Það hefur verið merkilegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um mál Eimskipafélagsins undanfarna daga og vikur. Fyrrverandi stjórnarformaður, Magnús Þorsteinsson, hefur verið málaður upp sem skratti á vegg ásamt fyrrverandi forstjóra. Það virðist vera sem svo að óformleg skotleyfi séu gefin á menn þegar hallar undan fæti. Sambærilegt dæmi er þegar fjaraði undan Hannesi Smárasyni, þá breyttust fjárfestingar hans á nokkrum nóttum úr því að verða hrein og klár djörfung og dugur yfir í flónsku. Þegar hætti að fiskast var honum hent fyrir borð af skipsfélögum - án björgunarvestis. Fyrrverandi viðskiptafélagar Hannesar földu sig á bakvið nýjan og frelsandi kaptein. Höfðu þeir aldrei neitt að segja?
Nú er máluð upp áþekk mynd af Magga Þorsteins og Baldri Guðnasyni sem báðir stóðu í brúnni hjá Eimskip. Skyndilega var sem aðeins þeir tveir - eða bara annar þeirra hafi verið haldinn forheimsku í fjárfestingum og viðskiptum. Ekkert BRAVÓ fyrir þeim neitt meir. Meðan að daninn er ligeglad og talar í rólegheitum um Hróarskeldubanka og Bretar spjalla um XL Leisure sem tákn um vandræði flugrekstrar um allan heim. Þá hrópum við Íslendingar ÚLFUR, ÚLFUR - kötturinn segir ekki ég. - og það hlakkar í íslenskum blönkum verðtryggingarþjökuðum blaðamönnum sem vilja finna sökudólga og hengja þá og kasta í þeim tómötum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli