laugardagur, 31. janúar 2009

Uppgerðarpopp á útlensku

Ég ætla að vera eilítið hallærislegur og ræða um júróvísíón. Aðallega vegna þess að ég lenti í því að horfa á undankeppnisþátt í kveld. Þáttastjórnendur voru tvær fallegar konur í kaupfélagssloppum.

Ég skyndilega furðaði mig á því af hvað við værum að vandræðast við að velja lag. Til hvers í ósköpunum við værum að rembast við að syngja útlenskan texta og uppgerðarpopp.

Svo sannfærðist ég um að líklega væri langkrúttlegast að senda einhverja átján ára bláeygða og saklausa stúlku í lopapeysu til að syngja fyrir okkur einfaldt og íslenskt ættjarðarljóðm með barnslegri rödd. Það þætti mér fallegt, viðeigandi og í takt við tíðarandann.

föstudagur, 30. janúar 2009

Hvalræði

Ég er ennþá að dást að flottustu smjörklípu ársins - þ.e. þegar Einar Ká Guðfinnsson leyfði skyndilega hvalveiðar, eða hvaldráp eins og sumir vilja kalla það. Þótt að verknaðurinn sé augljóslega til að kasta reyksprengju inn í stjórnarmyndunarviðræður, hefur manninum tekist að gera þetta að næst stærsta umfjöllunarefni vikunnar.

Þar sem ráðherra gat leyft hvalveiðar án aðkomu þingsins, getur hann einnig bannað þær - það er eitt af aðalatriðum málsins. Þess vegna er stór misskilningur í gangi um að þingflokkur Framsóknar komi til með greiða atkvæði með eða á móti hvalveiðum á alþingi - til þess mun einfaldlega ekki koma.

En það flottasta við þess smjörklípu, eða reyksprengju - er að þótt allir sjái hversu augljós hún er, þá getur enginn fjallað um hana án þess að láta skoðanir sínar í ljós.

Rökræða Kristjáns Loftssonar og Sigursteins Mássonar sem tók hálft Kastljósið, og ummæli Framsóknarformanns í sama þætti, undirstrikar snilldina og þau vandræði sem Einar Ká setti tilvonandi valdhafa í, þótt augljóst sé að nýr ráðherra afturkalli leyfi til hvalveiða - án umræðna í ríkisstjórn eða á alþingi. Rétt eins og Einar Ká.

Hann hefur meira að segja platað suma bloggara Samfylkingar til að fara í málefnalega ágreining við Framsóknarflokkinn.

...og í guðanna bænum ekki falla í þá gryfju að setja comment hér með eða á móti hvalveiðum.

fimmtudagur, 29. janúar 2009

Helfreðið

Síðdegis fékk ég gæsahúð á kafloðið bakið. Tilefnið var eitilmagnaður reiðtúr á helfreðnu Höfðavatni. Hvunndagurinn getur verið hreint magnaður, og spennandi. 

Get vottað að guð blessaði Ísland, þegar hann gaf okkur Töltið og Frostið.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Whisper in the wind

Gaman að fylgjast með því hversu fuglahvísl AMX.is fer fram í miklu hvassviðri þessa dagana.

Þar situr gríðargott skáld bakvið lyklaborð og gerir því í skóna að menn sem hafa ekkert erindi í pólitík séu á leiðinni í stjórnmál. Þar hvíslar mörgæsin því að Sigmundur Ernir sé á leið í Framsókn, og fyndnari útgáfan er að Egill Helgason sé á leið í stól Menntamálaráðherra.

Kannski gert til að reyta fiður af vaxandi fylgi Framsóknar og Samfylkingar, eða kannski mjög djúpur fyrirtaks húmor?

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Áhugavert

Þetta er ákaflega áhugaverð frétt á Smugunni um útgáfu reglugerðar Einars Ká um hvalveiðar.

Áhugaverð útfrá ýmsum sjónarhólum:

Hver verður næsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?
Þorir nýr ráðherra að kalla reglugerðina tilbaka, eða vill hann það?
Af hverju gerði Einar Ká þetta ekki fyrr en á elleftu stundu?
Hversu stórt og mikið umboð hefur ráðherra til stórtækra reglugerða á seinasta starfsdegi?
Samþykkti Samfylkingin ekki hvalveiðar?
Mun Smugan halda áfram að fjalla um málið á tímum nýrrar ríkisstjórnar?

