miðvikudagur, 16. janúar 2008

1 á móti 30 að Ísland sigri EM

Samkvæmt Sænskum veðbönkum er Íslandi spáð 10. sæti á EM í handbolta og eru líkurnar á að Ísland verði Evrópumeistari taldar vera 1/30. Á sama tímar eru Spáni og Frakklandi spáð sigri með líkunum 1/4,25.

Evrópukeppnin í handbolta byrjar á morgun hjá íslenska liðinu með ákaflega mikilvægum leik gegn Svíum. Sem betur fer stöndum við aðeins sterkari gegn Svíum en á árum áður þegar Faxi og félagar skildu okkur eftir í sárum hvað eftir annað. Frammistaðan gegn Tékkum á sunnudag og mánudag var ágæt, en dómararnir frá Danmörku dæmdu okkur öll vafaatriði í hag - og því gefa endanleg úrslit leikjanna falskt öryggi.

Sænskir handboltafræðingar segja leikinn gegn Íslandi á morgun ofurmikilvægan og ljóst er að allt mun verða lagt í sölurnar til að ná sigri.

Líklegt er að byrjunarlið Íslands verði svona:
Alexander Petterson (h.horn)
Ólafur Stefánsson (h.skytta)
Snorri Steinn (miðja)
Logi Geirsson (v.skytta)
Guðjón Valur (v. horn)
Róbert Gunarsson (lína)
Birkir Ívar (mark)

Erfiðast verður fyrir íslenska liðið að setja mörk úr hefðbundnum sóknum. Vörn Svíanna hentar tildæmis lágvöxnum skotmönnum eins og t.d Loga, Snorra Stein og Hannes Jóni frekar illa og ólíklegt er að þeir setji mörg mörk gegn Svíum. Þá er hlutverk Ólafs Stefánssonar mjög mikilvægt og verður hann að skjóta langskotum í markið í fyrri hálfleik, það myndi opna leiðir í gegnum varnarpakka Svía þegar á leikinn líður.

Ekki er ólíklegt að Garcia þurfi að koma inn í leikinn og freista þess að skjóta yfir vörn Svíanna. Þá er mikilvægt að Alfreð hafi sett upp leiðir til að Garcia nái hlaupaleið svo hann geti náð sér upp í loftið. Hann þarf flugbraut, er einfaldlega þannig leikmaður, frekar þungur á sér og lítið teknískur - hefur þó ágætis auga fyrir sendingum sem skila marki.

Markvarslan verður mesti höfuðverkur íslenska liðsins á EM. Gegn Svíum er það ráðgáta hvort Birkir Ívar eða Hreiðar byrji í markinu. En ég spái því að Birkir Ívar byrji leikinn, því hann hefur náð athyglisverðri frammistöðu gegn Svíþjóð í gegnum tíðina.

Svíarnir munu koma fullir sjálfstrausts til leiks eftir að hafa unnið Svisslendinga ansi auðveldlega 35-21 um helgina. Reyndar athyglisvert að þeir velji að spila gegn slöku liði Sviss svo skömmu fyrir mót.

6 ummæli:

Runar sagði...

Alltaf gaman að vangaveltum þó ég hafi ekki mikinn áhuga á handbolta.

En nema að þú vitir betur þá er Róbert Gunnarsson en ekki Gíslason.

Og þú minnist á dómgæsluna gegn Tékku, kíktu þá á skrif formanns dómaranefndar HSÍ um þessa dómara.
http://hsi-domarnefnd.blog.is/blog/hsi-domarnefnd/entry/415506/

Nafnlaus sagði...

Róbert Gíslason, starfsmaður HSÍ, verður himinlifandi af því að vera í væntu byrjunarliði þínu Einar. ;)

Einar sagði...

Þessi föðurnafnsvilla hefur verið löguð :)

Líklega rétt hjá þér að Róbert Gíslason hjá HSÍ væri ekki svekktur yfir því að vera í byrjunarliðinu.

Nafnlaus sagði...

Ég er ansi hræddur um að Garcia verði þarna í staðinn fyrir Loga. Alfreð virðist hafa svo mikið álit á kauða, en ég vona að Logi verði þarna svo lengi sem hann missi ekki vitið eins og á móti dönum í undanúrslitum HM.

Nafnlaus sagði...

Já og koma svo strákar......

Einar sagði...

Góð athugasemd hjá þér Ómar. En vonum tveir.

Króna/EURO