miðvikudagur, 23. janúar 2008

Vígahugur gæti lagað þetta

Það er nokkuð auðvelt að benda á það sem er að í leik íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í handknattleik, en líklega erfiðara að laga það í miðri keppni.

Leikurinn gegn Þjóðverjum í gær var líklega sá skásti sem liðið hefur leikið í keppninni til þessa sóknarlega. Eftir fádæma erfiða byrjun komst liðið lítillega inn í leikinn og átti þess kost að minnka muninn í eitt mark. Það tókst ekki.

Þegar að lagt var af stað í keppnina var Ólafur Stefánsson okkar stærsta númer. Hann lék hins vegar mjög slakan leik gegn Svíum, og dró sig út úr liðinu vegna meiðsla. Hlutverk Einars Hólmgeirssonar var að leysa Ólaf af, en skyndilega stóð hann frammi fyrir því að vera í byrjunarliðinu og á honum var mikil pressa. Því miður stóð hann ekki undir henni. Óþolinmæði þjálfarans virðist þar að nokkru leyti spila inn í. Líklega hefur Einar aldrei fengið lengri tíma en 4-8 mínútur í einu til að átta sig á aðstæðum og safna sjálfstrausti. Hann hefði þurft að fá lengri tíma í einhverjum tapleiknum.

Nú er Ólafur hins vegar aftur kominn í hópinn og lagaðist spilamennskan talsvert. Nokkrar hraðar og skemmtilegar sóknir litu dagsins ljós gegn Þjóðverjum í gær.

Markverðir íslenska liðsins eru ágætir, en ekki á heimsmælikvarða. Meðan að frábærir markverðir annarra liða eru að taka bolta sem skipta öllu máli þá taka okkar markmenn einungis sína "skyldubolta".

Vörnin var ágæt þangað til í gær. Baráttuleysi einkenndi varnarleikinn fyrstu 15 mínútur leiksins og einnig síðustu 15 mínútur leiksins í gær. Það var ekki að sjá okkar menn svitnuðu mikið fyrsta korterið.

En þegar á öllu er á botninn hvolft þá eru Svíþjóð, Frakkland og Þýskaland öll með sterkari og betri leikmenn en Íslendingar - vígahugur er það eina sem getur bjargað heiðri íslenska landsliðsins.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyrst og fremst vantar betri leikmenn.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst fyrirsögn á EM vef vísis frábær eftir leikinn gegn þjóðverjum. "Hetjuleg barátta dugði ekki til"! Hvaða hetjulega barátta? Liðið spilaði eins og það er þekkt fyrir í tuttugu mínútur í leiknum í gær og vísir kallar það hetjulega baráttu! Mér finnst það fyndið!

En ég spái íslandi sigri í dag og ef ekki þá hefðum við átt að senda b-landsliðið á EM

Króna/EURO