...og svo má velta því fyrir sér hvernig framhaldið verði á nýju málgagni ríkisstjórnarinnar, Smugunni.

...enn athyglisverðara verður að fylgjast með því hvernig Mogganum tekst að höndla stjórnarandstöðuhlutverk sitt. Einhver ný eða gömul taktík sem Staksteinar verða að tileinka sér á næstunni.

...það verður líka fróðlegt að fylgjast með því hvort og hvernig ÍNN breytist í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins á næstu vikum.

Fróðlegir tímar framundan, hvar sem litið er.

mánudagur, 26. janúar 2009

Kotbóndinn baðar sig....

Alveg merkilegt að fylgjast með kotbóndanum á Bessastöðum reyna að gera sig gildandi á sínum síðustu og verstu tímum.

Á svipuðum tíma og hann hefur nýsannað fyrir þjóðinni að embætti hans er gagnslaust gaul, þá heldur kotbóndinn afskaplega mikla óþurftar maraþonfundi með formönnum stjórnmálaflokkana. 

Og tekur sér svo umhugsunarfrest til morguns til að gera það sem öllum er augljóst - að veita umboð til myndunar minnihlutarstjórnar. Svo ætlar að hann að vakna berrassaður og halda fréttamannafund með cheeríós milli tannanna - þar sem hann tilkynnir það sem allir gátu vitað þegar kl. 14:00 í dag, en þá var forsetinn sjálfsagt í tásnyrtingu að æfa ræðuna um skilyrðin fjögur. 

Hann mun væntanlega tilkynna hversu ósofinn og vannærður hann er í fyrramálið yfir þessari ótrúlega erfiðu ákvörðun.

Þetta kallar maður að baða tær sínar eins lengi og mikið og hægt er í algjörlega óverðskuldaðri athygli.

Hvað sem verður...

Nú vita fáir hvort af minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verður. Hvað sem verður, þá ættu þeir þingmenn sem verða ráðherrar í næstu ríkisstjórn að jafnframt að víkja úr sæti sínu á alþingi - hafi þeim verið nokkur alvara með gagnrýni sína á veika stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.

Það er einboðið - að svo verður að vera, hafi stjórnarandstöðunni verið einhver alvara með orðum sínum og gagnrýni.

föstudagur, 23. janúar 2009

Ríkisstjórnin klári

....að mörgu leyti er ég saddur. 

Kosningar í apríl eða maí fannst mér réttmæt krafa, og hefur nú loksins náð eyrum auðvaldsmanna. Tíminn fram að kosningum er fremur skammur, og ég held að það væri ágætt ef Auðvaldsmenn og Aumingjans Samfylkingarfólk haldi áfram að stjórna landinu fram að kosningum. Það er í raun hvort eð er ekki hægt að vinna meiri skaða í bili. Eftir kosningar gætu skilin svo orðið skýr - ný lög um Seðlabankann gætu þá tekið gildi og Davíð knúsaður ásamt Jónas í Hvalnum sem yrði þá kysstur bless úr FME o.s.fr.v.

Auðfúsar hendur auðvaldsins í Samfylkingunni geta þá legið áfram með hendur í skauti og kosið óbreytt ástand enn um sinn. Þannig gæti Samfylkingin lagt enn frekari áherslu á markmið sín um ekki neitt fyrir kosningar og verið kosin af öllum sínum verðleikum sem þau hafa að bjóða.

Það væri óðs manns æði fyrir nokkurn stjórnarandstöðuflokk að fara í stjórn með aumingja Samfylkingunni - sem þjáist af ístöðuleysi, leiðtogaleysi, skorti á markmiðum og síðast en ekki síst viljaleysi til að framkvæma yfirlýsta stefnu sína.

Þetta þýðir ekki að ég styðji ríkisstjórnina, en mér finnst einhvern veginn sjálfsagt að Auðvaldsmenn og Aumingjans Samfylking fái tækifæri til að klára verk sitt, sem er að grafa sína eigin gröf.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Án ökuskirteinis

Ég veit lítið um jeppa, mótorhjól, vélsleða, báta og Samfylkinguna. Ég veit bara að vélknúnum farartækjum var upphaflega ætlað að komast á milli staða.

