föstudagur, 2. janúar 2009

Íslenska kjötsúpan

Í byrjun árs:

Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið við völd á Íslandi og haft forsæti að einu ári undanskildu allt frá því Viðeyjarstjórnin varð staðreynd árið 1991. Þá var hafist handa við að hræra íslenska kjötsúpu, þá dýrindis máltíð. Nú eru tæpir tveir áratugir liðnir og frjálshyggjan hefur staðið við kjötkatlana og hrært í súpunni án þess að svo mikið sem eitt atkvæði hafi truflað einbeitinguna. Flokkurinn hefur náð fram sínum helstu stefnumarkmiðum, og í raun fátt að finna í stefnuskrá flokksins sem ekki hefur komist í framkvæmd. Sjálfstæðiflokkurinn er því í reynd farsælasti stjórnmálaflokkur Íslandssögunnar því hann hefur náð fram lykilatriðum í stefnu sinni, með fulltingi samstarfsflokka sinna. Fyrst Alþýðuflokks, síðar Framsóknarflokks og nú Samfylkingar. Hugsjónir Sjálfstæðismanna hafa verið framkvæmdar, án truflunar.

Í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar
Þegar að hræra á í góða kjötsúpu skal vandað vel til verks. Besta mögulega hráefni er valið. Þegar að tveir kokkar elda sömu súpuna er augljóst að málamiðlunar er þörf. Vilji annar kokkurinn skella rófum í súpuna, hlýtur hinn kokkurinn að velja aðra góða grænmetistegund á móti. Þannig hefur reyndin hins vegar ekki verið. Sjálfstæðiflokkurinn hefur óáreittur fengið að velja grænmeti, kjöttegundir og krydd í sína óvéfengjanlegu kjötsúpu. Hver þekkir ekki sögupersónurnar úr Nætur- og Dagvaktinni, þá Georg Bjarnfreðarson og Ólaf Ragnar. Oft á tíðum hefur virst sem samstarfsflokkar frjálshyggjunnar hafi verið viljalaust verkfæri í hlutverki Ólafs Ragnars. Meðan Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar og dóminerað aðkomu sína að súpunni, með réttu eða röngu. Hefur skipað þessum saklausu einfeldningum fyrir verkum. Sent þá til að slátra búfé í súpuna og afhýða rófur og kartöflur. Skítverk frjálshyggjunnar hafa fallið í hlut samstarfsflokka frjálshyggjunnar í nær tvo áratugi. Samstarfsflokkarnir hafa rétt frjálshyggjunni hráefni í hina íslensku kjötsúpu., oft á tíðum hráefni sem vitað er að ekki á heima í þeirri tegund af kjötsúpu sem flestir vilja leggja sér til munns.

Hland Browns í súpunni
Það þarf víst örugglega ekki að fjölyrða um þær staðreyndir sem nú blasa við í íslenskum þjóðarbúskap. Ég man að góður vinur sagði í október: “Við erum búin að vera.” Ég vona að það sé ekki reyndin, en á erfitt með að finna setningu sem lýsir stöðu okkar betur. Helsta trú frjálshyggjumanna er að Gordon Brown hafi migið í súpuna með hjálp Evrópusambandsins. Það má kannski segja að meistari Brown hafi lagt til hland í súpuna. En það má líka með sanni segja að Sjálfstæðismenn hafi hleypt manninum inn í eldhúsið og haldið í hjá honum meðan hann sullaði í súpuna. Þeir segjast ekki hafa séð það fyrir.

Nú vill það aðalsfólk sem hefur hrært fyrir okkur úldna, viðbrennda og óæta súpu með kæfusoðnu kjöti halda áfram að hræra okkar íslensku kjötsúpu. Fyrir mitt leyti get ég ekki gefið leyfi fyrir því. Lélegur kokkur leggur alltaf upp með að elda dýrindis máltíð, hann vill matargestum jú allt hið besta. Þegar matargestir liggja á gjörgæslu með matareitrun eftir svoleiðis kokk, þá hlýtur kokkurinn sjálfur að sjá að ef til vill væri rétt að láta aðra matreiðslumenn sjá um ómakið. Svona meðan hann fer yfir uppskriftabók sína og lærir að elda nýja rétti.

Smjörklípur Sjálfstæðismanna
Sjálfstæðismenn hafa sagt: “Enginn gat séð þetta fyrir.....”, “20-30 einstaklingar urðu okkur að falli.....”, “Gordon Brown er vondur maður.....”, “Jón Ásgeir setti Ísland á hausinn......” “Björgólfur segir ekki satt.....” og svo ótal margt annað. Eilítið sannleikskorn í hverri setningu, en hvergi komið að kjarna málsins. Allt sem þeir segja er til þess fallið að draga athyglina frá því hver var yfirkokkur í þessu samkvæmi. Kokkurinn slökkti ekki undir súpu sem löngu var soðinn upp úr og ólyktina lagði um gjörvalla Evrópu. Fyrir mitt leyti læt ég ekki blindast af eitraðri gufu Frjálshyggjusúpunnar. Ég vill fá nýja uppskrift og nýjan kokk. Standir þú uppi með úldna súpu þá hrærir þú ekki í hina áttina – þú byrjar með hreinan og nýþveginn pott.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill og góð líking.

Króna/EURO