sunnudagur, 10. febrúar 2008

Ránvirkjun?

Nýtt arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar sem lítið fór fyrir í fréttum vegna borgarstjóraskipta í Reykjavík er birt á vef Landsvirkjunar. Það gerir ráð fyrir að hagnaður af virkjuninni reiknaður til núvirðis verði mun meiri en áætlanir fyrirtækisins gerðu ráð fyrir í fyrstu.

Jákvætt núvirði hækkar um 134%

Upphaflegt mat á arðsemi virkjunarinnar gerði ráð fyrir 11,9% arðsemi en nýtt og endurskoðað mat reiknast nú 13,4%. Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar umfram arðsemiskröfur eigenda er samkvæmt matinu 15,5 milljarðar og er það 8,9 milljarða hækkun frá upphaflegri áætlun. Reiknað jákvætt núvirði hefur því hækkað um 134% miðað við gefnar forsendur árið 2006.

Enn er uppi ágreiningur um bætur vegna vatnsréttinda virkjunarinnar, en þau voru tekin eignarnámi áður en framkvæmdir hófust. Nú þegar framkvæmdum er að ljúka hafa yfir sextíu landeigendur skotið ágreiningi um verðmæti vatnsréttinda til úrlausnar Héraðsdóms Austurlands. Sérstök matsnefnd kvað upp þann úrskurð í ágúst síðastliðnum að vatnsréttindin væru 1,6 milljarða króna virði. Aðeins örfáir vatnsréttarhafar sættust á þann úrskurð, utan við ríkið sem átti mestan hluta vatnsréttinda.

Of varfærið að mati Capacent

Við umfjöllun matsnefndar vatnsréttinda gagnrýndu lögmenn vatnsréttarhafa reikniaðferðir Landsvirkjunar og töldu þær of varfærnar. Samkvæmt mati Dr. Jón Þórs Sturlusonar hagfræðings var núvirtur arður eða hagnaður verkefnisins 35 milljarðar. Því er ljóst að enn ber mikið í milli þrátt fyrir endurbætt arðsemismat Landsvirkjunar. Eins og áður segir gerir nýtt mat fyrirtækisins ráð fyrir að jákvætt núvirði sé 15,5 milljarðar. Á heimasíðu fyrirtækisins segir hins vegar: “Capacent telur forsendur matsins „óþarflega varfærnar“ í nokkrum tilvikum.”

Árlegur hagnaður Kárahnjúkavirkjunar fyrir skatta er áætlaður 4,2 milljarðar á ári. Það tekur því fimm mánuði fyrir virkjunina að hagnast nægjanlega fyrir bótum til vatnsréttarhafa. Sé litið til þess að ríkið fer ekki fram á greiðslu bóta þá mun það taka um tvo mánuði fyrir virkjunina að hagnast til að fullgreiða fyrir vatnsföllin, sem eru einu aðföng virkjunarinnar um ókomna framtíð.

Nokkuð ljóst er að nýtt arðsemismat Landsvirkjunar hlýtur að gefa vatnsréttarhöfum ákveðnar væntingar um að bætur til þeirra verði reiknaðar hærri af Héraðsdómi heldur en matsnefndin gerði áður.

Engin ummæli:

Króna/EURO