....þess vegna hlýtur Samfylkingin að vera bensínlaust farartæki, sem kemst ekki lengur milli staða. Með tuttugu aftursætisbílstjóra, bílstjóra í veikindafríi og varabílstjóra án ökuskirteinis.

....Lýsing gæti komið að sækja skrjóðinn ef svo fer fram sem horfir.

Spurning hvað gerist þegar formaðurinn kemur heim. Líklegast spurning sem brennur á mjög mjög mörgum.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Aðeins einn kostur

Að öllum líkindum yrði það enn ein flónskan af hálfu Samfylkingar ef hún tæki ekki boði Framsóknarmanna um stuðning við minnihlutastjórn fram að vorkosningum. Það myndi þá koma í bersýnilega í ljós hvers lags spjátrungar eru í þeim þingflokki, ef tilboðinu verður neitað.

Samfylkingin hefur aðeins einn kost, ef hún hefur áhuga á að vera stjórnmálaflokkur áfram.

Öll vötn virðast renna til Dýrafjarðar.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Elska þau Ísland?

Hættan eykst með hverjum deginum að stórslys verði í tengslum við mótmæli við sitjandi ríkisstjórn. Forsætisráðherra hefur sjálfur sagt að svokölluðum rústabjörgunum sé lokið. Mótmælendur munu halda áfram þar til ríkisstjórnin boðar til kosninga. Líklegast væri best að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og margir reyndir þingmenn, gæfu ekki kost á sér á nýjan leik til þáttöku í stjórnmálum. Svo herfilega illa lesa þeir í núverandi stöðu.

....þetta snýst ekki lengur um pólitíska kænsku - heldur hvort ráðherrar elska land sitt og þjóð svo mikið að þau séu tilbúin til að leyfa okkur að njóta vafans.

Því lengur sem ríkisstjórnin dregur óhjákvæmilega ákvörðun um að stíga til hliðar - því meira aukast líkurnar á stórslysi.

Þetta er svona auðvelt....


mánudagur, 19. janúar 2009

Hækkandi meðalbros

Ég á heima í þorpi þar sem nálægt helmingur er Framsóknarfólk. Það eru mörg brosandi andlit sem ég hef séð í morgun, og áberandi margt Framsóknarfólk brosir í dag.

.....og símastaurarnir syngja.

Uppfært: og United á toppnum í enska.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Skilaboðin frá Svíþjóð....

Þættinum var að berast bréf: (birt óbreytt)

"Sæll Meistari, ég var í Háskólabíói í gærkvöld þar sem þetta með skilaboðin kom fram (sjá link). Ég hef heimildir fyrir því að hið rétta sé að aðstoðarmaður Ingibjargar, Kristrún Heimisdóttir hafi komið boðunum fá Ingibjörgu, alla leið frá sjúkrahúsinu í Svíþjóð, til skila til Sigurbjargar ræðumanns og svo sat Kristrún á fremsta bekk á borgarafundinum eins og einhver vörður til að ræðumaðurinn segði nú örugglega ekki neitt of neikvætt um heilbrigðisráðherra eða heilbrigðiskerfið. Soldið langt gengið þegar ráðherrar Samfylkingar eru farnir að verja ráðherra Sjálfstæðisflokks með slíkum aðferðum, Samfylkingin ætlar sem sagt að hjálpa til við að einkavæða heilbrigðiskerfið. Rikisstjórnin ætlar ekki að fara frá, NÓ MATTER WOTT! En mig grunar hins vegar að stjórnin hangi á bláþræði."

Það má því segja að Kristrún hafi verið boðberi geislavirkra skilaboða, ef það er einhver glóra í heimildamanninum.

mánudagur, 12. janúar 2009

Óli bæjó er almennur borgari

Bæjarstjórinn á Seyðisfirði kallar ekki allt ömmu sína og segir það sem hann hugsar, og hugsar það sem hann meinar.... o.s.fr.v.

http://www.visir.is/article/20090111/FRETTIR01/513767454

Leiðinda samanburður m.v. fólksfjölda

Mjög einfalt reikningsdæmi sýnir að 0,01% þjóðarinnar hefur sett Ísland á hausinn, ef við gefum okkur að fullyrðingin um að 30 auðmenn hafi gert Ísland gjaldþrota sé rétt. Þetta virðast fáir menn við fyrstu sýn.

