föstudagur, 2. janúar 2009

Stórkostleg útgáfa Þingmúla

Inn um bréfalúguna hefur flogið í dag aldeilis frábært blað með bláum haus. Þingmúli heitir það. Málgagn sjálfstæðifélags Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri.

Forsíðuskríbent blaðsins er enginn annar en Kristján Þór Júlíusson, 1. þingmaður Norðausturlands. Leiðinlegt að boðskapur Kristjáns berist ekki norður yfir heiðar - því hann er hreint æðislegur. Grípum niður í skrif Kristjáns:

"Sumir ganga jafnvel svo langt að líkja ástandinu við kreppuárin miklu á Íslandi milli stríða. Hvílík fásinna, heyr á endemi."

Svo hnykkir 1. þingmaðurinn á málflutningi sínum með ákaflega velvöldu ljóði eftir Sigurð Breiðfjörð:

"Ég er snauður, enginn auður,
er í hendi minni.
Nærri dauður, drottins sauður,
í djöfuls vesöldinni."

Það er ekki langt síðan ég velti því jafnvel fyrir mér að Kristján væri vandaður maður, um tíma hrósaði ég honum jafnvel í hljóði - nú get ég ekki annað en iðrast fyrrverandi hugsana minna.

_____________________________

Í sama blaði á síðu tvö svarar Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar spurningalista frá ritnefnd Þingmúla um samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi. FRÁBÆRT. Það hefur sjálfsagt kostað marga ritnefndarfundi að semja svo velyddaðar, eitraðar og gagnrýnar spurningar.

_____________________________

Á síðu þrjú skrifar Ólöf Nordal alþingiskona Sjálfstæðisflokksins um það hversu illa allir voru undirbúnir bankahruninu, já og erfitt geti verið fyrir almenning að greiða lausaskuldir - stórkostleg uppgötvun.

_____________________________

Á síðu fjögur svarar Valdimar Hermannsson í Fjarðabyggð sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö.

_____________________________

Á síðu fimm svarar Ólafur H. Sigurðsson á Seyðisfirði sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö og fjögur.

_____________________________

Á síðu sex skrifar Adolf Guðmundsson, útgerðarmaður á Seyðisfirði og formaður LÍÚ um mikilvægi sjávarútvegsins og andstöðu útvegsmanna við inngöngu í Evrópusambandið. Kemur á óvart. Fyrirtæki hans Gullberg auglýsir á síðu þrjú.

_____________________________

Á síðu sjö skrifar Þráinn Lárusson hreint ágætis hugleiðingu um einelti.

_____________________________

Á síðu átta skrifar Katla Steinsson um ferðaþjónustu.

_____________________________

Á síðu níu skrifar Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi algjöra tímamótagrein um álver Alcoa. Hún greinir frá því eins og komið hefur fram í tugi skipta í öllum fjölmiðlum að hjá fyrirtækinu starfi nokkur hundruð manns, álverið sé algjörlega fullkomið, lágmörkun áhrifa framleiðslunnar á umhverfið og íbúafjölgun.

_____________________________

Á síðu tíu skrifar þingflokksformaðurinn og Seyðfirðingurinn, Arnbjörg Sveinsdóttir, um efasemdir sínar um inngöngu í Evrópusambandið. Hún hvetur alla Austfirðinga sem áhuga á hafa á Evrópumálum til að heimsækja: http://www.evropunefnd.is og svo óskar hún mér gleðilegrar jólahátíðar.

_____________________________

Því miður kemur hvergi fram hverjir eru í ritnefnd Þingmúla því um einstakt barátturit er að ræða...... þar sem öll helstu baráttu og stefnumál Sjálfstæðismanna er tíunduð - þ.e. Status Quo.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta tímamótaverk verð ég að lesa næst þegar ég kem upp á Hérað. Maður vissi ekki nema lítið brot af því sem þarna kemur fram.

Er þetta spurningakeppni hjá Sjöllunum?

Nafnlaus sagði...

Greinilega tímamótarit sem maður hreinlega verður að fá í hendurnar.

Nafnlaus sagði...

Greinilegt að nú má ritstjóri Herðubreiðar fara að vara sig...

Króna/EURO