þriðjudagur, 18. desember 2007

Upprunalegi tilgangurinn?

Hver var upprunalegi tilgangur Landsvirkjunar?
Jú, Akureyri, Reykjavík og Ríkið lögðu Landsvirkjun til hlutafé í formi virkjana. Tilgangurinn var að útvega íbúum og fyrirtækjum landsins orku á hagstæðu verði. Þannig átti að nýta auðlindir Íslands.
Nú hefur fyrirtækið gengið ansi langt í þessum efnum, og sjá stjórnendur þess fram á rólegri tíma. Já og hvað á þá að gera? Þegar að fyrirtækið ætti loksins að fara að skila almennilegum arði í ríkiskassann? Þá segja þessir herramenn í LV og stjórnarráðinu: "Förum í útrás svo verkfræðingar okkar og aðrir sérfræðingar hafi eitthvað að gera í framtíðinni!"
Þetta er arfavitlaust sjónarmið. Þegar að fjármagn borgarana er um að ræða, skal umgangast fjármagnið með varúð og virðingu. Tilgangur Landsvirkjunar var ekki að sjá verkfræðingum fyrir atvinnu, heldur þjóðinni fyrir orku. Það er lykilatriði í málinu. Sé þekking verkfræðingana svona ótrúleg, þá mega þeir fara að vinna hjá Geysi Green eða REI - þeir ættu að minnsta kosti ekki að vera í vandræðum með atvinnu. Sé "verkefnaskortur" framundan hjá Landsvirkjun, þá á fyrirtækið að sjálfsögðu að fækka starfsfólki. Ekki að fara í útrás í þriðja heiminum. Það er skömm að þessum hugmyndum sjálfstæðismanna.
Íslenska Ríkið á ekki að vera í sandkassaleik með fjármuni þegna sinna. - Eigenda sinna. Farið varlega með fyrirtæki sem byggir afkomu sína á þjóðarauðlindum Íslands. Lækkið skatta fremur en að fara í hjartnæm verkefni í þriðja heiminum.
Utan þessa alls hefur Landsvirkjun tekið eignarnámi ýmis fallvötn landsins, til að virkja í þágu landsmanna. Hvers vegna í ósköpunum ætti Landsvirkjun að framselja eignarnámið með einkavæðingu? Gísli Marteinn sagði í kvöldfréttum að það ætti að skapa "réttu" stemminguna þannig að hægt sé að einkavæða Landsvirkjun. BULL. BULL. BULL. Stundum skapast "rétt" stemming meðal knattspyrnubulla til ofbeldis. Stundum skapast "rétt" stemming unglinga til skemmdarverka. Vonandi skapast aldrei "rétt" stemming á alþingi til að gefa þjóðarauðlindir.
Nú þegar framkvæmdum Landsvirkjunar er lokið í bili, eiga stjórnendur að snúa sér að því sem önnur fyrirtæki gera, að reka fyrirtækið á sem hagkvæmastan hátt. Eigi Landsvirkjun góðar virkjanir er það ekki "snilld" sérfræðinga þeirra að þakka, heldur frábærri auðlind.
Að lokum:
Þegar að Hallgrímskirkja var kláruð, fór Þjóðkirkjan ekki í útrás þar sem búið var að byggja allar kirkjur á Íslandi í bili.

Engin ummæli:

Króna/EURO