Gefum okkur hins vegar að Þýskaland færi á höfuðið á sömu forsendum, og með sama hlutfalli auðmanna. Þá þarf 7.000 auðmenn til að fylla sama hlutfall á móti mannfjölda. Líklega þætti það gríðarlegur fjöldi auðmanna.

....jah, bara pæling :)

laugardagur, 10. janúar 2009

Sátt um fiskinn okkar

Ég er einn af þeim stunda upphrópanir án lausna annað slagið.

Ég hef frábæra(?) hugmynd um tiltekna lausn, sem ég vona að fleiri hafi eða fái.

Málið varðar sjávarútveginn sem er skuldsettur að fullu, og rúmlega það. Ég legg til að það verði skoðað af fullri alvöru að gera eftirfarandi:

1. Kalla alla útvegsmenn á fund.

2. Tilkynna þeim að ríkið hafi leyst til sín öll veð á kvóta frá íslensku bönkunum.

3. Tilkynna þeim um að ríkið hafi leyst til sín öll veðbönd á íslenskum kvóta erlendis.

4. Tilkynna þeim að í upphafi næsta fiskveiðiárs hafi þeir sama kvóta og áður, en veðskuldir þeirra hafi verið felldar niður, þar sem ríkið fari nú með veiðiheimildirnar og eigi þær.

5. Tilkynna þeim að næsta veiðiár á eftir standi eftir 90% veiðiheimildum þeirra. 10% kvótans verði boðin til leigu á frjálsum markaði, og þurfi þeir að greiða sama einingaverð fyrir restina af veiðiheimildunum eins og markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir 10%. Að öðrum kosti þurfi þeir að leggja veiðiheimildarnar inn og skila þeim. Þannig sé þeim veitt aðlögun og skilyrði til að hagnast af fiskveiðum á nýjan leik, án þess að of stór veiðiheimilda sé felldur niður á skömmum tíma.

6. Tilkynna þeim að árlega eftir þetta taki ríkið til sín 20% veiðiheimildum þeirra og bjóði út á frjálsum leigumarkaði. Þeim sé frjálst að bjóða í á frjálsum markaði.

7. Tilkynna þeim að þeir megi víkja af fundinum og halda áfram að veiða fisk.

8. Í framhaldinu ákveðið að sömu lög gildi fyrir öll skip og báta, sama af hvaða þyngd þau eru.

9. Tilkynnt um að allar tekjur af útleigu á fiskveiðiheimildum verði nýttar til að greiða niður tap
þjóðarinnar á niðurfellingu veðskulda sjávarútvegsins í nokkra áratugi.

10. Tilkynnt um að leigukvóta sé hægt að versla með á frjálsum markaði, enda ekki um varanleg veiðiréttindi að ræða. Þannig fái þjóðin hámarksarð af veiðiheimildum.

11. Tilkynnt um að auðlindaráðherra fari með málefni sjávar- og olíiuauðlinda og honum verði falið að starfa eftir nýjum lögum um auðlindaleigu.

12. Tilkynnt um að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í átt að þjóðarsátt. Málið hafi borið brátt að og aðeins framkvæmt á tveimur vikum, því muni stjórnvöld áskilja sér rétt til að sníða af því alla þá annmarka sem upp geti komið.

Tiltölulega einfalt mál eða hvað?

föstudagur, 9. janúar 2009

JAFNAÐAR-geð á Boggunni

Einhverjar mestu gungur íslenskrar stjórnmálasögu sitja í þingflokki Samfylkingar. Þar situr fólk með hugsjónir í höfði, en algjöran skort á þori og þreki til að standa með eigin sannfæringu. Trúa því í villu síns vegar að þjóðsagan um flokksaga Davíðstímans, sé eina leiðin í átt að árangri.

