Forsíðuskríbent blaðsins er enginn annar en Kristján Þór Júlíusson, 1. þingmaður Norðausturlands. Leiðinlegt að boðskapur Kristjáns berist ekki norður yfir heiðar - því hann er hreint æðislegur. Grípum niður í skrif Kristjáns:
"Sumir ganga jafnvel svo langt að líkja ástandinu við kreppuárin miklu á Íslandi milli stríða. Hvílík fásinna, heyr á endemi."
Svo hnykkir 1. þingmaðurinn á málflutningi sínum með ákaflega velvöldu ljóði eftir Sigurð Breiðfjörð:
"Ég er snauður, enginn auður,
er í hendi minni.
Nærri dauður, drottins sauður,
í djöfuls vesöldinni."
Það er ekki langt síðan ég velti því jafnvel fyrir mér að Kristján væri vandaður maður, um tíma hrósaði ég honum jafnvel í hljóði - nú get ég ekki annað en iðrast fyrrverandi hugsana minna.
_____________________________
Í sama blaði á síðu tvö svarar Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar spurningalista frá ritnefnd Þingmúla um samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi. FRÁBÆRT. Það hefur sjálfsagt kostað marga ritnefndarfundi að semja svo velyddaðar, eitraðar og gagnrýnar spurningar.
_____________________________
Á síðu þrjú skrifar Ólöf Nordal alþingiskona Sjálfstæðisflokksins um það hversu illa allir voru undirbúnir bankahruninu, já og erfitt geti verið fyrir almenning að greiða lausaskuldir - stórkostleg uppgötvun.
_____________________________
Á síðu fjögur svarar Valdimar Hermannsson í Fjarðabyggð sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö.
_____________________________
Á síðu fimm svarar Ólafur H. Sigurðsson á Seyðisfirði sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö og fjögur.
_____________________________
Á síðu sex skrifar Adolf Guðmundsson, útgerðarmaður á Seyðisfirði og formaður LÍÚ um mikilvægi sjávarútvegsins og andstöðu útvegsmanna við inngöngu í Evrópusambandið. Kemur á óvart. Fyrirtæki hans Gullberg auglýsir á síðu þrjú.
_____________________________
Á síðu sjö skrifar Þráinn Lárusson hreint ágætis hugleiðingu um einelti.
_____________________________
Á síðu átta skrifar Katla Steinsson um ferðaþjónustu.
_____________________________
Á síðu níu skrifar Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi algjöra tímamótagrein um álver Alcoa. Hún greinir frá því eins og komið hefur fram í tugi skipta í öllum fjölmiðlum að hjá fyrirtækinu starfi nokkur hundruð manns, álverið sé algjörlega fullkomið, lágmörkun áhrifa framleiðslunnar á umhverfið og íbúafjölgun.
_____________________________
Á síðu tíu skrifar þingflokksformaðurinn og Seyðfirðingurinn, Arnbjörg Sveinsdóttir, um efasemdir sínar um inngöngu í Evrópusambandið. Hún hvetur alla Austfirðinga sem áhuga á hafa á Evrópumálum til að heimsækja: http://www.evropunefnd.is og svo óskar hún mér gleðilegrar jólahátíðar.
_____________________________
Því miður kemur hvergi fram hverjir eru í ritnefnd Þingmúla því um einstakt barátturit er að ræða...... þar sem öll helstu baráttu og stefnumál Sjálfstæðismanna er tíunduð - þ.e. Status Quo.
3 ummæli:
Þetta tímamótaverk verð ég að lesa næst þegar ég kem upp á Hérað. Maður vissi ekki nema lítið brot af því sem þarna kemur fram.
Er þetta spurningakeppni hjá Sjöllunum?
Greinilega tímamótarit sem maður hreinlega verður að fá í hendurnar.
Greinilegt að nú má ritstjóri Herðubreiðar fara að vara sig...
Skrifa ummæli