mánudagur, 22. september 2008

Silfrið

Umsókn landeigenda í Reykjahlíð um nýja 50 megawatta virkjun á Bjarnaflagssvæðinu er eitthvert áhugaverðasta mál hvað varðar nýtingu á auðlindum landsins sem upp hefur komið í langan tíma. Landeigendur í Reykjahlíð hafa sótt um rannsóknarleyfi og einkarétt á nýtingarrétti orkunnar í landareigninni. Undir landareigninni er jarðhitageymir sem Landsvirkjun vill nýta fyrir 90 megawatta virkjun úr sama jarðhitageymi.

Þarna er komið upp fróðlegt fordæmisgefandi mál. Hingað til hafa bændur haft réttindi til að nýta gæði innan eigin landareignar. Þeir hafa meðal annars fengið leyfi til bygginga smávirkjana á landareignum sínum, þannig hafa þeir beislað þá orku sem verður til á þeirra landareign. Össuri Skarphéðinssyni iðnarráðherra lýst ekkert á þessar fyrirætlanir. Það gefur augaleið að fyrirætlanir landeigendana eru stærri en áður hefur þekkst. Í prinsippinu eru þær þó hinar sömu og margra annarra landeigenda, að nýta gæði landareignarinnar eins vel og þess er kostur. Ráðherra gengur svo langt að kalla fyrirætlanir landeigendanna rányrkju gagnvart jarðhitanum. Hann nefnir það að Landsvirkjun hyggist vinna 90 megawött úr sama geymi. Hvor aðilinn er þá með fyrirætlanir um rányrkju? Það virðist ekki alveg augljóst.

Landsvirkjun, sem suma Sjálfstæðismenn dreymir um að einkavæða einn daginn, hefur virkjað helstu vatnsföll landsins. Fyrirtækið ásælist orku hvar sem hana er að finna. Fyrir liggur að fyrirtækið vill vinna orku á mörgum stöðum á landinu. Alls staðar inn á landareignum landeigenda, fólksins í landinu. Forkálfar Landsvirkjunar virðast telja að þeir hafi fundið upp frábæra viðskiptahugmynd, að beisla orku. Þessi viðskiptahugmynd er hins vegar ævaforn og á allra vitorði, þess vegna kallast þetta auðlind. Það liggur í orðsins hljóðan: Það er uppspretta auðs.
Til að beisla orkuna hér á landi þarf aðeins eitt, annaðhvort vatnsfall eða jarðvarma. Hvorugt af þessu hefur Landsvirkjun. Hins vegar eiga landeigendur þessa orku. Hingað til hefur Landsvirkjun farið rányrkju um landið, og stundað stórfellda eignaupptöku á vatnsréttindum bænda. Mál Kárahnjúkavirkjunar er ágætis dæmi. Þar tók virkjunina einn mánuð að framleiða rafmagn fyrir þeirri upphæð sem Landsvirkjun er tilbúin til að greiða bændum í bætur fyrir vatnsréttindin.

Eignarrétturinn er eitt mikilvægasta ákvæði stjórnarskrár Íslands. Í stjórnarskránni segir meðal annars: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Að taka sér eign og greiða ekki fullt verð, og hafa svo af henni tekjur kallast í daglegu máli arðrán. Við Íslendingar þurfum að endurskoða frá grunni hvað er almenningsþörf, og hvað er fullt verð. Stöndum vörð um eignaréttinn, látum ekki ríkisstjórnina og rányrkjufyrirtæki hennar vaða yfir réttindi borgarana í krafti heilagrar réttlætingar.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Líklega kúka bæði Egill Helga og Hallgrímur Þorsteinsson upp á bak þegar þeir lesa fyrirsögnina þína... :)

Nafnlaus sagði...

Mig langar að benda á eitt í þessari eignaréttaumræðu. Gildir hún einungis um gróðann? Eigi ég sem landeigandi glóandi kviku undir mínu landi þyrfti ég einnig að greiða skaðabætur vegna eyðileggingar sem "mín" kvika gæti ollið?

Persónulega finst mér útí hött að landeigandi eigi jarðhita. Hitt er annað mál og sjáfsagt að hann hafi einhvern afnotarétt umfram aðra. En að tala um eign er fráleitt. Þeir sem tala þannig verða þá líka að vera tilbúnir að borga brúsa valdi þeirra eign öðrum tjóni.

Einar sagði...

Áhugaverð pæling. Í grunninn snýst umræðan um rétt til að nýta landsins gæði, og þá sína eigin landareign sé maður landeigandi. Ég sé ekki að hártoganir um skaðabótarétt breyti í sjálfu sér neinu um málið - málið snýst um nýtingarrétt og eignarétt og mun halda áfram að snúast um þau atriði.

Nafnlaus sagði...

en hver á vindinn sem fýkur um mitt land? Ég??