Menn sem klöppuðu og flissuðu í kameruna á borgarafundi í Háskólabíói, Helgi Hjörvar og Árni Páll. Unglingurinn sem stamaði í myndavélina að Seðlabankastjórnin yrði að víkja, Ágúst Ólafur. Kerlan sem staðhæfði að sinn tími myndi koma, þið vitið hver það er. Og svo alltof margir fleiri.

Allt eru þetta skipverjar á Boggunni. Kratarnir hafa sýnt sitt rétta andlit. Trúin um að þeir hafi völd, en eru í raun án valda. Láta segja sér fyrir verkum í þinginu og eru hjásvæfur og skækjur sem láta borga sér með stöku túkalli – þótt þau viti að nú er túkallinn einskis virði.

Eru með utanríkisráðherra sem eyddi árinu 2008 í kosningabaráttu fyrir öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna og PR herferð fyrir Kaupþing, Glitni og Landsbankann. 

Eru með iðnaðarráðherra sem hafði árið 2008 mestan áhuga á að auka raforkuframleiðslu í Arabíu og Afríku og náði stærstum árangri í þeirri vegferð þegar hann varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta sjálfan Boris Becker í lyftu. Á einhverju glæsilegu hóteli á Abu Dhabi, þar sem Elton John gisti ásamt lífvörðum. Reynir svo að klóra í bremsufarið í buxum sínum með falskri lofræðu um íslensk sprotafyrirtæki, stuttu eftir að töfrasprotafyrirtækin hættu að borga undir vegferð hans.

Eru með félagsmálaráðherra sem hafði öll árin eftir að hafa verið félagsmálaráðherra fyrir Alþýðuflokkinn barist gegn verðtryggingu og haft áhyggjur af hag heimilana. Þeirri baráttu lauk snögglega þegar hún varð félagsmálaráðherra á nýjan leik fyrir Samfylkingu. Hennar tími var sko loksins kominn – og er farinn.

Eru með umhverfisráðherra sem allt árið 2008 barðist gegn því að stóriðnaður fengi brautargengi. Ennþá hefur vart spurst til ráðherrans síðan hún baðaði sig í blóði ísbjarnar í sumar.

Eru með viðskiptaráðherra sem hefur lítið nema djúpa röddina til að fela sig fyrir barnslegum mistökum og ræfilshætti. Sem lét bjóða sér að vera ekki með í ráðum þegar stórar ákvarðanir voru teknar í atburðarás bankahrunsins og er yfirmaður mest gagnslausu stofnunar landsins – FME. Sakaður um stórkostleg mistök í Icesave málinu.

Já og svo með samgönguráðherra sem hefur fá asnastrikin gert, en lætur girða sig í þrönga brók Boggunnar.

Og svo sitja sannkallaðar skækjur þeirra í þingflokknum og sætta sig við að enginn raunveruleg lausn hafi verið borin á borð þeirra síðan í byrjun nóvember og stæra sig af því að nú sé Boggan búin að sigla utan í árabát Sjálfstæðisflokksins sem jafnvel þurfi að sækja um aðstoð frá björgunarsveitinni júrópu.

Þetta er Boggan sem siglir um í gervi jafnaðarmanns, en er í raun fljótandi spilavíti með hjásvæfum fyrir túkall.

Og sumir taka því með með JAFNAÐAR-geði.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Bandið hans Bubba

Í mogganum í dag eru Bubbi og félagar í Egó að plögga. Bubbi er víst með nýtt lag. Þjóðfélagsádeilu.

"Sem verður að komast í spilun sem fyrst, meðan ástandið í þjóðfélaginu er enn svona slæmt." segir Bubbi.

...og manni er spurn. Er ástandið eitthvað að fara að lagast?

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Ísland í hnotskurn

Skýjum ofar



Fyrri skjámynd dagsins er í boði Flugfélags Íslands, sem virðist vera eina Flugfélag í Evrópu sem hækkar verð og fækkar tilboðum þegar dregur úr viðskiptum. Síðan árið 1998 hefur Flugfélag Íslands ALDREI lækkað verð. Á skjámyndinni sést verðhugmynd á ferðalaginu Egilsstaðir - Reykjavík - Egilsstaðir





Síðari skjámynd dagsins er í boði Iceland Express og er þar að finna verðhugmynd á flugi milli Keflavíkur og Köben, svona til samanburðar.



