föstudagur, 31. október 2008

Ritstjórastóllinn kvaddur

Það tíðkast meðal þýskra blaðamanna að skrifa eins og eina frétt sem er uppspuni frá rótum þegar þeir færa sig um set í starfi. Hér er kveð ég Austurgluggann með þýska hefð í huga.

Var að ljúka við að taka föggur mínar af skrifborði Austurgluggans. Síðasti leiðari minn í bili birtist í gær. Langar til að birta hann hér, að sjálfsögðu með mínu leyfi:

Ég bið að heilsa

Nú skrifa ég síðasta leiðarann fyrir Austurgluggann að sinni.

Fljótlega eftir að ég tók við starfi ritstjóra og eina fasta blaðamanns Austurgluggans komst ég í raun um að margir Austfirðingar hafa í raun ótrúlegan áhuga á útgáfu héraðsfréttablaðsins. Mestur áhugi beinist að því hvað skal standa og um hvað er fjallað í héraðsfréttablaðinu. Kröfurnar eru talsverðar, og að sumu leyti óaðgengilegar fyrir blaðamenn. Flestir lesendur blaðsins hafa stutt þá trú mína að fréttaumfjöllun skuli vera áleitinn og aðgangshörð gagnvart valdhöfum hverju sinni. Sumir lesendur blaðsins hafa hins vegar í gegnum tíðina valið að persónugera fréttaflutning blaðsins. Fréttaskrifarinn hljóti að byggja á persónulegri óvild og hatrammri pólitík við skrif sín. Þessu hafa margir ágætis blaðamenn kynnst í gegnum tíðina. Nokkrir fínustu blaðamenn sem starfað hafa við héraðsfréttablöð á Austurlandi, og starfa nú á stærri fjölmiðlum, hafa fundið smjörþefinn og kannski allan þefinn af slíkri gagnrýni.

Upplýsandi fréttaflutningur

Stór hluti austfirskra valdhafa og stjórnenda hafa skýra skoðun hvað varðar útgáfu og efni héraðsfréttablaða. Þeim finnst að blaðið skuli sinna almannatengslum fyrir Austurland. Leyfa Austurlandi að líta sem best út og vera kynning á fjórðungnum. Hlutverk sem gagnast Austurlandi mjög skammt, því hlutfallslega mjög fáir utan fjórðungs líta blaðið augum. Velji héraðsfréttablað að fara leið almannatengsla í skrifum sínum, þá væri ef til vill ráð að dreifa blaðinu alls staðar annars staðar en á Austurlandi. Svo íbúar Íslands sjái hversu frábær við erum. Mín skoðun er hins vegar sú að okkar héraðsfréttablað skuli vera vettvangur málefna okkar svæðis, ekki umfjöllun um það sem við viljum að aðrir haldi eða hugsi um okkur.

Svæðisbundinn fréttamiðill hefur ákveðið hlutverk. Hlutverkið ber að taka alvarlega. Að stunda gagnrýninn og upplýsandi fréttaflutning af sveitarstjórnarmálum, landsmálum, félögum, fyrirtækjum, menningu, mönnum og málefnum. Ræki fréttamiðill ekki slíkt hlutverk er hann í raun ónýtur og ónothæfur lesendum sínum. Fréttamiðill sem birtir einungis jákvæð valin skrif og það sem sumir kjósa að kalla uppbyggjandi umfjöllun um fyrirtæki og valdhafa rækir ekki sitt hlutverk sem fjórða valdið. Fjórða valdið skal ekki aðeins vera til í bíómyndum eða í Reykjavík heldur einnig á okkar svæði. Það er mín skoðun. Skrif sem einungis byggjast á því að fróa okkur Austfirðingum á hversu frábær við erum geta varla talist ábyrg. Þannig skrif binda okkur í sama skóinn til framtíðar. Ábyrgðin felst í því að benda á það sem betur má fara eða gæti talist gagnrýnivert, og að veita hópum og einstaklingum pláss fyrir skoðanir sýnar og hugsjónir. Hafi fjölmiðillinn eða viðmælendur rangt fyrir sér, þá er enginn skaði skeður. Því umræðan leiðir málin til lykta. Það er hættulegt þegar stjórnmálahópar eða fyrirtæki komast að þeirri niðurstöðu að ef neikvæð umfjöllun fer fram um ákveðið málefni, þá stafi þau af persónulegri óvild eða skítseyðishætti. Austurglugginn hefur undanfarið ár leitast við að hafa rétt eftir viðmælendum sínum, og leyfa lesendum að dæma um hvort þeir hafi rangt eða rétt fyrir sér.

