föstudagur, 31. október 2008

Ritstjórastóllinn kvaddur

Það tíðkast meðal þýskra blaðamanna að skrifa eins og eina frétt sem er uppspuni frá rótum þegar þeir færa sig um set í starfi. Hér er kveð ég Austurgluggann með þýska hefð í huga.

Var að ljúka við að taka föggur mínar af skrifborði Austurgluggans. Síðasti leiðari minn í bili birtist í gær. Langar til að birta hann hér, að sjálfsögðu með mínu leyfi:

Ég bið að heilsa

Nú skrifa ég síðasta leiðarann fyrir Austurgluggann að sinni.

Fljótlega eftir að ég tók við starfi ritstjóra og eina fasta blaðamanns Austurgluggans komst ég í raun um að margir Austfirðingar hafa í raun ótrúlegan áhuga á útgáfu héraðsfréttablaðsins. Mestur áhugi beinist að því hvað skal standa og um hvað er fjallað í héraðsfréttablaðinu. Kröfurnar eru talsverðar, og að sumu leyti óaðgengilegar fyrir blaðamenn. Flestir lesendur blaðsins hafa stutt þá trú mína að fréttaumfjöllun skuli vera áleitinn og aðgangshörð gagnvart valdhöfum hverju sinni. Sumir lesendur blaðsins hafa hins vegar í gegnum tíðina valið að persónugera fréttaflutning blaðsins. Fréttaskrifarinn hljóti að byggja á persónulegri óvild og hatrammri pólitík við skrif sín. Þessu hafa margir ágætis blaðamenn kynnst í gegnum tíðina. Nokkrir fínustu blaðamenn sem starfað hafa við héraðsfréttablöð á Austurlandi, og starfa nú á stærri fjölmiðlum, hafa fundið smjörþefinn og kannski allan þefinn af slíkri gagnrýni.

Upplýsandi fréttaflutningur

Stór hluti austfirskra valdhafa og stjórnenda hafa skýra skoðun hvað varðar útgáfu og efni héraðsfréttablaða. Þeim finnst að blaðið skuli sinna almannatengslum fyrir Austurland. Leyfa Austurlandi að líta sem best út og vera kynning á fjórðungnum. Hlutverk sem gagnast Austurlandi mjög skammt, því hlutfallslega mjög fáir utan fjórðungs líta blaðið augum. Velji héraðsfréttablað að fara leið almannatengsla í skrifum sínum, þá væri ef til vill ráð að dreifa blaðinu alls staðar annars staðar en á Austurlandi. Svo íbúar Íslands sjái hversu frábær við erum. Mín skoðun er hins vegar sú að okkar héraðsfréttablað skuli vera vettvangur málefna okkar svæðis, ekki umfjöllun um það sem við viljum að aðrir haldi eða hugsi um okkur.

Svæðisbundinn fréttamiðill hefur ákveðið hlutverk. Hlutverkið ber að taka alvarlega. Að stunda gagnrýninn og upplýsandi fréttaflutning af sveitarstjórnarmálum, landsmálum, félögum, fyrirtækjum, menningu, mönnum og málefnum. Ræki fréttamiðill ekki slíkt hlutverk er hann í raun ónýtur og ónothæfur lesendum sínum. Fréttamiðill sem birtir einungis jákvæð valin skrif og það sem sumir kjósa að kalla uppbyggjandi umfjöllun um fyrirtæki og valdhafa rækir ekki sitt hlutverk sem fjórða valdið. Fjórða valdið skal ekki aðeins vera til í bíómyndum eða í Reykjavík heldur einnig á okkar svæði. Það er mín skoðun. Skrif sem einungis byggjast á því að fróa okkur Austfirðingum á hversu frábær við erum geta varla talist ábyrg. Þannig skrif binda okkur í sama skóinn til framtíðar. Ábyrgðin felst í því að benda á það sem betur má fara eða gæti talist gagnrýnivert, og að veita hópum og einstaklingum pláss fyrir skoðanir sýnar og hugsjónir. Hafi fjölmiðillinn eða viðmælendur rangt fyrir sér, þá er enginn skaði skeður. Því umræðan leiðir málin til lykta. Það er hættulegt þegar stjórnmálahópar eða fyrirtæki komast að þeirri niðurstöðu að ef neikvæð umfjöllun fer fram um ákveðið málefni, þá stafi þau af persónulegri óvild eða skítseyðishætti. Austurglugginn hefur undanfarið ár leitast við að hafa rétt eftir viðmælendum sínum, og leyfa lesendum að dæma um hvort þeir hafi rangt eða rétt fyrir sér.

Eftirlitshlutverkinu hefur Austurglugginn reynt að sinna af bestu getu. Sérstaklega gagnvart tveimur stærri sveitarfélögunum á Austurlandi, Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði. Þó auðvitað hefði mátt í mörgum málum ganga lengra eða gera betur.

