mánudagur, 20. október 2008

Bjóðum hina kinnina?

Spaugstofan setti upp táknræna mynd af sökkvandi þjóðarskútu síðasta laugardagskvöld. Skopstæling af sökkvandi Titanic var notuð. Icetanic kölluðu þeir sökkvandi dallinn sem við siglum á. Það versta við skopstælinguna er hversu raunsönn hún er.

Það er stutt síðan kaldranalegur raunveruleikinn löðrungaði okkur með falli bankanna. Löðrungarnir munu halda áfram að berast, því við erum í raun og veru gjaldþrota. Þessa dagana vonast stjórnvöld eftir að geta bjargað því sem bjargað verður með tæplega 700 milljarða láni frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Einungis vextirnir af þvílíku láni væru um 25 til 30 milljarðar á ári, utan við afborganir. Það eru ekki nema svona 6 þúsund ársverk. Vitað er að lán með þessari upphæð gæti reddað okkur fyrir horn, ekki miklu meira en það. Önnur lán sem við höfum þegar tekið munu ekki hverfa okkur. Íslenska alþýðan skal borga þennan reikning um ókomin ár.

Þegar þvílíkar staðreyndir slá okkur utan undir er ekki óeðlilegt að reiðast. Jafnvel að verða brjálaður. Flestir vildu sjálfsagt vita hver sló okkur svo harkalega á kinnina. Voru það sofandi stjórnvöld? Voru það eftirlitslausir útrásarpiltar? Var það árangurslaus peningastefna? Var það sjálf heimskreppan? Við í raun vitum það ekki. Við vitum ekki hver barði okkur í kinnina. Er það samt ekki ofureðlilegt, að við viljum eða fáum að vita það?

Þeir stjórnmálamenn og útrásarpiltar sem hafa siglt okkar sökkvandi skipi vilja að við sýnum þolinmæði. Leyfum þeim að sigla skipinu í var. Þeir vilja taka þá ábyrgð. Í raun væri eðlilegt að spyrja okkur leyfis. Treystum við þeirri áhöfn sem nú er í brúnni? Viljum við vera farþegar þessara manna? Svar við þessari spurningu fengist í kosningum innan þriggja mánaða.

Það er rangt hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar að enginn hafi séð þetta fyrir, sem nú hefur komið fyrir íslenska þjóð. Ljóst er að nokkrir stjórnmálamenn og allnokkrir hagfræðingar sáu ástandið fyrir. Menn sem mátu þáverandi ástand ekki rétt, hvers vegna ættu þeir að meta núverandi ástand rétt? Hvers vegna eigum við að treysta þeim? Ætlum við að vera eins og eiginkona sem hleypir ofbeldissjúkum eiginmanni inn á heimili sitt aftur?

Stjórnmálamennirnir sem enn stjórna landinu treysta okkur ekki til að skera úr um hver ber sökina með einföldum kosningum. Þeir vilja skrifa hvítbók sem á að gefa okkur sanna mynd af því sem gerðist. Treystum við þeim til að gera það? Mönnum sem treysta sér ekki í kosningar? Mennirnir sem nú fara á hnjánum um veröldina með óútfyllt skuldabréf frá hinni íslensku þjóð.

Menn sem hafa gefið okkur kjaftshögg, vilja að við bjóðum hina kinnina á móti og gefum þeim jafnvel leyfi til að berja höfði okkar í vegginn um ókomna tíð. Þvílík endemis vitleysa.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill. Ef það verður ekki kosið í vetur og helst fyrir áramót þá mun unga fólkið streyma úr landi því það mun ekki sjá neina von til þess að ástandið lagist. Af hverju eigum við að eyða bestu árum starfsævi okkar í skuldafangelsi við að hreinsa upp eftir þennan skríl sem hefur eyðilagt landið okkar og framtíð? Þetta er EKKI okkur að kenna sem tókum ekki þátt í sukkinu.

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr.

Króna/EURO