Það er stórmerkilegt frumkvöðlastarf sem bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa tekið að sér. Þar er embættismönnum nú í sjálfsvald sett hvernig þeir velja sér starfsheiti. Bæjarstjóri hefur nú þess kost að nefna sig bæjarstýru, og tekur þannig stöðuheiti gildishlaðið karlaveldinu og breytir því í kvenkynsnafnorð. Af því að hún er kona.
Þetta er góðra gjalda vert og sporgöngumennska af hálfu bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð. Upphaflega vandamálið við karlkynsorðið “stjóri” er þó frekar takmarkað af íslenskri tungu, heldur en þröngsýni karlaveldisins. Líklegt er að aðrir embættismenn, eða öllu heldur embættiskonur nýti sér þessa heimild til að breyta starfsheiti sínu. Kvenkyns skólastjóri getur nú kallað sig skólastýru. Leikskólastjóri getur kallað sig leikskólastýru. Svo er aftur erfiðara að sjá fyrir hvar kynbreyting nafnorða lýkur í bæjarkerfinu. Mun kvenkyns skólabílstjóri vilja breyta starfsheiti sínu í skólabílstýra? Þetta er erfitt að sjá fyrir. Mun kvenkyns launafulltrúi fara fram á að vera kölluð launastýra? Hvernig fer fyrir orðinu yfirmaður, verður því breytt í yfirkona? Verður orðinu “ræstitæknir”, sem nú er sátt um, breytt í ræstitækna – eða verður horfið aftur til orðsins “ræstingakona” sem þótti niðrandi starfsheiti?
Gömul orðræða er til um starfsheitið sjómaður. Eins og viðhorfin í samfélaginu hafa verið til þessa, hefur þótt góðra gjalda vert að kona sé kölluð sjómaður. Skildi kona vera stoltari af nafnbótinni skipstýra, heldur en skipstjóri? Ætti iðnskólinn að hætta að veita kvenkynsútskriftarnemum “sveinsbréf”, og afhenda þeim “stúlkubréf”? Vill kvenkyns “bóndi” breyta starfsheiti sínu í “bænda” eða hvurnig á að leysa málið fyrir allt samfélagið – það þýðir varla að byrja á toppnum án þess að hugsa málið til enda.
Við nánari skoðun og vangaveltur hef ég komist að því að það sem virðist við fyrstu sýn vera mikilvægt jafnréttismál kynjanna, er í raun höft hinnar íslensku tungu. Aðgreining kynjanna verður með titlabreytingum embættismanna og embættiskvenna augljósari en áður. Að koma í veg fyrir aðgreiningu kynjanna er hins vegar upphaflegi tilgangurinn ef ég skil umræðuna rétt. Fyrir ekki svo löngu vildu forkólfar kvennabaráttunnar jafnvel að nýburar yrðu ekki kyngreindir með bláum og bleikum göllum á fæðingardeildum spítalanna. Þó er í sömu andrá farið fram á kyngreiningu á starfsheitum bæjarstarfsmanna. Í þessu felst ákveðinn tvískinnungur.
Það er umhugsunarefni hvað langt eigi að ganga í að breyta tungumálinu til þess eins að starfsheiti falli að réttu kyni. Starfsheiti er jú falið að lýsa innihaldi starfs, en ekki kyni starfsmannsins/starfskonunnar. Sé starfsheiti breytt eftir kyni fer það meira að snúast um einstaklinginn sem gegnir starfinu heldur en að lýsa starfinu sem einstaklingurinn gegnir. Það var hinn upphaflegi tilgangur, og kvenréttindabarátta ætti að snúa að öðrum hlutum sem enn hafa ekki náð fram.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ef ég skil þetta rétt, þá ræður kvennkynsyfirmaður í Fjarðabyggð hvort hún sé köllu stýra eða stjóri! En karlkynsyfirmaður? ræður hann því? má hann vera kallaður stýra? eða á orðið stjóri engöngu við hann? er það þá jafnrétti ef konur mega ráða en ekki karla?
Spyr sá sem ekki veit (en mun hugsanlega héðan í frá kalla Ingibjörgu Sólrúnu ráðherfu)
Skrifa ummæli