Austfirskur auglýsingamarkaður

Því miður er staðreynd að héraðsfréttablaðið hefur átt undir högg að sækja lengi vel. Tekjugrunnur þess er ekki stór, enda markaðssvæðið lítið. Traustar tekjur byggjast því á traustum lesendum og traustum auglýsendum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður að mörg fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi mættu rækja samfélagslegt hlutverk sitt betur. Því miður velja þessar stofnanir að mjög litlu leyti að auglýsa í héraðsfréttablaðinu, og kjósa að auglýsa í sérstökum auglýsingapésa sem inniheldur sjónvarpsdagskránna á nokkrum síðum, auk auglýsinga frá fyrirtækjum og stofnunum sem telja tugi síðna. Það er slæmt þegar auglýsingabæklingur er orðinn sá miðill sem Austfirðingar byggja á sem aðalfréttamiðil. Auglýsingar opinberra aðila eru alvöru lesefni og nauðsynlegt. Því er slæmt að hafa þær auglýsingar að miklu leyti ekki í héraðsfréttablaðinu eins og tíðkast hefur með önnur héraðsfréttablöð á Íslandi. Þessa stöðu á austfirskum auglýsingamarkaði má skýra með fleiri sjónarmiðum – smæð markaðarins, áunna hefð og verð.

Austfirðingar af lífi og sál

Sem ungur maður sem elskar Austurland af lífi og sál hef ég á margan hátt verið duglegur við að tala máli Austfirðinga í mörgum pólitískum málum. Fjallað um frábært framtak einstaklinga í sjálfboðavinnu á vegum félagasamtaka á Austurlandi og marga frábæra viðburði. Þannig hefur meirihluti umfjöllunar undir minni stjórn fjallað um menningu okkar á jákvæðan hátt. Þar sem oft á tíðum er lyft grettistaki, án þess að einstaklingarnir vonist eftir því að fá nokkuð í staðinn persónulega. Þessum drifkrafti hrífst ég óendanlega mikið af, og er þakklátur fyrir allar þær frábæru konur og karla sem seint þreytast við að sinna hugsjónastarfi í heimabyggð. Það er arfleifð sem Austfirðingar byggja á. Þessu fólki sýni ég djúpa og sanna virðingu. Í mínu starfi hef ég kynnst mörgu af þessu dugmikla og kröftuga fólki. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þau ánægjulegu gefandi kynni og stundir sem ég hef átt með því fólki á mínum tíma á blaðinu.

Við starfi mínu á Austurglugganum tekur reyndur blaðamaður, Steinunn Ásmundsdóttir, sem starfaði um árabil á Morgunblaðinu. Ég veit að hún mun styrkja blaðið og leyfa því að vaxa og dafna.

Á blaðsíðunni hér til hliðar birti ég nokkrar ljósmyndir sem mér þykir vænt um eða höfða til mín einhverra hluta vegna.

Ég bið að heilsa – góðar stundir.

 

þriðjudagur, 28. október 2008

Gesturinn Einar

Lagði land undir fót. Var gestur í höfuðborg Íslands um stundarsakir. Kom við á nokkrum stöðum.

Var meðal annars gestur á skrifstofu ónefnds fyrirtækis í borginni. Þar kom annar gestur í heimsókn sem starfar hjá fjármálafyrirtæki og lýsti hann raunum sínum. Hann sagði frá því hvernig hann reykspólaði um borgina, þegar fall bankanna varð möguleg staðreynd. Hvernig hann hafði viðkomu í flestum útibúum á höfuðborgarsvæðinu til að taka út reiðufé. Hann náði út megninu af innistæðum sínum, slatta af milljónum. Ég tengdi ekkert sérstaklega við þessa raunasögu, fannst ég vera gestur á plánetunni mars.

Hlustaði á annan mann segja frá því að hann væri að bjóða skipti á Range Rover bifreið sinni á staðinn fyrir dýrari Landcruiser jeppa. Líklega vegna þess að Range Rover bifreiðar hafa umbreyst í gildishlaðið tákn skuldsetts ríkidæmis. Rétt eins og BMW bifreiðar urðu um stund tákn illa fengins eiturlyfjagróða í kringum árið 2000.

Flaug svo heim á leið allur í keng í Fokkerflugvél þar sem sætin og plássið eru hönnuð fyrir fólk í stærðinni 120-150 sentimetrar. Borgaði aðeins ca. 33.000 krónur fyrir flugfarið fram og tilbaka.

fimmtudagur, 23. október 2008

Fífl og dóni

Í gærkvöldi sagði Geir í rauninni frá því að meðan hann er forsærisráðherra sé enginn á leiðinni úr Seðlabankanum. Ekki á hans vakt. Hann er jú forsætisráðherra, og það er hann sem ræður Seðlabankanum – þetta sagði hann. Það er mikilvæg staðreynd.

Ég veit ekki hvað amma hans Davíðs segir, en amma mín er löngu búin að sjá að það þarf að skipta um bæði forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Þessir menn eru búnir að steypa okkur í glötun, það kenndi amma mín mér.

Ókei, hann Geir beinir þá athyglinni að sjálfum sér. Fínt. Og hvaða skýringar hafði hann:. Honum fannst þetta víst hafa skeð soldið svona ÓVART. Við erum bara svona ÓVART fokked up.

