laugardagur, 10. janúar 2009

Sátt um fiskinn okkar

Ég er einn af þeim stunda upphrópanir án lausna annað slagið.

Ég hef frábæra(?) hugmynd um tiltekna lausn, sem ég vona að fleiri hafi eða fái.

Málið varðar sjávarútveginn sem er skuldsettur að fullu, og rúmlega það. Ég legg til að það verði skoðað af fullri alvöru að gera eftirfarandi:

1. Kalla alla útvegsmenn á fund.

2. Tilkynna þeim að ríkið hafi leyst til sín öll veð á kvóta frá íslensku bönkunum.

3. Tilkynna þeim um að ríkið hafi leyst til sín öll veðbönd á íslenskum kvóta erlendis.

4. Tilkynna þeim að í upphafi næsta fiskveiðiárs hafi þeir sama kvóta og áður, en veðskuldir þeirra hafi verið felldar niður, þar sem ríkið fari nú með veiðiheimildirnar og eigi þær.

5. Tilkynna þeim að næsta veiðiár á eftir standi eftir 90% veiðiheimildum þeirra. 10% kvótans verði boðin til leigu á frjálsum markaði, og þurfi þeir að greiða sama einingaverð fyrir restina af veiðiheimildunum eins og markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir 10%. Að öðrum kosti þurfi þeir að leggja veiðiheimildarnar inn og skila þeim. Þannig sé þeim veitt aðlögun og skilyrði til að hagnast af fiskveiðum á nýjan leik, án þess að of stór veiðiheimilda sé felldur niður á skömmum tíma.

6. Tilkynna þeim að árlega eftir þetta taki ríkið til sín 20% veiðiheimildum þeirra og bjóði út á frjálsum leigumarkaði. Þeim sé frjálst að bjóða í á frjálsum markaði.

7. Tilkynna þeim að þeir megi víkja af fundinum og halda áfram að veiða fisk.

8. Í framhaldinu ákveðið að sömu lög gildi fyrir öll skip og báta, sama af hvaða þyngd þau eru.

9. Tilkynnt um að allar tekjur af útleigu á fiskveiðiheimildum verði nýttar til að greiða niður tap
þjóðarinnar á niðurfellingu veðskulda sjávarútvegsins í nokkra áratugi.

10. Tilkynnt um að leigukvóta sé hægt að versla með á frjálsum markaði, enda ekki um varanleg veiðiréttindi að ræða. Þannig fái þjóðin hámarksarð af veiðiheimildum.

11. Tilkynnt um að auðlindaráðherra fari með málefni sjávar- og olíiuauðlinda og honum verði falið að starfa eftir nýjum lögum um auðlindaleigu.

12. Tilkynnt um að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í átt að þjóðarsátt. Málið hafi borið brátt að og aðeins framkvæmt á tveimur vikum, því muni stjórnvöld áskilja sér rétt til að sníða af því alla þá annmarka sem upp geti komið.

Tiltölulega einfalt mál eða hvað?

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð hugmynd.
Mætti framkvæma hana hraðar en þú leggur til.
Verst að þarna kemst Ingibjörg Sólrún, eyðsludrottning, með krumlurnar í peningana okkar.
En við losnum við auðjöfrana.

Bárður

Björn Jónasson sagði...

Þarf ekki að ræða frekar.

Unknown sagði...

Málið er ekki flóknara en þetta.

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt of klunnaleg og hægfara aðgerð, Einar. Kvótahafar hafa allt of lengi fengið að njóta þeirra forréttinda, að hafa mátt veiða ákveðinn kvóta, án greiðslu, í langan tíma. Þetta eru allt of mikil forréttindi og grundvöllurinn að niðurstöðu Mannréttindanefndar SÞ um misrétti til sjós. - Þessvegna verður að gera þetta í einni, eða sem næst, athöfn. Þeir menn, sem hafa nýlega keypt sinn kvóta á gangverði, verði bara að bíta í súrt eppli. Hvað með alla þá, sem hafa gert óhagstæð viðskipti að undanförnu? Hafa þeir ekki tapað og hver grætur þeirra örlög? - Nei, nei. Ef menn hafa gert óskynsamleg viðskipti, þá hafa þeir mátt vita betur. Kvótasala hefur allan tímann verið harðlega gagnrýnd og allir þeir, sem keyptu, eru bara kjánar, sem hafa haldið, að svínarí sé ekkert svínarí því margir aðrir hafa staðið í því, þrátt fyrir að það sé atferli gegn íslenskri réttarvitun og siðferðisgildum, já, og ólöglegt sbr. 1.gr. fiskveiðilaganna.

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú ekki annað en útfærsla á svokallaðri fyrningarleið Samfylkingarinnar, nema að viðbættum þessu forskeyti vegna veðanna, sem er auðvitað grunnforsenda þess að þetta takist. Auðvitað er þetta hægrafa aðgerð en um leið er þetta ekki ofbeldi þannig að í raun getur enginn kvartað þegar allt kemur til alls.

Nafnlaus sagði...

Reyndar hefur Samfylkingin ekki minnst á það nýlega.....

Nafnlaus sagði...

Kvótinn er í dag veðsettur 20 fallt á við verðgildi. Það þýðir að við fengjum aldrei upp í vaxtakostnað í tekjur af auðlyndinni. Þá vil ég frekar taka eigendur útgerðarinnar til gjaldþrotaskifta og leysa auðlyndina til þjóðarinnar ásamt öðrum eigum þeirra.

Bendi fólki svo á að koma á Borgarafundí kvöld klukkan 20 í Háskólabíó, en þar verður fjallað um stöðu þjóðarbúsins og mun Robert Wade m.a. halda ræðu. Ef við eigum að finna lausnir sem geta staðist verðum við að gera okkur betur grein fyrir hver staðan eiginlega er.

Héðinn Björnsson

Nafnlaus sagði...

Möguleiki, vissulega...

yoshino sagði...

halló
Þetta er Yoshino frá Japan.
Ég rannsóknir um þyngdartap og heilbrigt mataræði allan heim í mörg ár.
Ég skil ekki tungumálið svo mikið,
en mér finnst vefsvæði andrúmsloft þitt mjög gott.
Ég mun koma aftur, Takk

Króna/EURO