þriðjudagur, 6. janúar 2009

Nýja Verslunarmannafélagið

Hef sem félagi í VR (lesist; Virðing Réttlæti) fylgst með í fjarska átökum almennra félagsmanna og forystu félagsins. Það virðist vera flóknara fyrir félagsmennina en þeir gerðu ráð fyrir að fá stjórnarsæti í félaginu í krafti lýðræðis heldur en gert var ráð fyrir. Svo virðist sem lög og reglur félagsins geri ekki ráð fyrir öðru en að það sé stofnun skrifræðis og stóla.

Hví stofna almennu félagsmennirnir ekki nýtt félag? Það gæti t.a.m. heitið Nýja Verslunarmannafélagið og haft nokkur hundruð stofnfélaga.

Hafið bláa hafið

Það er í sífellu verið að benda mér á fleiri rök fyrir kosningum sem allra fyrst. Hér segir hispurslaust frá því hvernig ráðamenn vilja veita einni atvinnugrein, einu sinni sem oftar, sérstaka forgjöf í íslensku atvinnulífi.

Hér tekur fyrrverandi fangi afdráttarlaust undir þessar skoðanir.

Hvað ætli það sé sem fær fólk til að álykta að ein atvinnugrein sé rétthærri öðrum. Skildi þetta standast jafnræðisregluna?

Mér þætti vænt um ef þessir menn afhjúpi sig og geri þetta að sérstöku kosningamáli.

sunnudagur, 4. janúar 2009

Ríkisleyndarmál

Eftir tölvupóstsamskipti mín við Guðrúnu Jónsdóttur deildarstjóra hjá vísitöludeild hagstofunnar hef ég komist að því að það er trúnaðarmál á hvaða forsendum höfuðstóll íbúðalána minna er byggður. Ég óskaði semsagt eftir upplýsingum um málið og fékk sendar almennar upplýsingar um útreikninga neysluvísitölu til verðtrygginar. Ég spurði því:  "Skil ég þig þá rétt að þið teljið þagnarskyldu og trúnað ríkja um þá vörulista er grundvalla vísitölu neysluverðs til verðtryggingar?"

Svar Guðrúnar var:

"Sæll. Já það er rétt skilið. Við afhendum aldrei vörulista eða einstakar verðupplýsingar sem við söfnum. Það er mjög mikilvægt fyrir starf okkar að trúnaður ríki, annars yrði mjög erfitt fyrir okkur að fá verslanir og þjónustufyrirtæki til að láta okkur upplýsingarnar í té.
Með kveðju,
Guðrún"

Mér hafði leikið sérstök forvitni á því hvaða vöruverð grundvalla höfuðstól skulda minna. Samkvæmt svari Hagstofunnar er það algjört trúnaðarmál. Fyrir mér er um ákveðið prinsipp mál að ræða. Ég hef ákveðin rétt á að vita hvaða heimildir breyta höfuðstól skulda minna mánaðarlega. Hver er það sem fer yfir vörulistann fyrir mína hönd? Hver verndar hagsmuni mína þegar endanlega vísatala er ákveðin um hver mánaðarmót?

Hvort ætli verð á sófasetti eða golfsetti hafi meiri vigt í vísitölunni? Mig langar svo að vita þetta.

föstudagur, 2. janúar 2009

Stórkostleg útgáfa Þingmúla

Inn um bréfalúguna hefur flogið í dag aldeilis frábært blað með bláum haus. Þingmúli heitir það. Málgagn sjálfstæðifélags Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri.

Forsíðuskríbent blaðsins er enginn annar en Kristján Þór Júlíusson, 1. þingmaður Norðausturlands. Leiðinlegt að boðskapur Kristjáns berist ekki norður yfir heiðar - því hann er hreint æðislegur. Grípum niður í skrif Kristjáns:

"Sumir ganga jafnvel svo langt að líkja ástandinu við kreppuárin miklu á Íslandi milli stríða. Hvílík fásinna, heyr á endemi."