Þegar maðurinn sagði ÓVART langaði mig til að rífa manninn út úr sjónvarpstækinu og taka Egilinn á hann, hrista hann til og öskra á hann: “Þú ert fífl og dóni.” Það er jú FÍFLALEGT að trúa því að hægt sé komast í þessa stöðu óvart, og DÓNALEGT að segja það við okkur.

miðvikudagur, 22. október 2008

Endurminningar blaðburðardrengs

Ég man þegar ég var blaðburðardrengur. Eftir að hafa verið skráður á biðlista í nokkra mánuði fékk starf blaðburðardrengs í “gamla hverfið” á Egilsstöðum. Daginn eftir lá plastpakkaður tuttugu og fimm kílóa pakki á forstofugólfinu heima hjá mér, listi yfir áskrifendur og ein blaðburðartaska. Strax þá fannst ég mér hafa mikilvægar upplýsingar í höndunum. Ég hafði vitneskju um áskrifendafjölda Þjóðviljans, Tímans og Moggans í heilu hverfi. Þetta fannst mér stórmerkilegt.

Eftir nokkra daga var ég farinn að muna áskrifendalistann utan að, og gat farið að skilja hann eftir heima. Þó að jafnmargir í hverfinu væru áskrifendur að Tímanum og Mogganum, þá var langtum mesta þyngdin í Mogganum. Skildi ég ekki fá meira fyrir að bera hann í hús? Hugsaði ég með mér. Þjóðviljinn vóg varla neitt, tók því varla að bera hann út fannst mér. Gerði það þó af skyldurækni. Ég vissi að allir sem voru áskrifendur af Tímanum voru Framsóknarmenn, og mér fannst stórmerkilegt hversu margir slíkir voru samankomnir í einu hverfi á Egilsstöðum. Stuttu síðar komst ég að því að Þjóðviljinn borgaði jafn mikið og Mogginn fyrir blaðburðinn. Jafnmikið fyrir minna, þetta fannst mér góður díll. Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum þegar Þjóðviljinn hætti að koma út.

Blaðburðurinn þótti mér ágætis göngutúr að mestu leyti. Auðvitað komu dagar sem ég hefði frekar viljað leika mér að fótbolta á skólavellinum, en yfirleitt var þetta gaman. Mestar áhyggjur hafði ég af því að verða skakkur í bakinu undan blaðburðartöskunni, hafði horft upp á Eystein nágranna minn verða skakkan í bakinu. Hann var samkeppnisaðili og bar út DV. DV fannst mér ekki góður pappír, dró úr viðskiptunum hjá mér.

Fyrstu mánaðarmótin lá svo á gólfinu hjá mér rukkanahefti frá umboðsmanninum. Hann sagði mér að þegar ég væri búinn að rukka alla áskrifendur og skila peningunum, þá fengi ég útborgað fyrir fyrsta mánuðinn. Þetta fannst mér ágætt plan. Reyndar fannst mér draga úr ágæti þess þegar ég kynntist því af eigin raun hversu erfitt gat verið að rukka fólk. Komdu á morgun var vinsæl setning hjá áskrifendum. Ég á bara ekkert laust blað í heftinu var önnur vinsæl setning. Einn áskrifandinn var mér alltaf erfiðastur, mér fannst í raun ósanngjarnt að útborgunardagur minn ákvarðaðist af greiðslugetu hans. Þess vegna komst ég fljótt að því að best var beita hann þvingunarúrræðum. Já, hann fékk ekki blaðið nema hann borgaði. Þetta tilkynnti ég honum þegar hann hringdi og kvartaði yfir að fá ekki blaðið. Hann greiddi yfirleitt fljótlega eftir að hann hætti að fá blaðið. Eftir á að hyggja var þetta góð innheimtuleið hjá dagblöðunum, að fá hörundsára blaðburðardrengi til að ganga í hús.

Fljótlega átti ég ekki aura minna tal. Fyrir fyrsta mánuðinn fékk ég nærri sex þúsund krónur. Ég hafði aldrei borið ábyrgð á ráðstöfun svo mikilla fjármuna áður. Þess vegna greip ég það fegins hendi þegar ég sá fimmþúsundkrónakerlinguna í fyrsta sinn auglýsa spariskirteini ríkissjóðs. Ég gerðist áskrifandi. Keypti fyrir fimm þúsund kall í hverjum mánuði í einhver ár. Kynnti mér þá fyrst um hvað verðtrygging snýst. Ég keypti meðal annars minn fyrsta bíl fyrir spariskirteini ríkissjóðs. Þegar ég var búinn að klessukeyra hann, þá keypti ég mér annan bíl fyrir spariskirteini ríkissjóðs. Þegar ég reiddi fram borgun fyrir hann hugsaði ég þakklátur til blaðburðaráranna.

Helstu hlunnindi blaðburðardrengsins voru að lesa fréttir dagsins á undan öllum öðrum í bænum. Ég lá forstofugólfinu og fletti Mogganum og Tímanum. Ég man að ég fletti báðum blöðunum alltaf afturábak. Mogginn var með mun betri íþróttafréttir, en margt í Tímanum fannst mér skemmtilegra. Mér datt sjaldan í hug að fletta Þjóðviljanum. 

