupmáttur almennings er hruninn líka. Fólk hefur því ekki sömu tekjur og áður, kostnaður er mun meiri og það stendur ekki undir afborgunum af lánum (þó í krónum sé)


Þetta eru bara nokkrar ástæður fyrir því að fólk á eftir að sjá verð á fasteignum fara miklu neðar. Kaup-og greiðslugeta fólks ræður því.

Einar sagði...

Stefán Pálsson: Ég var ekki að verja það að Sigrún linkaði "spillingu" við framafólk á varaverðan hátt. Vil alls ekki blanda því saman.

Björn I.: Er ekki að tala um hvað er sanngjarnt verð á fasteignum. Heldur hver ákveður, hvað er sanngjarnt? Hefði sjálfur talið að bankarnir ættu að fara hægar í að selja eignir.

Nafnlaus: Auðvitað kann að vera að enginn hafi nokkurn tíma svindlað. Enda hafa fasteignasalar og bankamenn afar traustan stimpil á sér núna, eða hvað? Er að tala um þá spillingu sem gæti verið fyrir hendi - þrátt fyrir að ekkert áþreifanlegt hafi ég fyrir mér í því.

Einar Karl: Tímafrekt og óskilvirkt. Já ég get tekið undir það.

Magnús: Hvað er uppsett verð? Er það markaðsverð? Var ekkert að ræða um einhvern Skúla, væntanlega Helgason.

Nafnlaus síðasti: Get ekki tekið undir allt sem þú segir. Alls ekki fyrstu fullyrðinguna á þínum vegum. Ræði einfaldlega nokkra punkta hér, sem geta orkað tvímælis þegar heiðarleiki er ekki annars vegar. Um hrun fasteignamarkaðarins var ég ekki að ræða sérstaklega - þar nefnir þú nokkrar staðreyndir sem flestir sjá í hendi sér að eru réttar.

Nafnlaus sagði...

Einar

Hugsaðu málið betur varðandi fyrstu atriðið sem ég nefndi.

Fólk er að flýja úr landi og skila lyklum að bæði íbúðunum sem það hélt það ætti eitthvað í en átti í raun aldrei heldur leigði af fjármálastofnunum.

Þú þarf heldur ekkert að hafa orð mín fyrir því að út um allt standi auðar blokkir, par-og raðhús, sumt klárt og annað ekki.

Skelltu þér í bæinn og farðu á rúntinn og þá sérðu þetta með eigin augum.

Lestu svo þetta hér:
http://visir.is/article/20100119/VIDSKIPTI06/162709330

Og þetta hér:
http://www.fmr.is/Markadurinn/Markadsfrettir/Frett/~/NewsID/3985

Það hjálpar til að nenna kynna sér málin áður en maður fer hoppar á paranoiu vagninn.

Einar sagði...

Mr. Nafnlaus þú segir:

"hugsaðu málið betur varðandi fyrsta atriðið sem ég nefni."

:) fyrsta fullyrðingin þín var: "Þetta er ótrúlega vitlaus grein."

Ekki til í að hugsa það nánar :) En tek undir að hundruðir ef ekki þúsundir íbúða standa tómar.

Þó svo Ísland hafi unnið Dani!

mbk
Einar

Nafnlaus sagði...

Þetta eru dæmigerð vinnubrögð fyrir Sigrúnu. Hún réðist bara á fólk sem hlustað er á þegar það ver sig í þetta skiptið...
Dude

Króna/EURO