föstudagur, 7. mars 2008

Ævintýri Superman

Á móti skrifstofu minni á Reyðarfirði er staðsett gult bárujárnshús. Þar býr kona um sjötugt. Ég dáðist að henni með öðru auganu í morgun þegar hún mokaði fleiri rúmmetrum af snjó af bílastæðinu sínu. Þetta tók hana svona tvær klukkustundir. Þegar hún lagði frá sér álskófluna við útidyrna heyrðist vélargnýr sem færðist nær og nær. Ég sperrti eyrun, um leið og ég sá hvernig augnlok hennar drógust upp og höfuð hennar reygðist fram.

Vélargnýrin yfirgnæfði loks þögnina í götunni, og traktorsgrafa bæjarins færðist nær og nær. Um leið og hún lagði hönd sína á hjartað, og virtist fyllast angist. Brunaði traktorsgrafa bæjarins framhjá og fyllti bílastæði hennar af snjó á nýjan leik. Hún sneri sér við í snatri, opnaði útidyrahurðina og gekk inn. Þegar vélargnýrin fjarlægðist óðum og þögn var að komast á, þá mátti heyra dyninn í hurðastafnum þegar konan skellti hurðinni af fullu afli.

Ég tók af mér gleraugun. og smellti mér í Superman búninginn, flaug yfir götuna og mokaði snjó í gríð og erg af bílastæði hennar. Eftir að Súpermann hafði mokað af offorsi í um 20 mínútur varð leið bifreiðar hennar greið út úr bílastæðinu á nýjan leik. Kevin Klark þóttist lítið vita þegar hún gerði sér ferð yfir götuna til að þakka fyrir - en hann þáði þó mjólkurglas og hafrakex með osti og smjöri í gullituðu bárujárnshúsi.

Góða helgi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kevin Klark? Ertu að meina Clark Kent? :-)

Nafnlaus sagði...

Hann heitir annað á austfjörðum, og gaman að þú ert ennþá á lífi Einar minn...spurning um góða veislu svona áður en þú lendir í bóndanum!

Nafnlaus sagði...

Þú ert greinilega góður maður :)

Króna/EURO