Þessi heilagi eignarréttur er bara rugl. Það er reginmunur á hvort ég eigi eitthvað eða hafi heimild til að nýta, og þá að vissu marki.

Nafnlaus sagði...

Einar er skemmtilegur og ég les hann. Hins vegar er það afleit hugmynd að einstaklingar geti átt vatnið, orkuna, fiskinn og loftið. Þetta á að vera sameign þjóðarinnar. Það er í góðu lagi að borga þokkalegar skaðabætur fyrir upptöku lands og vissulega eru núverandi bætur smánarlegar. Það er algjörlega "klokke klart" að eignarréttur yfir vatni og jarðhita má aldrei verða eign fárra útvaldra. Það sjá það allir að undanfarin ár hafa menn í auknum mæli fjárfest í landi til þess að komast yfir þessar auðlindir - vatnalögin er síðasta hindrunin. Verðum að vera vakandi.

Nafnlaus sagði...

Sæll Einar.

Mjög góður pistill og ég lýsi mig fullkomlega sammála inntaki hans. Það er ekki deilt um vatnsréttindi - þau eru óvéfengjanleg lögum samkvæmt - enda afglapaháttur að vera með eitthvert hjal um að vatnsföll eigi að vera sameign þjóðarinnar. Mér er sem ég sæi svipinn á þeim sem hér hafa lagt orð í belg ef þeir hefðu keypt sér sumarbústaðaland þar sem um rennur falleg á. Ofar er ríkisjörð og þeir bara skrúfa fyrir ánna (vegna meints þjóðarhags)og menn hafa ekkert um það að segja. Já, það tók þá Landsvirkjunarmenn mánuð að framleiða rafmagn fyrir þeirri upphæð sem þeir vilja greiða landeigendum (þjóðinni að 70%) fyrir Jöklu!!! Þetta mál fer fljótlega fyrir dómstóla og ég vona að þeir hlusti ekki á þá nytsömu sakleysingja sem hjala um að allir eigi vatnið. Og standa þá væntanlega í þeirri meiningu að Landsvirkjun séu allir. Það stefnir í rán aldarinnar og því miður er maður ekki of bjartsýnn á að sanngjörn niðurstaða verði fyrir íslenskum dómstólum. Ekki nálægt því. Athugið, Árni Matt hefur fyrir hönd þjóðarinnar, eigenda 70% árinnar, fallist á hina snautlegu upphæð sem Landsvirkjun er reiðubúin að greiða fyrir Jöklu. Þetta er náttúrlega alveg bilað.

Kveðja,
Jakob

Einar sagði...

Nafnlaus spyr um hver eigi vindinn. Það er að sjálfsögðu erfitt að færa rök fyrir því að einhver eigi vind, eða eigi logn - sem geta verið meiri verðmæti í. Hverjum ætti þó að vera frjálst að nýta þá vindorku sem um hans land fer. Vindur/logn eru því hlunnindi rétt eins og gott æðavarp.

Ég þakka Grími athugasemdina. Mitt point er meðal annars að það er synd að Landsvirkjun ástundi eignanám, þegar að baki liggur áhugi um einkavæðingu fyrirtækisins. Á meðan svo er er verið að tala um þjóðnýtingu sem verður síðar framseld til einkaðila í formi einkavæðingar. Það er mikill tvískinnungur í því að þjóðnýta annars vegar og vilja einkavæða hins vegar.

Það sem landeigendur í Bjarnarflagi standa meðal annars frammi fyrir er að Landsvirkjun virðist hafa ótakmarkað leyfi til að rannsaka og virkja á þeirra landi í krafti gamalla samninga. Landsvirkjun getur því virkjað á þeirra landi óháð magni um aldur og ævi. Nú vilja landeigendurnir láta á það reyna hvort vera skyldi að þeir fái að virkja í eigin landi og fá máski nokkrar krónur fyrir. Fréttaskýringar af málinu virðast þó ekki útskýra þennan part málsins að neinu marki. Um er að ræða lögfræðilegt mál, um lögbundinn réttindi.

Nafnlaus sagði...

Þetta eru mjög áhugaverðar pælinar. Þú talar í síðasta kommenti um gamla samninga. Veistu hve gamlir þeir eru?

Er þetta ekki bara sama málið og t.d. með virkjun Þjórsár? Þar ætlar Landsvirkjun að virkja í krafti gamalla samninga.

Og hve gamlir þurfa samningar að verða til að ekki þurfi lengur að fara eftir þeim?

Einar sagði...

Ég býst við því að samningar um Bjarnarflag séu allt frá því Kröfluvirkjun var byggð. Samkvæmt mínum skilningi hafa þinglýstir samningar og kvaðir óendanlegan líftíma.

Annars ættlu lögmenn að þekkja það betur.

Króna/EURO