mánudagur, 28. janúar 2008

Sigursælan þjálfara eða sófasérfræðing

Í ljósi þess að Henry Birgissyn var stillt upp í íþróttaþætti sjónvarpsins í kvöld birti ég hér grein sem ég skrifaði snemma á síðasta ári. Kjarninn er hinn sami þó nokkrir hlutir hafi breyst síðan (aðallega rökstuðningu Henrys):

"Sigursæla þjálfara umfram sófasérfræðinga

Umræða um arftaka Alfreðs Gíslasonar þjálfara íslenska handknattleikslandsliðsins fór af stað í fámennum hóp manna þann 21. janúar eftir að landsliðið tapaði á móti Úkraínu á HM. Eftir keppnina gaf Alfreð Gíslason það út að hann ætlaði sér ekki að framlengja samning sinn sem rennur út í sumar. Síðan þá hefur Morgunblaðið lagt orð í belg um hugsanlegan eftirmann Alfreðs, en mestmegnis hefur umræðan verið í Fréttablaðinu þar sem blaðamaður blaðsins hefur látið í veðri vaka að öll spjót beinist að Geir Sveinssyni sem arftaka Alfreðs.

Síðast þjálfaði Geir Sveinsson handknattleikslið fyrir fimm árum, en hefur verið helsti “sófasérfræðingur” íslensks handknattleiks undanfarin misseri. Það að vera “sófasérfræðingur” felur m.a. í sér að gagnrýna örlagaríkar ákvarðanir eftir á og hafa sértækt vit á íþróttinni sem áhorfandi.

Það að nafn Geirs Sveinssonar sem arftaka Alfreðs Gíslasonar skuli vera haldið á lofti kemur á óvart.

Geir Sveinsson kom að meistaraflokksþjálfun í fyrsta og eina skiptið á árunum 1999 til 2002 sem þjálfari Vals. Geir stýrði liðinu tvö heil keppnistímabil og náði 9. sæti í deildarkeppninni árið 2000 og svo lenti liðið í 7. sæti árið 2001 með níu landsliðsmenn innanborðs. Það er mjög slakur árangur. Árangur Geirs Sveinssonar við þjálfun í meistaraflokki var langt undir væntingum fyrir 6-8 árum síðan og mér vitanlega hefur maðurinn ekki stundað þjálfun síðar.

Þann 8. febrúar sl. lætur blaðamaður Fréttablaðsins í veðri vaka að Geir henti vel í starfið vegna þess að hann var svo góður varnarmaður og þar sem að vörnin sé veikasta hlið íslenska liðsins sé hann besti maðurinn í starfið. Með sömu röksemdarfærslu ætti að vera hægt að bæta stökkkraft íslenska liðsins með því að ráða þjálfara sem stökk eitt sinn rosalega hátt. Ef svarið liggur í að finna mann sem lék eitt sinn góðan varnarleik væri ekki best að kalla til mann eins og Per Carlen fyrrverandi landsliðsmann Svíþjóðar?

Umræðan er á villigötum. Við ættum að spyrja okkur hvaða reynslu viljum við að landsliðsþjálfari okkar hafi. Ef við viljum eiga landslið í fremstu röð, hljótum við að ráða þjálfara í fremstu röð sem jafnframt hefur náð árangri í nútíma handknattleik. Sé litið til þeirra þjálfara sem komust hvað best frá HM í Þýskalandi þá er áberandi að um reynda og sigursæla menn er að ræða.

Enginn má vera ráðinn í starf af þessari stærðargráðu vegna þess að hann er drengur góður, hafi spilað marga landsleiki, hafi verið ágætur í vörn eða sé eðaldrengur. Þessu þarf stjórn HSÍ að gæta sín sérstaklega á þegar hún tekur fyrir ráðningu landsliðsþjálfara Íslands í handknattleik. Ekki má heldur taka tillit til þess ef einhver hefur ásælst starfið nokkrum sinnum og því sé ‘röðin komin að honum’.
Spurningin er, hvaða eiginleika og reynslu er æskilegt að landsliðsþjálfari liðs í fremstu röð í heiminum hafi, og svo er farið af stað og leitað að þeim sem uppfyllir kröfurnar best.

Umræðan hefur einnig verið um hvort ákveðnir þjálfarar séu of ungir og hvort ráða skuli innlenda eða erlenda þjálfara. Árangur gerir ekki mannamun og ef ungur þjálfari hefur skilað árangri þá á hann að sjálfsögðu að koma til greina. Þjálfarar geta búið yfir reynslu þótt ungir séu. Nöfn þeirra Dags Sigurðssonar og Arons Kristjánssonar hljóta að koma sterklega til greina og hingað til hefur það ekki þótt hindrun þó svo að menn séu ráðnir annars staðar þegar staða landsliðsþjálfara er annars vegar.

Það eru nokkrir þjálfarar hérlendis sem eru hæfir til starfans, en hafa af einhverjum orsökum ekki borið hátt á góma í umræðunni hingað til. Í fyrsta lagi er rétt að benda á það augljósa, Viggó Sigurðsson er ekki ráðinn hjá neinu liði sem þjálfari. Guðmundur Guðmundsson er einn hæfasti þjálfari okkar Íslendinga. Guðmundur ætti að vera öllum hnútum kunnugur hjá landsliðinu og vel til þess fallinn að festa það góða sem áunnist hefur í sessi.

Páll Ólafsson er sigursælasti þjálfari landsins hin síðari ár og maður með mikla reynslu. Hjá Val eru við stjórnvölin tveir hæfir þjálfarar, þeir Óskar Bjarni Óskarsson og Heimir Ríkarðsson. Heimir hefur sýnt það og sannað að hann getur náð mjög góðum árangri með unglingalandslið. Telji menn sig ekki finna þjálfara á heimsmælikvarða á Íslandi er það skylda HSÍ að finna slíkan mann erlendis.

Það er drengilegt af Alfreð Gíslasyni að gefa stjórn HSÍ svo góðan fyrirvara til að finna eftirmann sinn. Þennan tíma þarf að nota vel til að finna rétta manninn, mann með reynslu af því að ná árangri, mann sem festir sess landsliðsins meðal þeirra bestu í heimi. Það væri glapræði að nota tímann til að ráða næsta ‘sófasérfræðing’ í atvinnuleit."

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað með Jóhann Inga Gunnarsson. Ekki vantar hann reynsluna...

Nafnlaus sagði...

Af hverju er staðan ekki auglýst?

Hvað eru annars margir sem koma að ráðningu landsliðsþjálfara Íslands í handbolta? Hver tilnefnir? etc

Einar sagði...

Þetta er undir stjórn HSÍ og landsliðsnefnd komið.

Nafnlaus sagði...

Jóhann Ingi Gunnarsson formaður landsliðsnefndar er einn aðalmaðurinn í að velja næsta þjálfara, efast stórlega um að hann hafi áhuga.

Nafnlaus sagði...

Þú meinar væntanlega Henry Birgir Gunnarsson svo það sé rétt fært.

Króna/EURO