Svo gekk ég um göturnar með blaðburðatöskuna á öxlinni og það hlakkaði í mér að vera búinn að lesa fréttirnar á undan öðrum. Af þeim sökum fannst mér eins og ég vissi ívið meira en aðrir.

þriðjudagur, 21. október 2008

Orðsending?

Til ríkisstjórnar Íslands:

Ekki hafa áhyggjur af því að ófæddu börnin okkar geti ekki greitt skuldirnar sem þið eruð að stofna til. Þau verða af öðru þjóðerni og búsett í öðru landi. Bless.

mánudagur, 20. október 2008

Bjóðum hina kinnina?

Spaugstofan setti upp táknræna mynd af sökkvandi þjóðarskútu síðasta laugardagskvöld. Skopstæling af sökkvandi Titanic var notuð. Icetanic kölluðu þeir sökkvandi dallinn sem við siglum á. Það versta við skopstælinguna er hversu raunsönn hún er.

Það er stutt síðan kaldranalegur raunveruleikinn löðrungaði okkur með falli bankanna. Löðrungarnir munu halda áfram að berast, því við erum í raun og veru gjaldþrota. Þessa dagana vonast stjórnvöld eftir að geta bjargað því sem bjargað verður með tæplega 700 milljarða láni frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Einungis vextirnir af þvílíku láni væru um 25 til 30 milljarðar á ári, utan við afborganir. Það eru ekki nema svona 6 þúsund ársverk. Vitað er að lán með þessari upphæð gæti reddað okkur fyrir horn, ekki miklu meira en það. Önnur lán sem við höfum þegar tekið munu ekki hverfa okkur. Íslenska alþýðan skal borga þennan reikning um ókomin ár.

Þegar þvílíkar staðreyndir slá okkur utan undir er ekki óeðlilegt að reiðast. Jafnvel að verða brjálaður. Flestir vildu sjálfsagt vita hver sló okkur svo harkalega á kinnina. Voru það sofandi stjórnvöld? Voru það eftirlitslausir útrásarpiltar? Var það árangurslaus peningastefna? Var það sjálf heimskreppan? Við í raun vitum það ekki. Við vitum ekki hver barði okkur í kinnina. Er það samt ekki ofureðlilegt, að við viljum eða fáum að vita það?

Þeir stjórnmálamenn og útrásarpiltar sem hafa siglt okkar sökkvandi skipi vilja að við sýnum þolinmæði. Leyfum þeim að sigla skipinu í var. Þeir vilja taka þá ábyrgð. Í raun væri eðlilegt að spyrja okkur leyfis. Treystum við þeirri áhöfn sem nú er í brúnni? Viljum við vera farþegar þessara manna? Svar við þessari spurningu fengist í kosningum innan þriggja mánaða.

Það er rangt hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar að enginn hafi séð þetta fyrir, sem nú hefur komið fyrir íslenska þjóð. Ljóst er að nokkrir stjórnmálamenn og allnokkrir hagfræðingar sáu ástandið fyrir. Menn sem mátu þáverandi ástand ekki rétt, hvers vegna ættu þeir að meta núverandi ástand rétt? Hvers vegna eigum við að treysta þeim? Ætlum við að vera eins og eiginkona sem hleypir ofbeldissjúkum eiginmanni inn á heimili sitt aftur?

Stjórnmálamennirnir sem enn stjórna landinu treysta okkur ekki til að skera úr um hver ber sökina með einföldum kosningum. Þeir vilja skrifa hvítbók sem á að gefa okkur sanna mynd af því sem gerðist. Treystum við þeim til að gera það? Mönnum sem treysta sér ekki í kosningar? Mennirnir sem nú fara á hnjánum um veröldina með óútfyllt skuldabréf frá hinni íslensku þjóð.

Menn sem hafa gefið okkur kjaftshögg, vilja að við bjóðum hina kinnina á móti og gefum þeim jafnvel leyfi til að berja höfði okkar í vegginn um ókomna tíð. Þvílík endemis vitleysa.

laugardagur, 18. október 2008

Sunnudags(h)ljóðið

Góður vinur hringdi. Bað mig að birta hér ljóð sem ég mun hafa gefið út árið 2002, og var eitt af mörgum á ódauðlegum geisladiski :)

Ef að tæknin bregst ekki, eða tæknikunnátta, er hægt að hlusta á ljóðið með því að smella á play í kassanum að neðan. Góðar stundir.


Fall heimskunnar


Sumar vefsíður eru fróðlegri en aðrar. Ef vera skildi að þessi vefsíða verði tekin niður á næstu dögum, munu tvær greinar úr safni hennar varðveitast hér. Nei - þessi síða er ekkert grín - þetta er í alvörunni. Lifandi staðfesting á þeirri bjargföstu trú okkar, að við værum svo déskoti klÁr.



_________



Afsakið mig ef ég er flón, en kapítalismi er hagkerfi byggt á eignarhaldi einstaklinga á framleiðslu og verslun. Frjáls markaður sem byggist á framboði og eftirspurn.





