miðvikudagur, 22. október 2008

Endurminningar blaðburðardrengs

Ég man þegar ég var blaðburðardrengur. Eftir að hafa verið skráður á biðlista í nokkra mánuði fékk starf blaðburðardrengs í “gamla hverfið” á Egilsstöðum. Daginn eftir lá plastpakkaður tuttugu og fimm kílóa pakki á forstofugólfinu heima hjá mér, listi yfir áskrifendur og ein blaðburðartaska. Strax þá fannst ég mér hafa mikilvægar upplýsingar í höndunum. Ég hafði vitneskju um áskrifendafjölda Þjóðviljans, Tímans og Moggans í heilu hverfi. Þetta fannst mér stórmerkilegt.

Eftir nokkra daga var ég farinn að muna áskrifendalistann utan að, og gat farið að skilja hann eftir heima. Þó að jafnmargir í hverfinu væru áskrifendur að Tímanum og Mogganum, þá var langtum mesta þyngdin í Mogganum. Skildi ég ekki fá meira fyrir að bera hann í hús? Hugsaði ég með mér. Þjóðviljinn vóg varla neitt, tók því varla að bera hann út fannst mér. Gerði það þó af skyldurækni. Ég vissi að allir sem voru áskrifendur af Tímanum voru Framsóknarmenn, og mér fannst stórmerkilegt hversu margir slíkir voru samankomnir í einu hverfi á Egilsstöðum. Stuttu síðar komst ég að því að Þjóðviljinn borgaði jafn mikið og Mogginn fyrir blaðburðinn. Jafnmikið fyrir minna, þetta fannst mér góður díll. Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum þegar Þjóðviljinn hætti að koma út.

Blaðburðurinn þótti mér ágætis göngutúr að mestu leyti. Auðvitað komu dagar sem ég hefði frekar viljað leika mér að fótbolta á skólavellinum, en yfirleitt var þetta gaman. Mestar áhyggjur hafði ég af því að verða skakkur í bakinu undan blaðburðartöskunni, hafði horft upp á Eystein nágranna minn verða skakkan í bakinu. Hann var samkeppnisaðili og bar út DV. DV fannst mér ekki góður pappír, dró úr viðskiptunum hjá mér.

Fyrstu mánaðarmótin lá svo á gólfinu hjá mér rukkanahefti frá umboðsmanninum. Hann sagði mér að þegar ég væri búinn að rukka alla áskrifendur og skila peningunum, þá fengi ég útborgað fyrir fyrsta mánuðinn. Þetta fannst mér ágætt plan. Reyndar fannst mér draga úr ágæti þess þegar ég kynntist því af eigin raun hversu erfitt gat verið að rukka fólk. Komdu á morgun var vinsæl setning hjá áskrifendum. Ég á bara ekkert laust blað í heftinu var önnur vinsæl setning. Einn áskrifandinn var mér alltaf erfiðastur, mér fannst í raun ósanngjarnt að útborgunardagur minn ákvarðaðist af greiðslugetu hans. Þess vegna komst ég fljótt að því að best var beita hann þvingunarúrræðum. Já, hann fékk ekki blaðið nema hann borgaði. Þetta tilkynnti ég honum þegar hann hringdi og kvartaði yfir að fá ekki blaðið. Hann greiddi yfirleitt fljótlega eftir að hann hætti að fá blaðið. Eftir á að hyggja var þetta góð innheimtuleið hjá dagblöðunum, að fá hörundsára blaðburðardrengi til að ganga í hús.

Fljótlega átti ég ekki aura minna tal. Fyrir fyrsta mánuðinn fékk ég nærri sex þúsund krónur. Ég hafði aldrei borið ábyrgð á ráðstöfun svo mikilla fjármuna áður. Þess vegna greip ég það fegins hendi þegar ég sá fimmþúsundkrónakerlinguna í fyrsta sinn auglýsa spariskirteini ríkissjóðs. Ég gerðist áskrifandi. Keypti fyrir fimm þúsund kall í hverjum mánuði í einhver ár. Kynnti mér þá fyrst um hvað verðtrygging snýst. Ég keypti meðal annars minn fyrsta bíl fyrir spariskirteini ríkissjóðs. Þegar ég var búinn að klessukeyra hann, þá keypti ég mér annan bíl fyrir spariskirteini ríkissjóðs. Þegar ég reiddi fram borgun fyrir hann hugsaði ég þakklátur til blaðburðaráranna.

Helstu hlunnindi blaðburðardrengsins voru að lesa fréttir dagsins á undan öllum öðrum í bænum. Ég lá forstofugólfinu og fletti Mogganum og Tímanum. Ég man að ég fletti báðum blöðunum alltaf afturábak. Mogginn var með mun betri íþróttafréttir, en margt í Tímanum fannst mér skemmtilegra. Mér datt sjaldan í hug að fletta Þjóðviljanum. 

Svo gekk ég um göturnar með blaðburðatöskuna á öxlinni og það hlakkaði í mér að vera búinn að lesa fréttirnar á undan öðrum. Af þeim sökum fannst mér eins og ég vissi ívið meira en aðrir.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég bar út á níunda áratugnum, Þjóðviljinn borgaði alltaf meira en mogginn, munaði nokkrum krónum á hvert blað. Töskurnar voru líka þægilegri en moggatöskurnar, þó þær væru úttroðnar.

Það var góður díll að bera út Þjóðviljann

Nafnlaus sagði...

Frábær saga hjá þér. Skemmtilega skrifað. Rifjar upp gamlar endurminningar úr starfinu.

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg saga. Góð áminning um hvernig heiðarlegir menn vinna sér inn pening með verðmætasköpun eða þjónustu, spara hann og kaupa svo fyrir pening sem þeir eiga. Minnir líka á horfinn tíma þegar samkeppni var á fjölmiðlamarkaði og ólíkar skoðanir börðust um huga manna.

Nafnlaus sagði...

flott blogg en samt svolítið pointless. Hudson

Einar sagði...

Hudson: Ég er sammála þér með "pointless". :)

Enda engin ástæða til að komast að gáfulegri niðurstöðu útfrá þessu :)

Eagle sagði...

Sammála Æns, það voru nokkrir sokkar á Egs í den. Samt bestu skinn, bara svolítið út að skíta týpur.

Króna/EURO