Svo hnykkir 1. þingmaðurinn á málflutningi sínum með ákaflega velvöldu ljóði eftir Sigurð Breiðfjörð:

"Ég er snauður, enginn auður,
er í hendi minni.
Nærri dauður, drottins sauður,
í djöfuls vesöldinni."

Það er ekki langt síðan ég velti því jafnvel fyrir mér að Kristján væri vandaður maður, um tíma hrósaði ég honum jafnvel í hljóði - nú get ég ekki annað en iðrast fyrrverandi hugsana minna.

_____________________________

Í sama blaði á síðu tvö svarar Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar spurningalista frá ritnefnd Þingmúla um samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi. FRÁBÆRT. Það hefur sjálfsagt kostað marga ritnefndarfundi að semja svo velyddaðar, eitraðar og gagnrýnar spurningar.

_____________________________

Á síðu þrjú skrifar Ólöf Nordal alþingiskona Sjálfstæðisflokksins um það hversu illa allir voru undirbúnir bankahruninu, já og erfitt geti verið fyrir almenning að greiða lausaskuldir - stórkostleg uppgötvun.

_____________________________

Á síðu fjögur svarar Valdimar Hermannsson í Fjarðabyggð sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö.

_____________________________

Á síðu fimm svarar Ólafur H. Sigurðsson á Seyðisfirði sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö og fjögur.

_____________________________

Á síðu sex skrifar Adolf Guðmundsson, útgerðarmaður á Seyðisfirði og formaður LÍÚ um mikilvægi sjávarútvegsins og andstöðu útvegsmanna við inngöngu í Evrópusambandið. Kemur á óvart. Fyrirtæki hans Gullberg auglýsir á síðu þrjú.

_____________________________

Á síðu sjö skrifar Þráinn Lárusson hreint ágætis hugleiðingu um einelti.

_____________________________

Á síðu átta skrifar Katla Steinsson um ferðaþjónustu.

_____________________________

Á síðu níu skrifar Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi algjöra tímamótagrein um álver Alcoa. Hún greinir frá því eins og komið hefur fram í tugi skipta í öllum fjölmiðlum að hjá fyrirtækinu starfi nokkur hundruð manns, álverið sé algjörlega fullkomið, lágmörkun áhrifa framleiðslunnar á umhverfið og íbúafjölgun.

_____________________________

Á síðu tíu skrifar þingflokksformaðurinn og Seyðfirðingurinn, Arnbjörg Sveinsdóttir, um efasemdir sínar um inngöngu í Evrópusambandið. Hún hvetur alla Austfirðinga sem áhuga á hafa á Evrópumálum til að heimsækja: http://www.evropunefnd.is og svo óskar hún mér gleðilegrar jólahátíðar.

_____________________________

Því miður kemur hvergi fram hverjir eru í ritnefnd Þingmúla því um einstakt barátturit er að ræða...... þar sem öll helstu baráttu og stefnumál Sjálfstæðismanna er tíunduð - þ.e. Status Quo.

Íslenska kjötsúpan

Í byrjun árs:

Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið við völd á Íslandi og haft forsæti að einu ári undanskildu allt frá því Viðeyjarstjórnin varð staðreynd árið 1991. Þá var hafist handa við að hræra íslenska kjötsúpu, þá dýrindis máltíð. Nú eru tæpir tveir áratugir liðnir og frjálshyggjan hefur staðið við kjötkatlana og hrært í súpunni án þess að svo mikið sem eitt atkvæði hafi truflað einbeitinguna. Flokkurinn hefur náð fram sínum helstu stefnumarkmiðum, og í raun fátt að finna í stefnuskrá flokksins sem ekki hefur komist í framkvæmd. Sjálfstæðiflokkurinn er því í reynd farsælasti stjórnmálaflokkur Íslandssögunnar því hann hefur náð fram lykilatriðum í stefnu sinni, með fulltingi samstarfsflokka sinna. Fyrst Alþýðuflokks, síðar Framsóknarflokks og nú Samfylkingar. Hugsjónir Sjálfstæðismanna hafa verið framkvæmdar, án truflunar.