Það skyldi þó ekki vera að við Íslendingar höfum gleymt einni breytu. Þeirri mikilvægustu í kapítalísku hagkerfi, þ.e. framleiðslunni. Að framleiða fyrir meiri verðmæti heldur en við notum.


Getur þannig verið að kapítalískt hagkerfi hafi ekki verið til á Íslandi nú hin síðari ár, heldur eitthvað sem við sísvona trúðum að væri kapítalískt hagkerfi. Að minnsta kosti er öruggt að við lifðum í blekkingu. Við framleiddum minna en við notuðum.



Peningar eru ávísun á verðmæti, þ.e. framleiðslu. Alla þá peninga sem við fáum að láni þurfum við að framleiða fyrir síðar, til að greiða tilbaka. Þegar við tökum lán ætti það samkvæmt þessu að vera til að auka framleiðslu. Þegar aukning á framleiðslu er ekki í takti við aukningu lántökunnar, erum við þá ekki í djúpum skít? Er það sem gerðist? Er þetta ekki einfalt reikningsdæmi?


Vorum við að upplifa fall heimskunnar? Frekar en fall kapítalismans?

föstudagur, 17. október 2008

Leirburður dagsins

Ísland er ríkast í heimi

Von til að Hannes því gleymi

Meðan Kapítalisminn engist á hnjánum

og peningar vaxa ekki á trjánum


Á borð til sín kallar Sannleiksnefndin,

sannleikann sjálfan í kössum.

Á botninum bíður svo útrásarhefndin,

sjálfskipuð skeinir þá rössum?


Í hvítbók þá sannleikann krotar

Og íbygginn strokleðrið notar

Á endanum meirihlutans á valdi

Hver íslensku þjóðina kvaldi?


fimmtudagur, 16. október 2008

Viðskiptahugmynd?

Venjulegar bílatryggingar bæta ekki það tjón sem yfirskuldsettir bílaeigendur geta orðið fyrir. Verði evruskuldsettur bíleigandi svo óheppinn að bíllinn hans reynist kakan ein liggur fyrir að hann fái andvirði bílsins greitt inn á bílalán sitt. Eftirstöðvarnar verður bíleigandinn að greiða sjálfur. Í sumum tilfellum nokkrar milljónir, stundum nokkur hundruð þúsund.

Er ekki eitthvert tryggingafélag sem sér hag í því að bjóða aukatryggingu sem væri til þess hugsuð að greiða eftirstöðvarnar?

Ég skal vera einn af fyrstu kúnnunum.

miðvikudagur, 15. október 2008

Slökkviliðsstjórinn

Voða smart thinking. Hvenær á að hætta með þessar eldsvoða samlíkingar, þær eru að vera þreyttar.

1. Rannsókn á upptökum eldsvoða er ekki framkvæmd af slökkviliði.

2. Slökkviliðsstjóri sem réttir brennuvörgum eldspýtur og bensín er yfirleitt aldrei traustvekjandi.

3. Þegar ný og stór hverfi byggjast upp eru settir upp brunahanar.

4. Í stórum bruna eru slökkviliðsmenn á frívakt kallaðir út, og slökkviliðum úr nærliggjandi bæjum er tekið fagnandi.

5. Lögreglan handtekur og fangelsar brennuvarga, hvort sem búið er að slökkva eldinn eða ekki.

6. Til að slökkva eld er best að nota vatn eða froðu, yfirleitt er aldrei notað bensín.

7. Slökkvilið á að mæta á staðinn þegar það er kallað út.

8. Slökkvilið horfir ekki á eld í sjónvarpinu, og mætir svo á staðinn.

9. Slökkviliðsmaður sem tékkar ekki á því hvort brennandi hús er mannlaust eða ekki er lélegur slökkviliðsmaður.

10. Slökkviliðsstjórinn tekur ábyrgð á skipulagi, þjálfun, hæfni og viðbragðstíma slökkviliðsins. Og tekur það mjög nærri sér ef þessir hlutir eru ekki í lagi. Aðstoðarslökkvistjóri sem horfir á embættisglöp yfirmannins er meðábyrgur ef hann þegir.

þriðjudagur, 14. október 2008

Kerlingar og kvóti

Fór við annan mann í bílferð síðastliðin sunnudag. Þórshöfn var áfangastaðurinn. Fengum okkur pylsu í sjoppunni. Sinntum erindinu og keyrðum heim á leið. Á bakaleiðinni vildi samferðamaður minn endilega skjóta gæsir, en þær virtust flestar hafa flúið land - og eru eflaust lentar á umráðasvæði Gordon Brown.

Komum við á Bakkafirði. Samferðamaður minn krafðist þess að líta við í höfninni, enda fyrrverandi trillusjómaður (kvótasölumaður). Þar komumst við á tal við alvöru íslenska trillusjómenn. Flestir þeirra leigja sér kvóta á 250 kall kílóið.

