þriðjudagur, 28. október 2008

Gesturinn Einar

Lagði land undir fót. Var gestur í höfuðborg Íslands um stundarsakir. Kom við á nokkrum stöðum.

Var meðal annars gestur á skrifstofu ónefnds fyrirtækis í borginni. Þar kom annar gestur í heimsókn sem starfar hjá fjármálafyrirtæki og lýsti hann raunum sínum. Hann sagði frá því hvernig hann reykspólaði um borgina, þegar fall bankanna varð möguleg staðreynd. Hvernig hann hafði viðkomu í flestum útibúum á höfuðborgarsvæðinu til að taka út reiðufé. Hann náði út megninu af innistæðum sínum, slatta af milljónum. Ég tengdi ekkert sérstaklega við þessa raunasögu, fannst ég vera gestur á plánetunni mars.

Hlustaði á annan mann segja frá því að hann væri að bjóða skipti á Range Rover bifreið sinni á staðinn fyrir dýrari Landcruiser jeppa. Líklega vegna þess að Range Rover bifreiðar hafa umbreyst í gildishlaðið tákn skuldsetts ríkidæmis. Rétt eins og BMW bifreiðar urðu um stund tákn illa fengins eiturlyfjagróða í kringum árið 2000.

Flaug svo heim á leið allur í keng í Fokkerflugvél þar sem sætin og plássið eru hönnuð fyrir fólk í stærðinni 120-150 sentimetrar. Borgaði aðeins ca. 33.000 krónur fyrir flugfarið fram og tilbaka.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

gott hjá þér ég hef farið nokkrar ferðir til Glasgow og þetta er fargjaldið þangað er að spá í að henda miðanum til baka næst (önnur leiðin er nefnilega dýrari en báðar)

Nafnlaus sagði...

Velkominn heim aftur ullasokkur

kveðja Belli

Nafnlaus sagði...

2 þjóðir í einu landi, Stór Reykjavíkursvæðið og svo landsbyggðin.

Króna/EURO