Eftirlitshlutverkinu hefur Austurglugginn reynt að sinna af bestu getu. Sérstaklega gagnvart tveimur stærri sveitarfélögunum á Austurlandi, Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði. Þó auðvitað hefði mátt í mörgum málum ganga lengra eða gera betur.

Austfirskur auglýsingamarkaður

Því miður er staðreynd að héraðsfréttablaðið hefur átt undir högg að sækja lengi vel. Tekjugrunnur þess er ekki stór, enda markaðssvæðið lítið. Traustar tekjur byggjast því á traustum lesendum og traustum auglýsendum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður að mörg fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi mættu rækja samfélagslegt hlutverk sitt betur. Því miður velja þessar stofnanir að mjög litlu leyti að auglýsa í héraðsfréttablaðinu, og kjósa að auglýsa í sérstökum auglýsingapésa sem inniheldur sjónvarpsdagskránna á nokkrum síðum, auk auglýsinga frá fyrirtækjum og stofnunum sem telja tugi síðna. Það er slæmt þegar auglýsingabæklingur er orðinn sá miðill sem Austfirðingar byggja á sem aðalfréttamiðil. Auglýsingar opinberra aðila eru alvöru lesefni og nauðsynlegt. Því er slæmt að hafa þær auglýsingar að miklu leyti ekki í héraðsfréttablaðinu eins og tíðkast hefur með önnur héraðsfréttablöð á Íslandi. Þessa stöðu á austfirskum auglýsingamarkaði má skýra með fleiri sjónarmiðum – smæð markaðarins, áunna hefð og verð.

Austfirðingar af lífi og sál

Sem ungur maður sem elskar Austurland af lífi og sál hef ég á margan hátt verið duglegur við að tala máli Austfirðinga í mörgum pólitískum málum. Fjallað um frábært framtak einstaklinga í sjálfboðavinnu á vegum félagasamtaka á Austurlandi og marga frábæra viðburði. Þannig hefur meirihluti umfjöllunar undir minni stjórn fjallað um menningu okkar á jákvæðan hátt. Þar sem oft á tíðum er lyft grettistaki, án þess að einstaklingarnir vonist eftir því að fá nokkuð í staðinn persónulega. Þessum drifkrafti hrífst ég óendanlega mikið af, og er þakklátur fyrir allar þær frábæru konur og karla sem seint þreytast við að sinna hugsjónastarfi í heimabyggð. Það er arfleifð sem Austfirðingar byggja á. Þessu fólki sýni ég djúpa og sanna virðingu. Í mínu starfi hef ég kynnst mörgu af þessu dugmikla og kröftuga fólki. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þau ánægjulegu gefandi kynni og stundir sem ég hef átt með því fólki á mínum tíma á blaðinu.

Við starfi mínu á Austurglugganum tekur reyndur blaðamaður, Steinunn Ásmundsdóttir, sem starfaði um árabil á Morgunblaðinu. Ég veit að hún mun styrkja blaðið og leyfa því að vaxa og dafna.

Á blaðsíðunni hér til hliðar birti ég nokkrar ljósmyndir sem mér þykir vænt um eða höfða til mín einhverra hluta vegna.

Ég bið að heilsa – góðar stundir.

 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

REKINN EÐA ?

Króna/EURO