"Það væri nú betra að borga svona 90 kall á kílóið beint í ríkissjóð." sagði einn þeirra.
"Þeir eiga að leyfa okkur að veiða frjálst núna." sagði annar.
"Vantar bara kerlingar hérna í plássið." sagði sá þriðji.

mánudagur, 13. október 2008

Opinberun stjórnandans

Í gær missti þáttastjórnandi á ríkissjónvarpinu stjórn á tilfinningum sínum. Reiði stjórnandans beindist að ráðalausum holdgervingi hinnar íslensku útrásar. Fyrirfram hefði verið hægt að búast við vel undirbúnu viðtali, þar sem hinn meinti holdgervingur íslenskrar alþýðu hafði nokkra daga til að undirbúa sig undir viðtalið. Hann hafði hins vegar punktað hjá sér nokkrar "staðreyndir" frá Gróu á leyti ásamt nokkrum ágætum og sjálfsögðum spurningum. Fljótlega varð þó ljóst að spyrillinn notaði tækifærið til að ausa úr barmafullum skálum reiði sinnar, og breyttist það sem átti að vera öguð, óhikuð, þjarmandi og vönduð yfirheyrslaútgáfa sjónvarpsviðtals í eitthvað allt annað og miklu minna.

Ég gapti á þáttastjórnandann missa stjórn á sjóðandi heitum og viðkvæmum tilfinningum sínum. Á stund sannleikans kastaði hann fram órökstuddum kjaftasögum, reiðilestri og framíköllum. Svo virtist sem samþjöppuð reiði undanfarinna vikna hafi sprengt þáttastjórnandann og gert hann að stjórnlausu tæki á ögurstundu. Sumar ef velydduðum spurningum stjórnandans misstu því miður marks, því hann kastaði fram þeirri næstu og svo næstu áður en holdgervingur útrásarinnar gat svarað því sem að honum var beint. Þarna virðist sem eitthvert besta tækifæri fjölmiðlamanns hin síðari ár hafi runnið í ræsið glitrandi tárum.

Það sem gat orðið merkilegasta sjónvarpsviðtal þessa árs breyttist í tilfinningalega afhjúpun. Gat á engan hátt túlkast sem upplýsandi, vitsmunalegt, fágað, gott, vandað, skemmtilegt eða skynsamt.

föstudagur, 10. október 2008

Sérfræðingur Íslands gegn Bretum

Í ljósi þessarar færslu hér. 

Þá vil ég stinga upp á að fulltrúi Íslands í samningaviðræðunum við Breta verði þessi maður hér.

Þegar Óli fór á sjóinn

Ég man óborganlega sögu af ónefndum bát á Hornafirði - svona í tilefni af líkingamáli ráðherrana.

Ólafur var ráðinn um borð á lítið fiskiskip sem kokkur. Þegar skipið kom að landi eftir fyrsta túr kallar skipstjórinn á Ólaf, víkur sér að honum, leggur höndina vinalega á öxlina á honum og segir: "Ég held það sé bara best að þú takir pokann þinn Ólafur minn." Ólafur svarar rólegur: "Það er líklega best ég geri það." 
Ólafur tók pokann sinn og hvaddi hress. 20 stundum síðar er Ólafur mættur um borð, hress og farinn að hlakka til. Kemur þá skipstjórinn og segir: "Var ég ekki búinn að biðja þig um að taka pokann þinn." Ólafur bendir á að hann hafi tekið pokann með sér heim. "Ég þvoði meira að segja úr honum. Ég er með allt hreint." Skipstórinn kímdi, og klappaði Ólafi á öxlina, sagði honum að malla eitthvað gott í matinn.
Ólafur var kokkur í heilt sumar. Hann var svo rekinn þegar hann var grunaður um að míga í súpuna. Það sannaðist aldrei á hann. Áhöfnin át óætan mat í heilt sumar.

_______________________________

Annars er ég ekki hissa á að elsku Darling hafi misskilið Árna Matthiessen ef hann hefur talað við breska ráðherrann á svipaðan hátt og íslensku þjóðina:

"Öll él styttir upp um síðir Herra Darling."
"Við erum hérna að reyna að slökkva eldinn Herra Darling."
"Leki er komin að skipinu Herra Darling."
______________________________

Eírkur Bergmann skrifar "Förum í hart". Hann vill fara í hart PR-stríð við Breta. Djöfull væri það fínt fyrir íslenska og ábyrgðarlausa stjórnmálamenn. Fjölmiðlar gætu þá gleymt því sem raunverulega skiptir máli - sem er getuleysi ríkisstjórnar Íslands.

fimmtudagur, 9. október 2008

Líf mitt er á misskilningi byggt

Við lifum í einum stórum misskilningi. Er það kannski misskilningur?

Misskilningur varð þess víst valdandi að bankinn sem ég verslaði við frá því ég var fjögurra ára gamall er ein rjúkandi rúst.

Misskilningur varð þess valdandi að við töldum að Rússar ætluðu að lána okkur skrilljónir. 

Misskilningur Mr. Darling við Dagfinn dýralækni varð til þess að Bretar settu okkur á lista hryðjuverkamanna.

Er ég eitthvað að misskilja?