Í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar
Þegar að hræra á í góða kjötsúpu skal vandað vel til verks. Besta mögulega hráefni er valið. Þegar að tveir kokkar elda sömu súpuna er augljóst að málamiðlunar er þörf. Vilji annar kokkurinn skella rófum í súpuna, hlýtur hinn kokkurinn að velja aðra góða grænmetistegund á móti. Þannig hefur reyndin hins vegar ekki verið. Sjálfstæðiflokkurinn hefur óáreittur fengið að velja grænmeti, kjöttegundir og krydd í sína óvéfengjanlegu kjötsúpu. Hver þekkir ekki sögupersónurnar úr Nætur- og Dagvaktinni, þá Georg Bjarnfreðarson og Ólaf Ragnar. Oft á tíðum hefur virst sem samstarfsflokkar frjálshyggjunnar hafi verið viljalaust verkfæri í hlutverki Ólafs Ragnars. Meðan Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar og dóminerað aðkomu sína að súpunni, með réttu eða röngu. Hefur skipað þessum saklausu einfeldningum fyrir verkum. Sent þá til að slátra búfé í súpuna og afhýða rófur og kartöflur. Skítverk frjálshyggjunnar hafa fallið í hlut samstarfsflokka frjálshyggjunnar í nær tvo áratugi. Samstarfsflokkarnir hafa rétt frjálshyggjunni hráefni í hina íslensku kjötsúpu., oft á tíðum hráefni sem vitað er að ekki á heima í þeirri tegund af kjötsúpu sem flestir vilja leggja sér til munns.

Hland Browns í súpunni
Það þarf víst örugglega ekki að fjölyrða um þær staðreyndir sem nú blasa við í íslenskum þjóðarbúskap. Ég man að góður vinur sagði í október: “Við erum búin að vera.” Ég vona að það sé ekki reyndin, en á erfitt með að finna setningu sem lýsir stöðu okkar betur. Helsta trú frjálshyggjumanna er að Gordon Brown hafi migið í súpuna með hjálp Evrópusambandsins. Það má kannski segja að meistari Brown hafi lagt til hland í súpuna. En það má líka með sanni segja að Sjálfstæðismenn hafi hleypt manninum inn í eldhúsið og haldið í hjá honum meðan hann sullaði í súpuna. Þeir segjast ekki hafa séð það fyrir.

Nú vill það aðalsfólk sem hefur hrært fyrir okkur úldna, viðbrennda og óæta súpu með kæfusoðnu kjöti halda áfram að hræra okkar íslensku kjötsúpu. Fyrir mitt leyti get ég ekki gefið leyfi fyrir því. Lélegur kokkur leggur alltaf upp með að elda dýrindis máltíð, hann vill matargestum jú allt hið besta. Þegar matargestir liggja á gjörgæslu með matareitrun eftir svoleiðis kokk, þá hlýtur kokkurinn sjálfur að sjá að ef til vill væri rétt að láta aðra matreiðslumenn sjá um ómakið. Svona meðan hann fer yfir uppskriftabók sína og lærir að elda nýja rétti.

Smjörklípur Sjálfstæðismanna
Sjálfstæðismenn hafa sagt: “Enginn gat séð þetta fyrir.....”, “20-30 einstaklingar urðu okkur að falli.....”, “Gordon Brown er vondur maður.....”, “Jón Ásgeir setti Ísland á hausinn......” “Björgólfur segir ekki satt.....” og svo ótal margt annað. Eilítið sannleikskorn í hverri setningu, en hvergi komið að kjarna málsins. Allt sem þeir segja er til þess fallið að draga athyglina frá því hver var yfirkokkur í þessu samkvæmi. Kokkurinn slökkti ekki undir súpu sem löngu var soðinn upp úr og ólyktina lagði um gjörvalla Evrópu. Fyrir mitt leyti læt ég ekki blindast af eitraðri gufu Frjálshyggjusúpunnar. Ég vill fá nýja uppskrift og nýjan kokk. Standir þú uppi með úldna súpu þá hrærir þú ekki í hina áttina – þú byrjar með hreinan og nýþveginn pott.

fimmtudagur, 1. janúar 2009

Frábær Ólafur Ragnar Grímsson

Nýársávarp forseta Íslands: bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla í einhverjum kjánalegum rhythma - svona eins og þegar reynt er að sefa ungabörn.

Króna/EURO