(Kannski lýsandi dæmi í ljósi stöðunnar)


venlig hilsen.



miðvikudagur, 8. október 2008

Ég vil sjá blóð

Það er ekkert annað hægt en að fíla sig dálítið stjúbbidd. Aldrei áður og aldrei aftur, þannig einhvern veginn er líðanin hjá almúganum. Sauðsvörtum almúganum.

Ég er svona einhvern veginn að bíða eftir að vakna upp, svona eins og þetta hafi verið vondur draumur. Að hér sé ekki allt í hers höndum. En liði mér virkilega betur ef ekkert hefði gerst og Össur Skarphéðinsson væri í Abu Dhabi að stefna að orkuútrás Landsvirkjunar, að Geir H. Haarde sæti inn á kontor í stjórnarráðinu með fæturna uppi á borði, nagandi blýant bíðandi eftir að "rétta stemmingin" myndist til að einkavæða Landsvirkjun, að Ingibjörg Sólrún væri einhvers staðar óuppskorin í Washington að safna atkvæðum??? Kannski liði mér betur, en þó alltaf með það á tilfinningunni að eitthvað væri ekki í lagi.

Sökudólgarnir eru víða, já og þeir verða líklegast leitaðir uppi. Hvenær er akkúrat betri tími en einmitt núna.

- Ég vill sjá blóð í lítratali af öllum blóðflokkum.

- Ég vill sjá Geir H. Haarde með tárin í augunum biðjast afsökunar á að hafa verið sofandi í nokkur ár í stjórnarráðinu.

- Ég vill sjá fullt af bankastjórum rekna - já alla þá sem nú vinna hjá ríkinu. 

- Ég vill sjá dýralækninn í fjármálaráðuneytinu taka til starfa sem héraðsdýralæknir á Langanesi. 

- Ég vill sjá iðnaðarráðherra með naglakul af kulda reyna að veiða sér urriða í soðið í Þingvallavatni. 

- Ég vill sjá dómsmálaráðherra sem óbreyttan lögreglumann í lögreglunni á Suðurnesjum. 

- Ég vill sjá Björgvin G. Sigurðsson gráta í fangi móður sinnar. 

- Ég vill sjá Guðlaug Þór hafa það ævistarf að reyna að bjarga körfuknattleiksdeild Fjölnis frá gjaldþroti. 

- Ég vill sjá Ingibjörgu Sólrúnu auglýsa WC hreinsi í sjónvarpinu út árið 2024. 

- Ég vill sjá Þórunni Sveinbjarnardóttir á lyftara hjá Alcoa Fjarðaáli. 

- Ég myndi þola að sjá Jóhönnu Sigurðardóttir fara á eftirlaun.

- Ég veit að Einar K. Guðfinnsson gæti fengið pláss á kvótalausum bát gerðum útfrá Stöðvarfirði. 

- Jón Ásgeir sæi ég fyrir mér vinna á kassa í Krónunni.

- Þorgerður Katrín gæti fengið starf við Fjármálaráðgjöf heimilana.

- Lárus Welding sæi ég fyrir mér í Dressmann auglýsingum í Noregi.

- ........og svo miklu miklu miklu fleiri......

þriðjudagur, 7. október 2008

laugardagur, 4. október 2008

Þjóðnýting lífeyrissjóða

Það hefur verið kallað eftir því að þegnar landsins, almenningur, snúi bökum saman og að allir leggist á eitt til að þjóðarskútan sökkvi ekki. Þetta hefur komið fram í máli margra stjórnmálamanna. Þessum barátturæðum hef ég tekið fagnandi. Verið tilbúinn til að gera hvað sem er til að taka þátt í að bjarga Íslandi. Því miður bíð ég enn fyrirmæla um hvað ég get gert, ég er tilbúinn að berjast. En hvað get ég gert Geir?

Hannes í Kastljósi
Annars fylgdist ég með merkilegu vikuuppgjöri Kastljóss á föstudagskvöld. Þar var stjórnandi Helgi Seljan og gestir hans voru Gunnar Smári Egilsson og Hannes Gissurarson. Gunnar Smári kom mér ekkert sérstaklega á óvart. En Hannes virtist uppskrúfaður af einhverjum orsökum. Hann ræddi þó ekkert um hvernig Ísland gæti orðið ríkasta land í heimi. Hann minntist heldur ekkert á skattalækkanir. Mér leiddist að sjá hann hreyta skít í stjórnandann, sem honum einhverra hluta vegna gramdist skuggalega. Leit út um tíma sem Hannes væri að viðurkenna þá staðreynd sem virðist hafa komið honum sjálfum einum á óvart, þ.e. að hann vissi ekki alla skapaða hluti. Þetta virðist hafa verið Hannesi ný uppgötvun, en verð að viðurkenna að ég hef séð hann spóka sig um á nýju fötum keisarans í allnokkur misserri. Verð að rifja upp kafla úr grein hans úr Fréttablaðinu í apríl á þessu ári: 

"Þótt nú hafi blásið á móti um skeið, eiga Íslendingar því ekki að fyllast bölmóði. Öll él styttir upp um síðir. Undirstöður atvinnulífsins eru traustar og stöðugleiki í stjórnmálum. Ríkisstjórnin þarf að halda áfram á þeirri braut, sem hefur gefist best síðustu sautján árin, að auka svigrúm einstaklinga, lækka skatta, selja ríkisfyrirtæki og fjölga tækifærum venjulegs fólks til að brjótast úr fátækt til bjargálna. Jafnframt er nauðsynlegt, að Seðlabankinn verði áfram öflugur bakhjarl viðskiptabankanna, sem vaxið hafa hratt hin síðari ár. Við skulum draga rétta lærdóma af þeirri fjármálakreppu, sem herjað hefur í heiminum síðasta misserið. En dýrmætasta eign okkar er vonin, — vonin um betri tíð með blóm í haga."

Þjóðnýting Lífeyrissjóða
Jámm. Það virðist hafa verið tekið mark á orðum Hannesar í apríl, því ekkert var gert og niðurstöðuna þekkjum við öll. Vonin um betri tíð og blóm í haga stendur ein eftir. Nú liggur fyrir að nýta á lífeyrissjóðina til að bjarga þjóðarbúskapnum. Það heitir þjóðnýting á íslensku. Erlend eign þeirra verður flutt til Íslands til bjargar Seðlabanka Íslands og annarri fjármálastarfsemi. Við launþegar hljótum að treysta á að forysta okkar hafi samningsstöðu við þessar aðstæður. Við launþegar hljótum að fara fram á nokkur atriði til að vega upp á móti kaupmáttarrýrnun og til framfara:

1. Skattalækkanir.
2. Flatar launahækkanir.
3. Upptaka Evru. (EB)
4. Vísitölubinding launa næstu tvö ár.
5. Að Íbúðalánasjóður láni án verðtryggingar frá þeim degi er Evran er tekin upp.

Því miður tel ég að verkalýðsforystan sé í eðli sínu steinrunnin. Vonandi nær hún að semja um eitt þessara augljósu samningsmarkmiða.

Annars er augljóst að peningar lífeyrissjóðanna verða fluttir heim. Þeir stoppa þar stutt við, skipta um hendur, og fara beint erlendis á nýjan leik til að greiða upp erlendar skuldir. Getur verið að þá verði krónan jafn veik og hún er í dag eftir stutta uppsveiflu?

Verður þjóðnýting lífeyrissjóða tilkynnt af Mr. Herbertsson á Reuters eða Bloomberg? Mánudagur til þjóðnýtingar?

fimmtudagur, 2. október 2008

Hálfkæringur

Komið hefur í ljós að hugmyndir um þjóðstjórn voru lagðar fram í HÁLFKÆRINGI

...að eiga ekki annan séns

Í gær hitti ég kunningja minn, hann var dapur. Nýbúinn að missa spariféð sitt sem honum hafði verið ráðlagt að fjárfesta í Glitni á seinasta ári. Hann hafði líka hitt mann rúmlega áttræðan sem tapaði nánast öllum sínum sparnaði í sama geimi. "Ég hefði getað grátið þegar ég talaði við manninn, hann á líklega aldrei tækifæri á að eignast peninga aftur, við yngra fólkið höfum þó annan séns." sagði kunningi minn.

Ég var leiður að heyra þetta. Dapur.

Svo kom ég heim til mín og hitti þýskan tengdafaðir minn sem var í einhverjum bavarískum fagnaðarlátum yfir því hvað krónan hafði veikst mikið - hann sýndi mér allar yfirhafnirnar sem hann hafði keypt fyrir skid og ingen ting í Veiðiflugunni á Reyðarfirði. "The prices are so low." sagði maðurinn. Mig langaði að hrækja á hann, enn stillti mig um það - sagði honum að hann hefði átt að bíða til morguns eftir mun meira falli krónunnar sem væri spáð af almenningi í landinu. Náði að svekkja hann smá. Sá eftir því. Ætli hann fari ekki aftur í Veiðifluguna í dag.

Fengum okkur svo kvöldmat. Fór að pæla í því hvort það væri ekki vissara að taka slátur og fara að sauma keppi, kötta mör og hræra í blóði. Svo væri hægt að setja niður kartöflur og gulrætur næsta vor. Hugsaði líka til þess að við eigum hross sem væri hægt að slátra niður í kjallara ef allt fer á versta veg, á líka hakk, steinbít og ýsu í frystinum. Ekki slæmt.

Lagði mig svo á sófann og lét mig dreyma dagdrauma um íslenska landsliðið í handbolta og leiðina að silfrinu. Ekki frá því að ég hafi farið að brosa út í annað. Vaknaði þó upp af dorminu við kerlinguna Agnesi Bragadóttir sem var farin að hrækja munnsöfnuði í sjónvarpinu. Hugsaði með mér að það kæmi ekki á óvart að þeir ættu í vandræðum með kerlu á ritstjórn moggans.

Sannfærðist um að fleiri þurfa að láta opna á sér höfuðið en Ingibjörg Sólrún og láta athuga með dótið.

áfram Ísland

Króna/EURO